fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Matur

Stórfurðulegir megrunarkúrar: Maðurinn sem minnkaði – Heiðar snyrtir auglýsti megrunarpillur – „Mér fannst ég vera orðin gömul og ljót“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Þriðjudaginn 18. desember 2018 08:10

Íslendingar virðast elska megrunarkúra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ketó mataræðið, steinaldarfæðið, safakúrar, pegan lífsstíllinn og föstur. Þetta eru hugtök í mataræði sem flestir kannast við nú til dags. Fyrir nokkrum árum var þetta allt einfaldlega kallað megrunarkúrar, enda hefur verið reynt að selja fólki frá örófi alda að borða vissa fæðu til að grennast, þá sérstaklega konum.

Grennandi smjörlíki

Það fór fyrst að bera reglulega á orðinu megrunarkúr í íslenskum fjölmiðlum á sjöunda áratug síðustu aldar. Það voru þó skaplegir kúrar sem fólust helst í því að borða minna af öllu og þannig minnka kaloríufjölda í fæðunni. Við rákumst hins vegar á afskaplega áhugaverðan kúr frá árinu 1959 sem vekur upp fleiri spurningar en svör.

„Í Ameríku er komið á markaðinn smjörlíki, sem einkanlega er ætlað þeim, sem eru í megrunarkúr eða eru hjartabilaðir, og er þetta smjörlíki einungis selt gegn framvísun á læknisvottorið,“ stendur í stuttum mola um kúrinn en ekki fylgja nánari útlistingar á þessu smjörlíki.

Áfir, magurt kjöt, grænmeti og ávexti

Tveimur árum síðar, eða árið 1961, var birt grein undir yfirskriftinni Herferð gegn aukakílóum, þar sem því var haldið fram að besti megrunarkúrinn væri fólginn í því að borða áfir, sem er vökvinn sem verður eftir þegar að smjör er unnið úr rjóma, magurt kjöt, grænmeti og ávexti.

„Þessi kúr getur gert undraverk, en ásamt leikfimisæfingum kraftaverk. Eftir einn mánuð ættuð þið, sem eruð mjög illa farnar að vera komnar í samt lag, og þá ættuð þið að taka sérstakt tillit til þeirra sem viðkvæmastir eru, og leggja hart að þeim,“ stendur í greininni og með fylgja nokkrar leikfimiæfingar.

„Byrjið í dag og grennist án tára!“

Svo var það innreið sætuefnisins MinuSuk árið 1971 sem lofaði megrun án tára. MinuSuk átti að nota í kaffi, te og matreiðslu en um var að ræða efni sem framleitt var úr sætuefnunum sorbitol og saccarin, laust við aukabragð og -verkanir.

Ári síðar birti Vikan megrunarkúr þar sem lofað var að þátttakendur misstu fimm kíló á sjö dögum.

„Þessi 3-5 kíló sem þið hafið bætt á ykkur síðustu 3 eða 5 mánuði skipta ekki svo miklu máli, þið losið ykkur við þau á einni viku ef þið eruð viljasterk. Þessi kúr er nokkuð áhrifaríkur,“ segir í greininni en kúrinn felst í því að borða enga fitu.

Með greininni fylgir svo tillaga að matseðli sem inniheldur til dæmis hrökkbrauð og tómat í morgunmat, hreðkur og harðsoðin egg í hádegismat, lifur og lauk í kvöldmat og epli blandað í eggjahvítu í sjónvarpssnarl.

Gömul og ljót

Árið 1974 var Ayds megrunarkúrinn kynntur til sögunnar og var miklu þyngdartapi lofað á aðeins einum mánuði. Í auglýsingu fyrir kúrinn var viðtal við konu sem hafði misst rúmlega níu kíló á fjórum vikum og umbreytt lífinu.

„Mér fannst ég vera orðin gömul og ljót. Föt gátu ekkert hresst upp á útlitið, þ.e.a.s. ef mér tókst einhvern tímann að finna föt, sem ég komst í,” segir í auglýsingunni. Konan var hæstánægð að hafa grennt sig þar sem hún var á leiðinni vestur um haf til að heimsækja vin sinn.

„Ég veit að ég er grönn og lít út einmitt eins og hann man eftir mér. Kannski betur, þökk sé Ayds.“

Hauser-drykkurinn og Beverly Hills-kúrinn

Það má með sanni segja að níundi og tíundi áratugur síðustu aldar hafi verið áratugar megrunarkúranna. Árið 1980 var sagt frá bandarískum megrunarkúr sem fólst mest megnis í því að borða egg. Einnig var sagt frá þýska kúrnum sem kenndur var við Gayelord Hauser en í þeim kúr átti að drekka reglulega einn bolla af Hauser-drykk. Uppskriftin að drykknum er eftirfarandi:

Setjið saman í einn pott og sjóðið við vægan hita: Einn bolla fullan af sellerí, smáhökkuðu með stönglum og blöðum, 1 bolla fullan af brytjuðum gulrófum, hálfan bolla af smábrytjuðu salati, eina teskeið af sjósalti, 1 lítra af vatni, 1 bolla af tómatsafa, smávegis púðursykur. Sigtið soðið og síðan má drekka það.

Ári síðar var Beverly Hills-megrunarkúrinn kynntur til sögunnar. Fyrstu sex vikur þess kúrs mátti fólk aðeins borða ávexti. Eftir þann tíma átti að bæta kolvetnisríkri fæðu í hádegismat og eggjahvítuauðugu fæði í kvöldmat. Ávallt skyldi þó byrja daginn á ávexti.

Brauð með köldum kartöflum

Árið 1982 var svo komið að kartöflukúrnum. „Ef farið er nákvæmlega eftir honum má losna við 3-5 kíló á viku án þess að finna til sultar og verða meira að segja hressari og sprækari en áður,“ stendur í grein um fæðið og bætt við að megrunarkúrinn hafi fyrst verið ætlaður fólki sem vildi aðeins losna við nokkur kíló. Hins vegar kom á daginn að fólk hafði misst allt að fjörutíu kíló.

„Það er ekki að ástæðulausu að kartöflumegrunarkúrinn fer nú sigurför um mestan hluta hins vestræna heims. Hann er hollur og ódýr, réttirnir fljótlagaðir og flestum finnast þeir góðir.“

Greininni fylgir svo haugur að kartöfluuppskriftum, til dæmis að kartöflubollum, kartöflum með megrunarmæjónesi og brauð með köldum kartöflum. Girnilegt!

Scardale-kúrinn var einnig vinsæll árið 1982 og kom líka frá Bandaríkjunum. Hann var sagður hættulaus öllum þeim sem þjást ekki af öðrum sjúkdómi en offitu. Kúrinn var einfaldur – ekki mátti neyta áfengra drykkja og aðeins borða það sem var á sérstökum Scardale-matseðli. Veitingastaðurinn Rán stóð fyrir sérstökum Scardale-ferðum og var kúrinn kallaður „Megrunarkúr sælkerans.“

475 hitaeiningar á dag

Nokkrum árum síðar, eða árið 1986, var sagt frá ávaxtakúr sem svipaði til Beverly Hills-kúrsins. Dagsmatseðill þeirra sem smelltu sér á kúrinn var svohljóðandi:

Morgunverður: Ein heil appelsína eða 2 sveskjur eða hálft greip.
Hádegisverður: Lítil melóna eða stór sneið af stærri melónu og ein stór sneið af vatnsmelónu.
Síðdegis: Ein pera eða annar ámóta ávöxtur.
Kvöldverður: Ein pera, appelsína, epli og ein plóma.
Fyrir háttinn: Eitt epli.

Þessi kúr innihélt aðeins 475 hitaeiningar og má slá því föstu að fáir hafi enst á honum.

Heiðar snyrtir auglýsti megrunartöflur

T-Kúrinn, Megrunarkúrinn sem hrífur, átti sína stund í sviðsljósinu árið 1987 en hann fólst í því að borða trefjaríka fæðu. Var bent á kosti óunnar matvöru, líkt og er gert enn þann dag í dag.

„Þótt máltíðir T-kúrsins séu hitaeiningasnauðar hverfur svengdartilfinningin því að trefjafæðið mettar fljótt og veitir langvarandi fyllingu. T-kúrinn er því hollari, auðveldari og árangursríkari en nokkur annar megrunarkúr,“ stendur í auglýsingu fyrir kúrinn.

Þetta ár litu megrunarpillurnar U.S. Grape Slim einnig dagsins ljós, en Heiðar Jónsson, oftast kallaður Heiðar snyrtir, hélt uppi heiðri pillanna á Íslandi. Lofaði hann að hægt væri að missa allt að tvö kíló á viku með því að neyta taflanna.

„Matseðillinn byggist á fáum hitaeiningum og samanstendur meðal annars af ávaxtasafa, salati, skelfiski, kjúklingum, heilkornsbrauði og auðvitað greipaldin, sem er yfirleitt aðalatriðið í góðum megrunarkúrum,“ er haft eftir Heiðar í auglýsingu fyrir pillurnar. Voru pillurnar sagðar bylting í megrun og tekið sérstaklega fram að Joan Collins og Linda Evans úr Dynasty notuðu þær reglulega.

Þá verður að minnast á kálsúpukúrinn margfræga en eins og nafnið gefur til kynna nærðist fólk eingöngu á kálsúpu í heila viku. Eftir þessa viku átti fólk að geta verið búið að missa allt að fimm kíló, það er að segja ef fólk gat komið kálsúpu niður í hvert mál í sjö daga.

Fékk fyrsta sveppinn hjá leikkonu

Árið 1991 var BIOMIN megrunarkexið auglýst og því haldið fram að ein kexkaka gæti komið í staðinn fyrir heila máltíð. Þá innihélt einn pakki af kexkökunum fimm daga megrunarkúr.

En síðan var það árið 1995 þar sem allt breyttist. Þá fór sveppateið svokallaða eins og eldur um sinu á Íslandi. Um var að ræða svokallað Mansjúríute sem var unnið úr mansjúríusveppnum, en til að geta tekið þátt í kúrnum þurfti mikinn viljastyrk þar sem landsmenn þurftu að rækta sveppinn heima hjá sér. Var hann ófrýnilegur að sjá og teið afskaplega bragðvont, en fólk stóð í þeirri trú að teið væri allra meina bót og gæti jafnvel lengt lífið. Átti að drekka að minnsta kosti eitt glas af teinu á dag og var það vandmeðfarið að rækta sveppinn. Hann mátti ekki komast í snertingu við málma og mátti alls ekki henda honum í ruslið heldur þurfti að urða hann.

Meðal þeirra sem drukku sveppateið var leikarinn heitni Gunnar Eyjólfsson sem fékk sinn fyrsta svepp hjá leikkonu í Þjóðleikhúsinu samkvæmt frétt DV um sveppinn. Stuttu síðar vöruðu læknar við sveppateinu og sögðu það geta haft slæm áhrif á heilsuna. Gaman er að láta það fylgja sögunni að sveppateið er líkt og drykkurinn Kombucha sem hefur verið gríðarlega vinsæll undanfarið.

Maðurinn sem minnkaði

Þá er ómögulegt að ljúka þessari yfirferð á öðru en Atkins-kúrnum sem komst í tísku á fyrstu árum þessarar aldar. Maðurinn sem átti hvað mestan þátt í vinsældum hans á Íslandi var Ásmundur Stefánsson, fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands. Hann prýddi forsíðu helgarblaðs DV árið 2003 undir fyrirsögninni „Maðurinn sem minnkaði“. Hann léttist um nærri 40 kíló á skömmum tíma á Atkins-kúrnum, sem gengur út á að forðast kolvetnaneyslu en neyta próteins og fitu í ríkum mæli.

„Það að vera ósáttur við sjálfan sig þarf ekki að þýða að menn séu alltaf með grátstafinn í kverkunum. Kannski er það sama kæruleysið sem veldur því að fólk missir þyngd sína úr böndunum og gefur því glaðvært og létt yfirbragð, ég veit ekkert um það. Kannski er glaðværðin yfirvarp til að breiða yfir vöntun á öðrum sviðum. Ég held að ég hafi ekkert orðið geðverri við að grennast og ég held að ég hafi ekkert þjáðst af geðvonsku meðan ég var of feitur,“ sagði Ásmundur í viðtali við DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa