fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Matur

Rakel var eggjabóndi og leysir frá skjóðunni: Hænur snúnar úr hálslið og hræjunum „hent í ruslið“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 30. nóvember 2018 20:00

Rakel var eggjabóndi en er vegan í dag.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í sannleika sagt langaði mig aldrei að verða bóndi. Ég átti nokkur hross og var í hestamennsku en þáverandi eiginmaður minn var með stóra drauma og keypti jörð með þessari eggjaframleiðslu. Ég var að vinna á leikskóla á Skagaströnd og hætti þar til að taka við þessu búi,“ segir Rakel Eyfjörð Tryggvadóttir. Rakel er fædd og uppalin í Reykjavík en í lok október árið 2011 flutti hún á fyrrnefnda jörð fyrir norðan og gerðist eggjabóndi. Henni leist vel á sig fyrst um sinn en fljótlega breyttist sveitadraumurinn í martröð.

„Mér fannst hugmyndin góð, aðallega fyrir hrossin, en ég vissi ekkert um hænur. Hreint út sagt hafði ég aldrei hugsað út í það hvaðan eggin kæmu, nema náttúrulega úr hænunni. Ég hafði aldrei pælt í neinu þessu tengdu enda aldrei talað um það neins staðar. Í febrúar árið 2017 gafst ég hins vegar endanlega upp á sál og líkama.“

Hænurnar skiptu ekki máli

Rakel var eggjabóndi í sjö ár.

Í sjö ár vann Rakel sem eggjabóndi og var það hennar upplifun að lítið væri hugsað um heilsu hænanna. Eggin skiptu höfuðmáli.

„Satt að segja þegar ég byrjaði að vinna við hænsnabúið þá var eins og eitthvað dæi innra með mér eftir því sem tíminn leið. Ég varð tilfinningalega dofin gagnvart dýrum, orkulaus og þreytt. Ég var mjög vansæl þann tíma sem ég vann við þetta. Mér fannst ég alls staðar ganga á veggi þegar ég reyndi að berjast fyrir velferð hænsnanna. Ég þreif eins og andskotinn hjá þeim til að gera þessar ömurlegu aðstæður betri að einhverju leyti en auðvitað tókst það ekki – þær voru enn fangar. Ég fékk endalaust hrós frá Heilbrigðiseftirlitinu um hreinlæti í húsinu en fékk síðan að heyra að hænurnar skiptu ekki máli. Það voru eggin sem skiptu máli, hvaðan eggið kemur og hvert það fer. Ég hélt samt áfram að sótthreinsa og þrífa eins og enginn væri morgundagurinn. Ég fékk síðan Matvælastofnun í heimsókn einu sinni á ári og sama var uppi á teningnum þar. Eingöngu spáð í eggin, ekki velferð hænsnanna,“ segir Rakel.

Dauðar hænur rotna með þeim lifandi

Hún skefur ekkert utan af því þegar hún er spurð hvernig slík bú gangi fyrir sig.

„Þegar unginn kemur í hús þá er hann ekki farinn að verpa. Hann er fluttur í litlum plastkössum og er tuttugu til þrjátíu ungum þjappað saman í kassa. Þeir geta varla andað og alls ekki hreyft sig. Þeir eru síðan settir inn í búrin með hamagangi því annars gæti fuglinn dáið, bæði út af ferðalaginu, þorsta og kvíða eða þrengsla. Margir fuglar deyja í ferlinu, kremjast, væng- eða fótbrotna. Þá þarf að snúa þá úr hálsliðnum og henda þeim í ruslið,“ segir Rakel og greinilegt að fer um hana þegar hún lítur til baka.

„Þegar fuglinn fer að verpa hefst eggjaframleiðslan sem slík. Fuglinn skortir ekki mat og er vel fóðraður í sínu litla búri sem hann deilir með tveimur til þremur hænum. Þær geta því ekki snúið sér við nema traðka á hver annarri. Leita þarf að dauðum hænum í búrum daglega, en ég veit að margir gera það ekki, hvorki í búr- né gólfframleiðslu. Þær hænur rotna því bara með þeim sem eru á lífi. Velferð hænsna er langt undir því sem telst mannlegt. Í sumum búrum er ekki einu sinni mokað út skít heldur látið anga af ammoníakfýlu svo dögum skiptir, eða mánuðum,“ bætir hún við. Hún segir erfitt að lýsa þeirri þjáningu sem hænurnar upplifa á sinni stuttu ævi.

„Hænan þjáist frá fæðingu til dauða. Hún fæðist í búri og drepst þar ef hún er ekki gösuð eða snúin úr hálslið. Þegar egg klekjast er unginn geymdur á smá svæði þar til hann er kyngreindur. Karlkynið er drepið og kvenkynið sett í búr þar til hænurnar eru þriggja mánaða. Þá fara þær á eggjabýli til að framleiða. Hænan fær að lifa í átján mánuði, ef hún nær því. Ef hún deyr ekki úr eigin ammoníaklykt, öndunarfæri hennar skemmast út af fínu dúnryki eða af því að hún er plokkuð til dauða af þeim sem hún býr með í búrinu. Hænur gera það ef þeim leiðist. Svo borða þær hana jafnvel ef enginn sér að hún er slösuð eða dauð.“

Hræjunum hent í ruslið

Rakel lýsir einnig ferli sem kallað er fiðurfelling þar sem hænan er svelt og vatn tekið af henni. Þetta er gert til að hænan safni kalkforða sem gerir eggjaskurnina harðari að sögn Rakelar.

Hér sjást hænurnar sem Rakel hélt á sínum tíma.

„Hafið þið aldrei keypt egg og skurnin er léleg? Þá er hænan hálfnuð með líftíma sinn og þá fer þetta ferli í gang. Hænan er látin svelta í fimm til sjö daga með ljósin slökkt. Margir fuglar deyja í þessu ferli,“ segir Rakel. Hún segir hænsnaslátrun heldur ekkert efni í fallega ævintýrasögu.

„Þegar slátra á hænunum er ekkert sem heitir mannúðlegt við það ferli. Þær eru gasaðar hjá stærri búum en á þeim minni eru þær jafnvel handsnúnar úr hálslið hver á fætur annarri. Þeim er síðan hent í ruslið og það urðað. Skítur hænsna er borinn á túnin. Sumir bændur henda hræjunum ekki í rusl heldur í skítinn og láta hræin síðan eyðast upp þar. Svo er þessu dreift á túnin sem fínasti áburður væri.“

Við höfum alltaf val

Það fer um Rakel þegar hún rifjar upp tímann í hænsnabúinu.

Rakel er menntaður leikskólakennari en er nú í jóganámi til að bæta sín eigin lífsgæði. Ári áður en hún hætti sem eggjabóndi, árið 2016, gerðist hún grænkeri fyrir tilstuðlan dóttur sinnar, sem er 23 ára. Rakel hefur verið grænkeri allar götur síðan og segir pott brotinn víða í matvælaiðnaði.

„Fólk hræðist að tala um þetta málefni og engu líkara en þetta sé tabú. Ég var svoleiðis sjálf. Margir bændur hugsa vel um dýrin sín og aðrir ekki. Neysla hefur breyst mikið. Fólk er farið að opna augun fyrir velferð dýra og er farið að velja annað sem mér finnst að sjálfsögðu frábært. Við höfum alltaf val að borða eitthvað annað og vera óhrædd við að prófa eitthvað nýtt. Þótt Íslendingar séu aldir upp á kjöti, fisk og eggjum þýðir það ekki að við þurfum að borða það í dag. Í mínum draumaheimi tíðkaðist hvorki át á dýrum né afurðum þeirra,“ segir Rakel og brýnir fyrir fólki að hugsa sig tvisvar um áður en það leggur sér eitthvað til munns og skoða umbúðir matvæla gaumgæfilega.

En hvað situr mest í henni eftir þennan tíma sem eggjabóndi?

„Ég sé eftir að hafa ekki talað um þetta fyrr og reynt að tala um þetta við aðra. Ég hvatti til eggjaneyslu fyrst um sinn, til að auka söluna auðvitað. En einn lítill bóndi með þrjú þúsund hænur segir ekkert. Risarnir eiga markaðinn og þeir gera allt sem þeir vilja og komast upp með allt sem þeir geta. Mér fannst ég samt gera mitt allra besta miðað við ömurlegar aðstæður í þessum bransa. Í raun felst mín eftirsjá í því að hafa verið þarna og lifað í þessum heimi. Ég get þó ekki breytt því sem liðið er og er þakklát fyrir að mitt tímabil þarna sé búið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa