fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Matur

Andrea er mikill matgæðingur: „Það skrýtnasta sem ég hef smakkað er naggrís“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 20. október 2018 17:00

Andrea er óhrædd við að prufa sig áfram í mat.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Persónuleikinn minn túlkaður í mat, bíddu nú við. Ætli ég væri ekki Cava, ég er svo „bubbly“. Það væri líklega eitthvað sterkt á katninum eins og chili eða jalapeno og svo dúnmjúkur ostur með,“ segir leikkonan Andrea Ösp Karlsdóttir. Andrea er mikil matgæðingur og hefur alltaf þótt svakalega gaman að elda og borða.

„Ég lærði að elda hafragraut og eggjahræru rétt um sex ára aldur og síðan hefur ekki verið aftur snúið,“ segir Andrea og hlær. „Ég er ekki mikið fyrir að elda eftir uppskriftum. Mér finnst langskemmtilegast að gera bara eitthvað og hef einhvern veginn alltaf haft góða tilfinningum fyrir brögðum sem passa saman. Mér finnst hins vegar stundum gaman að glugga í uppskriftir til að fá hugmyndir, en ég er ekki mikið fyrir að fylgja þeim nákvæmlega. Ég er þar af leiðandi afleitur bakari, þar sem bakstur krefst yfirleitt meiri nákvæmni,“ bætir hún við.

Getur orðið ógurlega matsár

Andrea segist elska mat það mikið að hún bregst illa við þegar henni mislíkar eitthvað matarkyns.

„Matur fyrir mér er ekki bara næring, hann er stór partur af deginum og ég get orðið ógurlega matsár ef ég fæ eitthvað vont. Það getur haft áhrif á allan daginn,“ segir Andrea sem passar sig á að eiga alls kyns matvæli í ísskápnum.

„Ég reyni alltaf að eiga lárperu og góð krydd í skápnum, kókosmjólk, túnfisk og tómata í dós finnst mér gott að eiga til að grípa í. „Hot sauce“ er algjört lykilatriði og ég á margar tegundir sem henta við ýmis tækifæri. Helst við ég vera með ferðaútgáfu af nokkrum með mér í veskinu. Í ísskápnum á ég alltaf kúrbít, lauk, papriku, alls konar sveppi, vínber, klettasalat, vatnsmelónu, fetaost, Old Amsterdam ost, Mexíkó ost, skemmtilegar pylsur, egg og beikon. Fisk, kjöt og kjúkling kaupi ég yfirleitt samdægurs,“ segir Andrea.

Andrea er mikill matgæðingur og elskar að prófa nýja hluti.

Skilur ekki ostrur

Það stendur ekki á svörunum þegar leikkonan er spurð út í sinn eftirlætis kósímat.

„Minn kósímatur er ostar, vínber, rauðvín og freyðivín. Old Amsterdam er í miklu uppáhaldi, Primadonna og Brie. Á köldum vetrardegi vil ég helst bragðmikinn, heitan pottrétt eða súpu. Ömmu plokkfiskur er í miklu uppáhaldi og ég fæ fráhvarfseinkenni ef ég fæ hann ekki reglulega. Hann lætur mér alltaf líða betur,“ segir Andrea og bætir við að það sé fátt sem hún geti ekki borðað.

„Ég komst ekkert upp með að vera matvönd sem barn, en þó voru nokkrir hlutir sem ég gat alls ekki borðað, eins og ólífur og sellerí. Ég er hins vegar löngu vaxin upp úr því og þykir það lostæti í dag. Ég hef hins vegar aldrei lært að borða blámygluost. Mér finnst hann bara alveg hræðilega vondur. Og ostrur. Þær skil ég ekki þó ég hafi reynt.“

Andrea í Sitges ásamt kærasta sínum, Stefáni Benedikt Vilhelmssyni.

Skammast sín fyrir sósuskandalinn

Eins og áður segir getur Andrea orðið frekar matsár, og man sérstaklega eftir einu skipti sem líður henni seint úr minni.

„Ég hef alltaf verið mikið fyrir heitar sósur, svo þegar það kom í tísku að hafa kaldar sósur með grillmat þegar ég var unglingur þá var ég ekki alveg að kaupa það strax. Við bjuggum hjá ömmu minni í svolítinn tíma þegar við vorum að flytja og það var læri í matinn. Ég var búin að hlakka til allan daginn og hlakka til að fá sveppasósuna hennar ömmu með. Það þurfti ekki að spyrja að því, þannig hafði læri alltaf verið framreitt,“ segir Andrea og brosir breitt þegar hún rifjar upp sósuskandalinn. „Ég var svo svöng þegar ég kom fram og mér til skelfingar voru þarna eingöngu kaldar hvítar mæjónes sósur með. Ég var með svo mikla unglingaveiki að ég fór að gráta og þurfti að fara inní herbergi að jafna mig áður en ég borðaði og baðst afsökunar. Því á ég aldrei eftir að gleyma og get hlegið og skammast mín fyrir það reglulega.“

Naggrís, snákar og sporðdreki

Andrea er hins vegar ekki mikill nammigrís og má segja að hún sé meira fyrir salt en sætt.

„Ég er miklu meira fyrir snakk og popp. Ég er algjörlega háð Pepsi Maxi og það er eiginlega það eina sem ég drekk fyrir utan vatn. Öðru hvoru þykir mér þó gaman að borða bragðaref, rjómaís með alvöru karmellusósu, góða ostaköku eða franska súkkulaðiköku,“ segir Andrea. En hvað ætli sé það skrýtnasta sem hún hefur smakkað?

„Ég ferðast mikið um heiminn og það skrýtnasta sem ég hef smakkað er naggrís, tvær snákategundir og sporðdreki,“ segir leikkonan, og ég get ekki sleppt henni án þess að heyra meira um þessa naggrísi. „Naggrís er þjóðarréttur Inkanna og ég smakkaði hann í Perú.“

Andrea leikur Rauðhettu í samnefndri sýningu leikhópsins Lotta.

Verslað á kryddekru

Andrea hefur í nægu að snúast þessa dagana. Nýverið gekk hún rauða dregilinn á Sitges-hátíðinni á Spáni þar sem frumsýnd var ný mynd, Shattered Fragments, með Andreu í einu af aðalhlutverkunum. Svo er hún einnig upptekin með Leikhópnum Lottu sem æfir nú glænýja uppsetningu af Rauðhettu, en Andrea leikur einmitt Rauðhettu. Leikritið verður frumsýnd þann 6. janúar í Tjarnarbíói. Andrea er einnig nýkomin heim úr ferðalagi um Dubai, Sri Lanka og Spán, og fer inn í veturinn reynslunni ríkari er varðar mat.

„Uppáhalds matarupplifunin mín á ferðalaginu var á matreiðslunámskeiði í Sri Lanka. Við bjuggum til Sri Lankan Surry sem samanstendur af átta mismunandi réttum. Við lærðum á allskonar krydd sem ég hef ekki notað áður og ég fór að sjálfsögðu beint á kryddekru og verslaði mér alls konar skemmtilegt sem ég ætla að nota til að bragðbæta ýmsa rétti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa