fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Matur

Emmy Rossum gerir upp fortíðina: „Endalok á einhverju er byrjun á einhverju öðru“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Miðvikudaginn 16. janúar 2019 20:30

Leikkonan hætti óvænt í Shameless á síðasta ári.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Getur maður virkilega skilgreint sig með því að stíga á málmhlunk? Ég held ekki,“ segir leikkonan Emmy Rossum í löngu viðtali á vefsíðu Shape. Emmy er hvað þekktust fyrir leik í sjónvarpsseríunni Shameless og tók þátt í hreyfingunni I Weight á Instagram í fyrra, með það að markmiði að ýta undir jákvæða líkamsímynd.

„Í gegnum lífið hefur vigtin sagt mér að ég hafi bætt á mig eða þyngst, en þessi málmhlunkur veit það ekki í raun og veru. Hér er þyngdin mín,“ skrifaði hún þá á Instagram og með fylgdi listi yfir kosti hennar og afrek. Í viðtali við Shape segist hún ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar hún ákvað að taka þátt í hreyfingunni.

„Ég held að það sé mikilvægt að við hættum að einblína á ómerkilega hluti, eins og tölu, og byrjum að hugsa um okkar raunverulega gildi sem eitthvað sem við höfum afrekað en einnig hluti sem gera okkur sérstök og sterk,“ segir hún. „Útlitið er bara einn partur af þér. Það ákveður ekki hver þú ert eða hvers þú ert megnugur.“

Bæði ógnvekjandi og yndislegt

Emmy tilkynnti það óvænt í fyrra að hún væri hætt í Shameless-þáttunum eftir níu þáttaraðir. Hún segir það hafa verið tímabært.

Emmy í hlutverki Fionu.

„Ég gerði 110 þætti þar sem ég lék karakterinn Fionu og þetta hefur verið ótrúlegt ferðalag,“ segir hún. „Ég hef lært mikið um sjálfa mig sem manneskju og sem leikkonu. Mig langar að yfirgefa þáttinn á meðan ég elska hann enn og ég veit að hurðin er opin fyrir mig að snúa aftur ef mér líður vel með það. Ég er líka óskaplega stolt af því sem ég gat áorkað utan skjásins, eins og samningar mínar um launajafnrétti og áhrifin sem það hafði á aðrar konur í bransanum og almennt,“ segir Emmy, og vísar í baráttuna sem hún háði árið 2016 þar sem hún krafðist þess að fá jafnhá laun og meðleikari hennar í þáttunum, William H. Macy. Emmy segist hlakka til nýrra tíma þó erfitt sé að yfirgefa leikarafjölskylduna í Shameless.

„Ég lít þannig á það að endalok á einhverju er byrjun á einhverju öðru. Ég gæti ekki verið spenntari fyrir því að eyða tíma í að skrifa, leikstýra og sjá hvaða aðra karaktera mig langar að leika. Það er bæði ógnvekjandi og yndislegt.“

Tók mataræðið í gegn

Emmy hefur verið í mikilli sjálfsskoðun undanfarið og hefur lært ýmislegt um hvernig hún geti verið heilbrigðari og hamingjusamari.

„Ég fór í yfirhalningu í fyrra. Ég byrjaði að hlusta á líkamann um hvaða æfingar og matur lætur mér líða vel og hve mikinn svefn ég þarf í raun og veru. Samband mitt við hreyfingu hefur alltaf verið heilbrigt og árangursríkt, einkum út af því að hreyfing hefur hjálpað mér að draga úr streitu og kvíða. En ég er búin að breyta æfingunum mínum. Ég gerði alltaf erfiðar brennsluæfingar og stöðvaþjálfun en nú er ég búin að minnka það. Mér fannst eins og ég væri föst í mynstri að gera hluti því ég hélt að ég ætti að vera að gera það, ekki út af því að þeir færðu mér gleði, og mig langaði að æfingarnar gerðu mig varari um líkama minn. Þannig að ég byrjaði að gera æfingar í anda Pilates, sérstakt prógramm sem heitir GST, sem byggir á teygjum. Mér líður vel af því,“ segir Emmy. Varðandi mataræði þá lærði leikkonan einnig ýmislegt á þessari sjálfsskoðun.

Emmy á forsíðu Shape.

„Ég gerði mér grein fyrir að áfengi er ekki gott fyrir mig. Það hjálpar mér ekki að minnka streitu. Það veldur í raun meiri kvíða daginn eftir. Það hefur reynst mér vel að minnka neysluna og segja við sjálfa mig að mér eigi eftir að líða betur ef ég fæ mér ekki vín í kvöld,“ segir leikkonan.

„Ég nálgast mat og hreyfingu á heildrænan máta. Ég er í meira jafnvægi og í tengslum við sjálfa mig. Það er eins og ég lifi nú í líkamanum sem ég á að vera í.“

Getur ekki án kolvetna verið

Emmy segist elska að elda og að matarundirbúningur sé besta meðferðin við streitu.

„Ég elska að elda. Mér finnst það mjög slakandi. Ég er orðin streitukokkur, ekki streituæta. Ég steiki fullt af gulrótum og geri fisk og blómkálshrísgrjón þannig að ég veit hvað ég er að setja ofan í mig. Það leyfir mér að eiga í góðu sambandi við það sem ég borða – lárperur, hollar olíur, góð sterkja og matur sem er líkt og eldsneyti fyrir restina af vikunni,“ segir leikkonan. Hún hefur verið með glútenofnæmi síðan hún var barn en segist ekki geta verið án kolvetna.

„Ég fíla brauð með fræjum og annað sem er heilkorna eða glútenfrítt. Ég hef lært að baka samkvæmt Paleo-mataræðinu og að borða mat sem heldur blóðsykrinum í lagi og gefur mér styrk, fyllingu og er bragðgott.“

Hún segir einnig mikilvægt að fólk hætti að bera sig saman við aðra.

Emmy forðast það að bera sig saman við aðra.

„Konur festast í vítahring þar sem við berum okkur saman við einhvern og örvæntum, hugsum að ef við lítum út eins og hún verðum við hamingjusamar. Ég eyddi mörgum árum í að þrá að líta út eins og stelpurnar sem ég sá í tímaritunum og núna reyni ég að elska persónuleikann minn. Ég hef til dæmis verið að reyna að sætta mig við krullaða hárið mitt. Og ég þarf ekki förðun á hverjum degi. Við ættum að fagna sérkennum okkar og vera heilbrigðasta, besta útgáfan af okkur sjálfum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa