fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Matur

Jóhannes Haukur tekur sjaldan áhættur í mat: „Gellur snerti ég ekki“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Mánudaginn 8. október 2018 18:00

Jóhannes Haukur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stórleikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson hefur notið gríðarlegrar velgengni síðustu misseri og ferðast nú um allan heiminn til að takast á við fjölbreytt og spennandi leiklistarverkefni. Eins og matarvefurinn komst að er Jóhannes Haukur einnig matmaður mikill þegar hann á stund milli stríða.

„Jú, ég er áhugamanneskja um mat með hléum. Ég tek tarnir í því. Ef ég hef mikinn frítíma finnst mér gaman að grúska aðeins í mat. Taka eitthvað sérstakt fyrir. Svo koma tímabil þar sem ég pæli ekkert í mat,“ segir leikarinn.

Jóhannes Haukur í The Innocents.

„Dökkt súkkulaði er minn eini veikleiki“

Jóhannes Haukur á þrjú börn með eiginkonu sinni, Rósu Björk Sveinsdóttur, og passar því ávallt að eiga mjólk og morgunkorn í ísskápnum.

„Og egg. Ég fæ mér ávallt egg í morgunmat. Hafragraut og egg,“ segir hann. Þegar talið berst að huggunarmat, sem talað er um á ensku sem „comfort food“, stendur ekki á svörunum.

„Dökkt súkkulaði, tvímælalaust. Ég hugga sjálfan mig kannski aðeins of oft og jafnvel þegar ég þarf ekki á huggun að halda. Dökkt súkkulaði er minn eini veikleiki,“ segir hann og bætir við hver eftirlætis eftirrétturinn er.

„Í eftirréttum er það Crème Brûlée. Það er eftirréttur sem ég dýrka að láta eftir mér. Gott Crème Brûlée slær öllu við.“

Jóhannes Haukur huggar sig með dökku súkkulaði.

Neyddur til að borða gellur

Hvað með mat sem leikarinn getur alls ekki borðað?

„Mér dettur strax í hug gellur. Það er tengt minningu úr leikskóla þegar ég var neyddur til þess að borða gellur, eða allavega smakka þær, í hádegismat þegar ég var fimm ára. Ég kúgaðist og ældi þessu yfir diskinn. Gellur snerti ég ekki. Ég er opinn fyrir öllu öðru og finnst gaman að smakka eitthvað nýtt, sérstaklega þegar ég er á ferðalögum. Nú síðast smakkaði ég strútskjöt í fyrsta skipti og fannst það prýðilegt,“ segir Jóhannes Haukur. Starfs síns vegna hefur hann til dæmis dvalið í Marokkó, Englandi, Kanada og Suður-Afríku og á ýmsar góðar matarminningar úr ferðalögum sínum.

„Ég á fallega minningu af því þegar ég fór út að borða í Búdapest fyrir tveimur árum og smakkaði gæsalifur. Ég hafði smakkað gæsalifur áður en í þetta sinn var hún grilluð. Grilluð gæsalifur, eða foie gras eins og fagmennirnir segja. Það var svona stórkostlega gott. Svo var mér boðið út að borða í Vancouver fyrir sirka þremur árum af framleiðslufyrirtæki sem ég var að vinna fyrir þá. Þá var mér boðið í eitthvað rándýrt, andskotans kjöt frá Japan sem er af beljum sem eru nuddaðar og ég veit ekki hvað og hvað. Ég myndi aldrei borga fyrir það sjálfur en mikið svakalega var það gott,“ segir Jóhannes Haukur og vísar þar í hið margfræga „kobe“-kjöt.

Hér er leikarinn með rándýra nautakjötið.

Ekki mikið fyrir áhættur

Það stendur ekki á svörunum þegar ég spyr leikarann hvort hann sakni einhvers, annars en foie gras og „kobe“-kjöts, á ferðalögum sínum.

„Ég verð að nefna tagine. Það er svipað og pottréttur og er vinsælt í Marokkó. Tagine er heiti yfir rétti sem samanstanda af lambakjöti eða kjúklingi með alls kyns hráefnum, og oft Ras El Hanout-kryddblöndunni. Kjúklingasalatið á Boston Pizza í Kanada kemur einnig upp í hugann. Þetta er pítsustaður en þeir eru einnig með kjúklingasalat. Þetta er best útilátna kjúklingasalat sem ég hef fengið nokkur staðar í heiminum. Svo matarmikið og svo gott að ég á ekki til orð. Og auðvitað kjúklingurinn á veitingastaðakeðjunni Nando‘s. Ég bið ekki um meira. Þetta er bara það sem ég fíla.“

Leikarinn þarf hins vegar að hugsa sig tvisvar um þegar hann er spurður um skrýtnasta mat sem hann hefur smakkað.

„Ég var í Marokkó ansi lengi en ég borðaði ekkert skrýtið þar. Ég er ekki mikið fyrir að taka áhættur. Ætli ég verði ekki bara að segja íslenskt hvalkjöt. Mörgum þykir það nú skrýtið. En það er gott,“ segir Jóhannes Haukur og brosir.

Jóhannes Haukur úti að borða í Marokkó með fjölskyldunni.

Dökkt súkkulaði og Crème Brûlée kippir undan honum fótunum

Eins og áður segir eyðir Jóhannes Haukur miklum tíma á ferðalögum, en hann segist reyna að halda matarvenjum í föstum skorðum á ferð og flugi.

„Það er mikilvægt að passa mataræðið í lífinu og sérstaklega á ferðalögum. Ég tala nú ekki um ef maður lendir í setustofu á flugvöllum þar sem er hlaðborð og maður getur látið ótakmarkað ofan í sig. Það er hættulegt. Þá þarf ég að stramma mig af. Ég reyni að hafa reglu á mataræðinu á ferðalögum. Ég fæ mér alltaf hafragraut og egg í morgunmat. Ef ég fer út að borða fæ ég mér yfirleitt kjúklingasalat. Svo er það dökka súkkulaðið sem nær mér alltaf. Og Crème Brûlée-ið. Það kippir undan mér fótunum í lok dags.“

Leikarinn í stórmyndinni Alpha.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa