fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Matur

Uppáhaldsmatur Alþingismanna: Sérréttur Katrínar – Brynjar elskar hrossabjúgu – Áslaug Arna minnist móður með kjötbollum

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Mánudaginn 14. janúar 2019 08:00

Þingmenn leysa frá skjóðunni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matur segir margt um manninn og því ákváðum við að taka nokkra Alþingismenn tali og spyrja einfaldlega hver þeirra uppáhaldsmatur væri.

Einn í bjúgum á heimilinu

„Minn uppáhaldsmatur er hrossabjúgu með uppstúf. Ástæðan er aðallega sú að hrossabjúgu er betri en annar matur. Kannski hefur einnig áhrif að aðrir á heimilinu geta ekki hugsað sér að borða bjúgu. Verð ég því að gera mér ferð í Múlakaffi eða til Haraldar Benediktssonar, bónda á Vestri Reyn, til að fá hrossabjúgu.“

Brynjar Þór Níelsson, Sjálfstæðisflokki

Brynjar Níelsson. Ljósmynd: DV/Hanna

Með eindæmum matsár

„Uppáhaldsmatur er alfarið tengdur stemningunni, enda er ég í raun selskapsmatarunnandi meira en að ég tengi við ákveðna tegund. Uppáhaldsmatur getur þannig verið allt frá grísku salati niðri við Miðjarðarhaf til lambafilé með villisveppasósu, rósakáli og rauðkáli á aðfangadag. En hafandi sagt þetta þykir mér hvítlauksristaður humar hið mesta hnossgæti og er það líklega vegna þess hversu sjaldan hann er á borðum. Borða flest en er þó með eindæmum matsár og nenni ekki að borða mat sem mér finnst ekkert sérstakur. Þá fæ ég mér frekar banana og skyr.“

Helga Vala Helgadóttir, Samfylkingu

Helga Vala Helgadóttir.

Lambahryggur bjargar öllu

„Það er íslenskur lambahryggur. Alltaf góður og tengist öllu sem gott er.“

Anna Kolbrún Árnadóttir, Miðflokki

Anna Kolbrún Árnadóttir.

Besti maturinn í þinginu

„Uppáhaldsmaturinn í þinginu er kótelettur og brauðsúpa. Ekki saman, heldur hvort í sínu lagi. Þennan mat geri ég ekki sjálf en fæ bara í mötuneyti þingsins. Annars finnst mér matur úr góðu hráefni og eldaður af alúð allur góður.“

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, Vinstri græn

Svandís Svavarsdóttir.

Bjórgúllasið hans pabba

„Eftirlætismaturinn minn er belgískt bjórgúllas, eldað að hætti föður míns. Þar er um að ræða annaðhvort ungnautagúllas eða folaldagúllas eldað upp úr dökkum bjór, með frönskum og majónesi sem meðlæti. Þessi réttur hefur verið í uppáhaldi hjá pabba mínum frá því að hann var í skiptinámi í Belgíu fyrir nokkrum áratugum og hann kom mér snemma á bragðið. Í uppvextinum valdi ég gjarnan bjórgúllas til þess að borða á afmælisdeginum mínum eða við önnur fagnaðartilefni. Nú kann ég að elda bjórgúllasið sjálf og geri af og til, en það jafnast ekkert á við það þegar pabbi eldar það fyrir mig.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Píratar

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Minning um mömmu

„Ég borða eiginlega allan mat og því er valið erfitt. En ég ætla að velja marokkóskar kjötbollur sem settar eru í pítu með alls konar meðlæti. Ég tengi matinn mikið við mömmu sem eldaði þetta og var algjör sérfræðingur í að gera svona góðar kjötbollur sem hægt var að nota á marga vegu.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Sjálfstæðisflokki

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Pönnukökur fastur liður

„Mér finnst eitthvað svo heimilislegt við að steikja pönnukökur þegar gestir koma, þannig að það hefur verið fastur liður frá því að ég byrjaði að búa. Svo eru þær náttúrulega svo góðar.“

Andrés Ingi Jónsson, Vinstri græn

Andrés Ingi Jónsson.

Ýsa með hrognum og lifur

„Ég er mikið hrifinn af fiski og reyni að borða fisk eins oft og unnt er. Til dæmis finnst mér ýsa með hrognum og lifur afskaplega góður matur en einnig nýr silungur með kartöflum og smjöri. Ég ólst upp við þetta ásamt öðrum þjóðlegum heimilismat. Eitt það allra besta er súpukjöt en það er enn langt í land að ég nái færni föður míns í að matreiða kjötsúpuna eins og ég man hana besta hjá honum. Það er mikil afturför að matvara í búðum í dag er yfirleitt allt of mikið forunnin og stundum er óunnin matvara bara alls ekki í boði.“

Karl Gauti Hjaltason, utan þingflokks

Karl Gauti Hjaltason.

Hangs yfir sósupotti

„Fyrsta sem kemur upp í hugann eru rjúpur, þótt ég borði þær ekki nema einu sinni á ári. Aðdragandinn, bragðið og hefðirnar allt í kringum þær gera rjúpurnar einstakar. Fyrir utan að gefa frá sér hráefni í bestu sósuna. Kristján fer iðulega á rjúpu með félögum sínum, við hamflettum og gerum að rjúpunum saman þann 22. desember og leggjum góðan grunn í sósuna. Síðustu árin hef ég bætt við rjúpnapaté sem er skemmtileg og góð viðbót. Það er gaman að standa yfir pottunum allan aðfangadag, smakka og „dedúa“ eitt og annað. Falla inni á milli í smá geðshræringu yfir því hvort sósan verði ekki örugglega með rétta rjúpnabragðið. Að upplifa síðan mömmu og systur mína koma á aðfangadagskvöld, varla heilsa en fara beint að sósupottinum í smá smakk og hanga þar, er gaman að upplifa. Matarmenningin og hefðirnar sem fylgja einum rétti, þessum tiltekna rétti gerir heildarmyndina þannig að hún vekur upp ljúfar minningar og kitlar bragðlaukana í senn. Bið ekki um meira. En rjúpur eru það.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Flókin og fjölbreytt

„Það er svo margt sem mér þykir gott að borða að ég er alveg í vandræðum með að nefna eitthvað eitt. Ég sæki í mat eftir ákveðinni stemmingu, stað og veðri. Ég er til dæmis brjáluð í síld í desember, kjötsúpu og slíkt. En svona almennt séð þá nefni ég taílenskan mat, sterka kjúklingarétti og súpur. Arabískir smáréttir með flatbrauði eru líka alveg yndislegir. Þessi matur er í uppáhaldi þar sem brögðin eru svo skemmtileg; flókin og fjölbreytt. Bragðlaukarnir taka við sér og flytja mig til framandi staða.“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, Framsóknarflokki

Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Bíður allt árið eftir nautinu

„Minn uppáhaldsmatur er innbökuð nautalund Wellington í trufflukryddlegi með „djúsi“ fyllingu, smjörsteiktu rósakáli og ristuðum möndlum og bökuð og krydduð sætkartafla. Fram til þess að við hjónin fórum að búa höfðum við vanist ólíkum mat á jólum og þar sem ég hafði gjarnan nautasteik þegar mikið stóð til þá ákváðum við að hafa spariútgáfuna Wellington á jólum sem okkar hátíðarmat. Nautakjöt borðum við reglulega en þessi útgáfa er uppáhald mitt enda bíð ég eftir henni allt árið.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Vinstri græn

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Einfalt og gott

„Hangikjöt. Einfalt að matreiða og gott að borða. Fullt af fjölskylduminningum svo auðvitað.“

Björn Leví Gunnarsson, Píratar

Björn Leví Gunnarsson. Mynd: DV/Hanna

Aldrei fundið neitt betra

„Fiskur, nánast hvaða fiskur sem er. Alinn upp á fiski og aldrei fundið neitt sem er betra í varanlegum skilningi.“

Ólafur Þór Gunnarsson, Vinstri græn

Ólafur Þór Gunnarsson.

Ómissandi á jólum

„Sko, ég er mikil matmanneskja og finnst mjög margt gott  – en þetta kom upp í hugann. Þegar foreldrar mínir fluttu heim eftir búsetu í Frakklandi fyrir mörgum áratugum, fylgdi uppskrift að frönsku sveitapaté með í farangrinum. Það var síðan gert á hverjum jólum á æskuheimili mínu og eftir að ég flutti úr foreldrahúsum hef ég haldið í þá hefð. Paté-ið er ofboðslega gott og mikið uppáhald, en einhverra hluta vegna hefur  mér aldrei dottið í hug að búa það til nema í kringum jólin. Þá er það hins vegar ómissandi.“

Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn

Hanna Katrín Friðriksson.

Lifa í minningu um góðar stundir

„Mínir uppáhaldsréttir breytast fram og aftur í tíma. Fiskur: Grillaður skötuselur með sítrónugrassósu. Kjöt: Beuf Bourguignon á Café de la Musée í París. Þessi réttir lifa í minningu um góðar stundir, ekki allt of langt aftur í tíma og verða í uppáhaldi þar til annað skákar þeim.“

Ari Trausti Guðmundsson, Vinstri græn

Ari Trausti Guðmundsson.

Fjölbreytt fæði best

„Mér finnst svo gott að borða að ég veit ekki hvað ég á að setja efst. En vel eldaður þorskur og lambakjöt er í uppáhaldi. Fjölbreytt fæði eins og mötuneytið býður upp á er bara best.“

Halla Signý Kristjánsdóttir, Framsóknarflokki

Halla Signý Kristjánsdóttir.

Gleðistundir

„Lambakjöt með sveppasósunni hans pabba. Þessi matur er oft á gleðistundum hjá fjölskyldunni.“

Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki

Vilhjálmur Árnason.

Dönsk hefðaruppskrift

„Beinlausir fuglar. Dönsk hefðaruppskrift þar sem úrbeinaðar lærisneiðar er fylltar með beikoni og sumir nota líka ávexti. Langamma mín og langafi voru með þennan mat fyrsta aðfangadagskvöld í þeirra hjónabandi 1903 að Görðum í Vestmannaeyjum síðar bjuggu þau að Löndum. Alla tíð síðan hefur þessi ótrúlega góði matur verið á boðstólum hjá mörgum í minni fjölskyldu. Nafni minn og afi tók þennan sið frá foreldrum sínum var með beinlausa fugla, pabbi og mamma gerðu það líka og síðan  og Sigga alla tíð í 40 ára hjónabandi. Og börnin okkar eru komin af stað svo hefðin heldur. Föðusystir mín hefur verið með beinlausa fugla í tæp 5 ár og nú einnig börnin hennar. Þegar lítið var að hafa þótti ótrúlega flott að nota beikon af dönskum síð í mat á Íslandi fyrir og eftir þar síðustu aldarmót þannig koma beinlausir fuglar til.“

Ásmundur Friðriksson, Sjálfstæðisflokki

Ásmundur Friðriksson.

Franskur matur var hugljómun

„Franskur og líbanskur matur er í sérstöku uppáhaldi. Ostrur, fois-gras og andalæri á franska vegu skorar hátt og líbanskur matur er æðislegur. Ég hef dvalið reglulega í Frakklandi frá 12 ára aldri, bæði í fríum og stundað nám og unnið. Franskur matur var algjör hugljómun fyrst fyrir 12 ára barnið frá Íslandi og hefur verið svo alla tíð síðan. Ég á í sama sambandi við madelaine sandkökur og Proust sem skrifaði hnausþykka doðrantinn „Í leit að týndum tíma“ sem viðbragð við því að borða madelaine sandkökur á fullorðinsárum. Bókin er þó ekki tilbúin.“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Vinstri græn

Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Allir réttir úr lambahrygg

„Lambahryggur – allir réttir úr lambahrygg.“

Líneik Anna Sævarsdóttir, Framsóknarflokki

Líneik Anna Sævarsdóttir.

Mamma skellti í pott

„Ný ýsa og snöggsoðinn humar. Þegar að ég var krakki fannst mér fátt betra en þegar að mamma skellti í pott í hádeginu nýrri ýsu sem hún kom með úr frystihúsinu eða humri á humarvertíðinni. Þetta er enn besti matur sem ég fæ enda fylgja honum góðar minningar.

Oddný G. Harðardóttir, Samfylkingu

Oddný G. Harðardóttir.

Sérréttur forsætisráðherra

„Það er mjög erfitt að nefna uppáhaldsmat en ég get nefnt sérrétt minn sem er reykt ýsa með frönskum og bernaise-sósu sem er nokkuð sem ég hef náð gríðarlega góðum tökum á að elda síðastliðin ár. Ég tengi þennan rétt við níunda áratuginn sem er nú minn eftirlætis tími og hann sameinar það að vera mjög bragðgóður, erlend áhrif (franskar og bernaise) og svo auðvitað íslenskur gæðafiskur.“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Vinstri græn

Katrín Jakobsdóttir.

Nú er öldin önnur

„Minn uppáhaldsmatur er fiskmeti af öllu tagi. Sérstakt uppáhald er siginn fiskur sem ég fæ sjaldan í seinni tíð. Síðan er auðvitað rúgbrauðssúpa rúsínan í þessu ef það er í boði í eftirrétt. Allt er þetta tengt minningum úr uppeldi. Þar var þessi fiskur oft í boði og rúgbrauðssúpa sömuleiðis en þá var jafnan rjóminn skorinn við nögl en nú er öldin önnur.“

Guðjón S. Brjánsson, Samfylkingu

Guðjón S. Brjánsson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa