fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Matur

Vill ekki sjá dósamat á jólum: Líkir honum við rasíska orðræðu – „Verstu grænu baunir sem til eru“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 22. desember 2018 16:00

Kristinn þolir ekki grænar baunir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Jólin eru ekkert svo heilög í Belgíu, sérstaklega þegar kemur að matvöru. Það er ekkert endilega verið að spá mikið í jólamatinn, bara keypt það sem til er í búðum á Þorláksmessu. Ég er mjög sáttur við það,“ segir Kristinn Guðmundsson, stjórnandi matreiðsluþáttanna SOÐ, myndlistarmaður og dansari.

Það má með sanni segja að Kristinn hafi vakið verðskuldaða athygli síðustu misseri fyrir þættina SOÐ, sem bæði er hægt að nálgast hjá Sjónvarpi Símans og á Facebook. Ástríða Kristins í eldamennsku skín í gegn hverja mínútu og kemur hann til dyranna nákvæmlega eins og hann er klæddur, með tilheyrandi skrítlum og óreiðu í eldhúsinu. Kristinn vinnur þættina í fjarvinnu þar sem hann er búsettur í Belgíu. Matarvefurinn heyrði í Kristni varðandi jólahefðir og þá kom í ljós að hann heldur ekki í neinar sérstakar hefðir á jólunum.

„Ég skil ekki alveg þessa áráttu með dósamat“

Kristinn við passandi veggjakrot í Brussel sem hann ber þó ekki ábyrgð á.

„Það er voðalega lítið um hefðarjól í Belgíu, allavega í minni fjölskyldu. Ég held að það sem geri hefðir hættulegar sé að þær geta stoppað framför. Ég er alls ekki að segja að allt sem er nýtt sé framför en við verðum að leyfa því nýja að koma inn til að ákveða hvort við höldum áfram með það eða ekki,“ segir Kristinn. Hann hefur hins vegar mjög sterkar skoðanir á íslenskum jólahefðum þegar kemur að mat – skoðanir sem hafa komið honum í bobba.

„Ég er að berjast fyrir dósamatarlausum jólum á Íslandi. Það er yfirleitt hlegið að mér þegar ég segi frá þessu og sumir verða bara reiðir út í mig. Ég skil ekki alveg þessa áráttu með dósamat. Það er ekkert að dósamat per se en að elda stærstu máltíð ársins, sjálfa jólamáltíðina, og bjóða bara upp á rauðrófur úr krukku, rauðkál úr krukku, Ora grænar baunir úr dós og ananas úr dós á hamborgarhrygginn er bara óskiljanlegt fyrir mér. Waldorf-salatið er kannski það eina sem kemur ekki úr dós. Svo eru Ora grænar baunir að ég held verstu grænu baunir sem til eru. Þetta er alveg ótrúleg dósamatarárátta,“ segir Kristinn í fúlustu alvöru.

„Ég skil rómantíkina við þetta og rómantík og hefðir eru allt í lagi. En þetta er komið út í rugl. Þegar hefðir eru komnar þangað að það er bara rugl sem þú ert að borða þá má fólk fara að hugsa sinn gang. Ef við setjum þetta í annað samhengi þá býst ég við að ef það hefði verið hefð á Alþingi Íslendinga fyrir einhverjum áratugum að þingmenn þyrftu alltaf að segja eitthvað rasískt í púltinu, hefði sú hefð ekki breyst á einhverjum tímapunkti? Hefði ekki einhver staðið upp og sagt: Þetta er nú bara vitleysa?“ spyr Kristinn. Í herferð sinni gegn dósamat sá Kristinn sig knúinn til að gera sérstaka jólaseríu af SOÐ, bæði í ár og í fyrra, þar sem hann einblínir á meðlæti.

„Það er svo hrikalega auðvelt að gera meðlæti frá grunni. Ef við tökum rauðkál sem dæmi þá er ekkert mál að búa það til sjálfur viku fyrir jól í staðinn fyrir að gramsa í eldhússkápunum.“

Fær að hjálpa mömmu með jólamatinn

Kristinn kemur yfirleitt heim annað hvert ár um jól og reynir þá að kynna nýja möguleika í jólamat fyrir fjölskyldu sinni.

„Mamma braut á sér höndina í slysi rétt fyrir jól í hálku fyrir nokkrum árum. Frá þeim jólum höfum við eldað saman jólamatinn, en fyrir þann tíma heimtaði hún alltaf að ég smakkaði til. Mér finnst mjög gaman að fá að taka þátt í matseldinni með mömmu því þetta er heilög stund. Ég reyni alltaf að troða einhverju nýju inn og þá fara systkinin að væla. Hefðirnar, sko. En síðan smakka þau og verða ánægð,“ segir Kristinn og bætir við að það sé fínt að jólin séu bara einu sinni á ári, matarlega séð.

„Ég hef ekkert á móti söltuðu eða reyktu kjöti – það er alveg æðislegt. En þetta er fullmikið af því góða á mjög stuttum tíma. Ég flyt inn til landsins fjögur kíló af vatnsbjúg þegar ég fer aftur heim til Belgíu þannig að ég er alltaf fjórum kílóum þyngri en þegar ég fór til Íslands,“ segir Kristinn og brosir.

Ítarlegt viðtal við Kristinn er að finna í helgarblaði DV sem kom út í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa