fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Matur

Matarbloggarinn sem missti tæp 60 kíló og gaf út bók: Svona fór hún að þessu

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 19. október 2018 07:50

Brittany hefur breyst mikið síðan hún skipti um lífsstíl.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar talan á vigtinni var aðeins nokkrum kommum frá 120 kílóum á nýársdag í fyrra ákvað þriggja barna móðirin Brittany Williams að breyta um lífsstíl, koma betur fram við líkama sinn og borða hollari mat. Hún ákvað að hætta að borða unna matvöru og elda frekar „alvöru“ mat í svokölluðum „instant“ potti, sem eldar mat á stuttum tíma. Brittany hafði ekki í huga að léttast en í lok síðasta árs hafði hún misst tæp sextíu kíló eða nærri því helming af líkamsþyngd sinni. Þegar Brittany var búin að vera á þessari vegferð sinni í þrjá mánuði byrjuðu meðlimir í sérstökum Facebook-hópi tileinkuðum „instant“ pottum að biðja hana um uppskriftir. Í framhaldinu opnaði Brittany sinn eigin Facebook-hóp, en velgengni hans var framar björtustu vonum.

„Ég fékk tuttugu þúsund fylgjendur á fyrsta degi,“ segir Brittany í samtali við tímaritið Us Weekly. Í kjölfarið opnaði hún vefsíðu og Instagram-síðu og er í dag geysivinsæl. Svo vinsæl að hún var að gefa út sína fyrstu matreiðslubók, Instant Pot Cookbook: Cook Your Way to a Healthy Weight with 125+ Recipes for Your Instant Pot, Pressure Cooker and More. Í samtali við Us Weekly opnar hún sig um þyngdartapið og hvernig hún fór að þessu.

Brittany ásamt eiginmanni sínum áður en hún breytti um lífsstíl.

Breytti um hugarfar

Brittany segist hafa reynt að léttast í gegnum tíðina á ýmsum megrunarkúrum en hún náði hins vegar ekki að skafa af sér fyrr en hún hætti að hugsa um að léttast.

„Þegar ég byrjaði að einbeita mér að því að gera þetta fyrir líkama minn því þetta er það besta fyrir líkama minn til lengri tíma litið, þegar ég breytti hugsunarhætti mínum, þá small allt saman,“ segir Brittany. Það má segja að hún hafi gert sér grein fyrir á hvers konar villigötum hún var þegar hún breytti mataræði dóttur sinnar sem glímir við gigt og á erfitt með að innbyrða glúten og mjólkurvörur. Þá gerði hún sér grein fyrir því að hún sýndi sjálfri sér ekki sömu virðingu og hún sýndi börnum sínum.

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Brittany Williams (@instantloss) on

„Ég hugsaði: Hvernig get ég gert þetta fyrir þau en ekki fyrir sjálfa mig?“ segir hún og heldur áfram. „Það sannfærði mig um að ég væri ekki að elska sjálfa mig á réttan hátt – ekki á þann hátt sem ég elska eiginmann minn og börn. Ég myndi gera hvað sem er til að bæta heilsu þeirra en ég sýndi sjálfri mér ekki þá umhyggju.“

Henti öllum freistingum

Þá segist Brittany einnig hafa fjarlægt allar freistingar á heimilinu.

„Það fyrsta sem ég gerði var að fara yfir allt húsið og henda öllu sem gæti verið hindrun fyrir mig,“ segir hún. Hún hafði alltaf glímt við að halda skammtastærðum litlum og því henti hún öllu snakki sem hún vissi að hún myndi borða of mikið af. Næsta skref var að kaupa ferska matvöru. Hún mælir einnig með að taka mikið af myndum af sér sjálfum.

Fjölskyldan öll samankomin.

„Ég léttist um tæp níu kíló fyrsta mánuðinn og fimm kíló næsta mánuð. Að sjá árangur og stíga á vigtina og sjá töluna lækka var svo mikil hvatning,“ segir Brittany og bætir við að vissulega hafi komið tímabil þar sem vigtin haggaðist ekki.

„Ég þurfti að leita að sigrum sem tengdust ekki vigtinni, eins og að buxurnar mínar urðu víðar. Og ég mæli með því að taka myndir. Ég er svo glöð að ég gerði það. Þær hvöttu mig áfram. Ég vildi að ég hefði mælt ummálið mitt líka.“

Prófaði nýjan mat

Eitt af ráðum Brittany er að finna sér hollari valkosti þegar kemur að eftirlætismat sem er ekki sá hollasti.

„Ég ólst upp á kjúklinganöggum, frönskum og pasta og osti,“ segir hún. Hún bar þessar matarvenjur með sér inn í fullorðinsárin og vissi að hún gæti ekki tekið þessa rétti alveg úr mataræðinu. „Ég er ekki stelpa sem get borðað gufusoðinn kjúkling og brokkolí. Já, maður mun léttast. En er þetta lífsstíll sem ég get viðhaldið? Nei,“ bætir hún við. Þar af leiðandi eru hollari uppskriftir af þessu óholla fæði að finna í bókinni hennar. Hún mælir einnig með því að prófa nýjar fæðutegundir og rétti.

„Ég vissi ekki að mér líkaði við vissar fæðutegundir því ég hafði aldrei smakkað þær. Þegar ég smakkaði eitthvað með opnum huga sagði ég: Ó! Þetta er bara allt í lagi.“

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Brittany Williams (@instantloss) on

Gat ekki farið á veitingastað í nokkra mánuði

Brittany segir það einnig mikilvægt að undirbúa sig vel áður en veitingastaðir eru heimsóttir. Sjálf forðaðist hún veitingastaði fyrsta hálfa árið í breyttum lífsstíl.

„Ég vissi að ég var ekki rétt stillt andlega til að fara á veitingastaði,“ segir hún og bætir við að það sé ekkert mál í dag. „Ég fæ mér yfirleitt salat eða smá prótein með grænmeti. Það er svo auðvelt að finna svoleiðis mat. Ég fletti yfir allt hitt á matseðlinum og fer beint í léttu réttina.“ Hún segir það einnig hafa runnið upp fyrir sér þegar hún var úti að borða að stærð diska skiptir gríðarlegu máli, en hún skipti út stórum diskum sem rúma mikinn mat fyrir smærri diska heima hjá sér.

Hér er bókin hennar Brittany.

Mikill aðdáandi föstu

Á vegferð Brittany til betra lífs komu vissulega erfiðir tímar þar sem ekkert gekk upp. Hún segir það hafa hjálpað sér að breyta matarrútínu sinni yfir daginn til að komast úr þessari pattstöðu. Fékk hún sér til dæmis stóran morgunverð en bara þeyting í kvöldmat.

„Bara í viku eða tvær þar til líkami minn komst úr kyrrstöðu. Síðan fór ég aftur í sama farið,“ segir Brittany og bætir við að hún hafi einnig uppgötvað tímabundnar föstur á þessu tímabili, en þær felast í því að fólk borði aðeins í 8 til 12 klukkutíma á daginn og fasti þess á milli.

„Ég er mikill aðdaándi. Ég gerði mér grein fyrir að líkami minn þurfti hvíldina. Þegar ég fasta þá fasta ég í tólf klukkutíma,“ segir hún og bætir við að hún hætti að borða klukkan 7 eða 8 á kvöldin og byrji aftur að borða klukkan 8 eða 9 á morgnana. „Ég finn svo mikinn mun á mér. Ég er orkumeiri og mér líður betur.“

Lítur á líkamann sem vinkonu

Síðasta ráð Brittany er einfaldlega að elska líkama sinn.

„Líkami minn er eins og vinkona núna. Ég horfi á hann og hugsa: Ókei, ég ætla að hugsa um þig og ef að ég hugsa um þig og næri þá þarft þú að vernda mig gegn sjúkdómum,“ segir hún og bætir við: „Þetta er eins og teymisvinna með sjálfum þér.“

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Brittany Williams (@instantloss) on

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa