fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Matur

Hart barist í röðum arkitekta: „Við mætum gallhörð til leiks“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Miðvikudaginn 21. nóvember 2018 15:00

Einar bakar til sigurs. Mynd af Einari: Steinunn Jónasdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er búinn að ráða til mín sérfræðing í piparkökuhúsabyggingum. Hann heitir Daníel Gíslason og er tæknifræðingur. Hann hefur gert ótrúlega byggingar, margar af helstu perlum Íslandssögunnar. Þannig að við mætum sterk til leiks,“ segir Einar Ólafsson, arkitekt og stofnandi arkitektastofunnar Arkiteó. Einar er einn af arkitektunum sem tekur þátt í Piparkökuhúsasamkeppni Arkitektafélags Íslands sem er eingöngu fyrir félagsmenn.

Við ætlum að fara alla leið

Einar tekur keppnina mjög alvarlega. Sjálfur er hann tæknilegur ráðgjafi í verkefninu og segir að teymi Arkiteó taki allt virkan þátt í því að gera piparkökuhúsið að veruleika.

„Við ætlum að vera með því okkur finnst gaman að taka þátt í einhverju skemmtilegu. Einhverju sem er öðruvísi en hefðbundin verkefni. Ég tek þetta mjög alvarlega. Við ætlum að fara alla leið,“ segir hann sigurviss og brosir.

Reglurnar í keppninni eru einfaldar. Þeir arkitektar sem taka þátt þurfa að hanna og byggja hús frá grunni eða endurgera eigin hönnun. Einar og félagar ætla að endurgera hönnun Arkiteó en hann verður myrkur í máli þegar blaðamaður spyr hvaða bygging hafi orðið fyrir valinu.

„Ég ætla ekki að segja hvaða bygging það verður. Ef það kemur fram þá er ég að gefa of mikið frá mér til keppinautanna. En þetta verður ein af perlum Arkiteó sem verður lögð til grundvallar í þessu verkefni,“ segir hann, en meðal bygginga sem Arkiteó hefur hannað eru Vigtunarhúsið á Rifi, þjónustumiðstöðin við Reynisfjöru, stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og sundlaug Ólafsvíkur.

Margt líkt með piparkökuhúsum og raunverulegum byggingum

Einar hefur ráðið til sín sérfræðing í piparkökuhúsagerð. Mynd: Steinunn Jónasdóttir

Einar segir að þó um bakkelsi sé að ræða en ekki steinsteypt hús sé margt líkt með ferlinu hvað varðar hönnun, undirbúning og samsetningu.

„Við erum búin að halda einn stöðufund. Annars vegar þurftum við að ræða stærð ofnsins sem getur bakað veggina. Það er eins og þegar verið er að byggja forsteypt einingarhús. Þá er aðeins hægt að forsteypa ákveðnar stærðir í verksmiðjunni. Það sama gildir um ofninn. Hann tekur bara ákveðna lengd af veggjum. Þá er stærðin á húsinu takmörkuð að því leiti. Til að við náum heilum einingum úr ofninum þarf smá skipulagningu,“ segir Einar og heldur áfram.

„Hins vegar snýst þetta um hvernig maður túlkar bygginguna í piparkökuhúsaveggjum og byggingu. Þetta er lítill skali þannig að maður nær ekki öllum dýptum rétt en maður verður að túlka bygginguna þannig að hún nái fram sínum sérkennum. Það er áskorun, eiginlega sú mesta í þessu verkefni.“

„Þetta er atvinnumanna level“

Einar hefur áður tekið að sér piparkökuhúsagerð, þá með börnunum sínum. Hann segir keppnina ekki í líkingu við það.

„Þetta er allt annað level. Þetta er atvinnumanna level. Þetta er mjög vandmeðfarið og annars konar byggingarefni en maður er vanur. Þegar þetta er búið getur maður svo sannarlega sett það á starfsferilsskrána,“ segir hann og hlær.

Hér eru nokkrar perlur Arkiteó.

Piparkökuhúsin sem arkitektar senda í samkeppnina verða til sýnis á Kjarvalsstöðum dagana 3. til 9. desember. Eins og áður segir er Einar sigurviss og er í engum vafa um að bygging Arkiteó eigi eftir að slá í gegn. Hann segist enn fremur horfa fram á harða keppni á milli kollega.

„Arkitektar eru heilt yfir mjög góðir félagar en þarna verður hart barist og ekkert gefið eftir. Ég er búinn að hlera kollega mína og fékk smá fiðring og titring þegar ég sá í hverju þeir voru að pæla. En við mætum gallhörð til leiks og munum gera okkar besta til að vinna þessa samkeppni,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa