fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Matur

Svindlmatur íslenskra crossfit-stjarna

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 20. október 2018 10:00

Crossfit-stjörnur deila svindlmatnum sínum með lesendum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir sem leggja mikið kapp á að vera í góðu formi og ná árangri í íþróttum vita að mataræðið skiptir höfuðmáli. Oft er talað um svokallaðar svindlmáltíðir í þessu sambandi, en þá er átt við einn dag í viku þar sem fólk, sem vanalega lætur eingöngu holla ofurfæðu ofan í sig, leyfir sér að gera vel við sig í mat og drykk.

Okkur lék því forvitni að vita hver svindlmatur íslenskra Crossfit-stjarna væri, en þar kennir vægast sagt ýmissa grasa.

Þuríður Erla Helgadóttir.

Bláber og bragðarefur

„Ég leyfi mér bragðaref einstöku sinnum,“ segir Þuríður Erla Helgadóttir sem hefur vakið mikla athygli í crossfit-heiminum síðan hún tók þátt í fyrstu CrossFit-leikunum fyrir nokkrum árum. „Mér finnst geggjað gott að setja bláber, pekanhnetur og kókos í bragðarefinn, en ef ég vil bæta við nammi þá fæ ég mér bláber, hnetusmjör og Þrist,“ bætir hún við. „Annars elska ég að fá mér bláber eða ávexti með rjóma þegar mig langar í eitthvað gott.“

Þuríður er hrifin af ávöxtum með rjóma.

Þuríður segist ekki beint fylgja þessu hugtaki um svindldaga, heldur reynir að hlusta frekar á líkamann.

„Ég leyfi mér að fá það sem mig langar í þegar mig langar í það, en oftast langar mig frekar að vera holl og borða hollt.“

Árni Björn Kristjánsson.

Þykir vænt um pítsuátið með fjölskyldunni

„Minn svindlmatur hefur alltaf verið pítsa og kemur örugglega alltaf til með að vera pítsa,“ segir hreystimennið Árni Björn Kristjánsson sem hefur náð góðum árangri í crossfit, bæði hér heima og erlendis, síðustu ár.

„Þar sem ég er vegan þá passa ég að hafa nóg af grænmeti á pítsunni og stundum set ég oumph eða seitan á hana líka. Þar sem ég mæli allt sem ég borða, þá reyni ég samt alltaf að láta allan svindlmat falla inn í þann kaloríufjölda sem ég borða dagsdaglega,“ segir Árni og bætir við að pítsuátið sé mikilvægur partur af fjölskyldulífinu.

Árni er vegan og elskar að gera vel við sig með pítsu.

„Það hefur verið hefð síðustu ár að gera pítsu alltaf á föstudögum og þá hittumst við fjölskyldan og gerum heimagerða pítsu saman. Það er tími sem okkur þykir mjög vænt um. En ef við bökum ekki pítsuna sjálf þá pöntum við hana hjá Íslensku flatbökunni. Þeir eru einfaldlega með langbestu veganpítsurnar.“

Eik Gylfadóttir.

Magnaður mjólkurhristingur

Eik Gylfadóttir vinnur sem sjúkra- og einkaþjálfari í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hún hefur æft crossfit af kappi síðustu árin og segir þetta áhugamál afar tímafrekt. Hún hefur náð góðum árangri í sportinu, en svindlmaturinn hennar er vægast sagt sjúklega girnilegur.

„Svindlmaturinn minn er klárlega góður hamborgari um helgar og einstaka sinnum mjólkurhristingur. Uppáhaldsstaðurinn minn er Black Tap í Dúbaí,“ segir Eik, en hægt er að gleyma sér á Instagram-síðu téðs veitingastaðar.

Mjólkurhristingarnir á Black Tap eru stórkostlegir.
Borgararnir á Black Tap eru fáránlega girnilegir.

KFC með frönskum og sósu

Björgvin Karl Guðmundsson.

„Ég elska mjög mikið að fá mér svindlmáltíð en minn fyrsti valkostur er örugglega Box Master á KFC með frönskum og heitri, brúnni sósu yfir. Ég læt það eftir mér þegar mér finnst ég eiga það skilið,“ segir Björgvin Karl Guðmundsson sem æfði fimleika og knattspyrnu áður en hann fann sig í crossfit, með góðum árangri. Eftir áralangan íþróttaferil segist hann hafa mikla sjálfsstjórn þegar kemur að mat.

„Ég er ekki með neinn sérstakan svindldag en ég hef þó mikla stjórn á sjálfum mér.“

KFC er sakbitna sælan hans Björgvins.

Stórstjörnurnar svindla líka

Ofurfyrirsætan Cindy Crawford fær sér ís, súkkulaði og kokteil þegar hún vill gera vel við sig.

Cindy Crawford.

Leikkonan Anna Faris er mikill sælkeri og fær sér annaðhvort ostborgara, pítsu, pasta, ost, ostaköku eða ís þegar hún sukkar.

Anna Faris.

Sjónvarpsstjarnan Ryan Seacrest er, eins og Eik, yfir sig hrifinn af mjólkurhristingum. „Minn mjólkurhristingur, minn svindldagur,“ skrifaði hann eitt sinn á Instagram.

Ryan Seacrest.

Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian býr til sinn hristing heima með því að blanda nokkrum kúlum af ís saman við Oreo-kex.

Kim Kardashian.

Leikkonan Gwyneth Paltrow er alræmdur detox-ari og reynir að sneiða unna matvöru alveg úr mataræðinu. Hún nær hins vegar ekki að hemja sig þegar franskar eru annars vegar.

Gwyneth Paltrow.

Svo er það leikarinn og þúsundþjalasmiðurinn Dwayne Johnson, The Rock, sem gúffar í sig fjalli af sushi og smákökum á svindldegi.

The Rock.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa