fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Matur

Burlesque-mamman velur bestu veitingastaðina í New York

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Fimmtudaginn 18. október 2018 11:55

Margrét Erla er hér hægra megin á myndinni, að njóta lífsins á Yuca Bar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margréti Erlu Maack þarf vart að kynna, en hún gengur undir nafninu Burlesque-mamma í daglegu tali, enda forsprakki listahópsins Reykjavík Kabarett. Það er nóg að gera hjá Margréti Erlu og treður hún upp með fyrrnefndum listahópi á hverju föstudagskvöldi í Þjóðleikhúskjallaranum fram í nóvember. Við náðum samt sem áður að ná tali af þessari hressu fjöllistakonu og fengum hana til að velja sína uppáhalds veitingastaði í stóra eplinu, New York.

„Ég fer til New York allt að fimm sinnum á ári. Borgin á mikið í mér, hefur kennt mér margt, og þar á ég marga vini og get auðveldlega reddað mér giggum á hinum ýmsu kabarettstöðum. Þegar ég fer til New York er ég því oftast í vinnuferðum og hef bæði lítinn tíma og á mjög oft lítinn pening. Svo flestir staðirnir sem ég vel eru algjört „bang for a buck“,“ segir Margrét Erla. Hér á eftir fylgja hennar eftirlætisstaðir í þessari stórkostlegu stórborg.

Raoul‘s – Geimsteinninn

„Eitt best geymda leyndarmálið. Utanfrá lítur staðurinn út eins og sveittur íþróttapöbb, en þegar inn er komið eru veggirnir þaktir erótískum og missmekklegum listaverkum. Staðurinn er þéttsetinn og það verður að panta borð vel fram í tímann. Ég mæli með piparsteikinni (stór skammtur, fínn fyrir tvo), og að panta alla forrétti sem þér líst vel á. Bestu martini-arnir í New York að mínu mati. Stundum er svo spákona á annari hæð sem leggur tarot-spil.“

Margrét Erla mælir með piparsteikinni.

Caracas – Sósan himnesk og ekkert minna

„Ég fer alltaf á Caracas þegar ég er í New York. Staðurinn býður upp á mat frá Venezuela. Kjúklinga-avókadó-arepan er í uppáhaldi hjá mér, en svo er mjölbanana- og svínakjöts-arepan einnig algjör negla. Sósan á borðunum er himnesk og ekkert minna. Í East Village er þetta bara pínuponsu hola í veggnum með dásamlegum arepas. Caracas hefur nú opnað nokkur útibú víðs vegar um New York, svo ef fólk vill setjast niður og fá sér dásamlega kokteila og kókoshnetusjeik þá mæli ég með að fara í fagra útibúið þeirra í Williamsburgh.“

Kræsingar á Caracas.

Yuca Bar – Allir dýrka þennan stað

„Flestir vina minna þarna eru fólk sem vinnur á kvöldin. Ég reyni því að smala sem flestum með mér í bröns á Yuca Bar, suður-amerískum tapas-stað. Í brönsinum eru huevos rancheros stórkostleg, með vel kryddaðri Bloody Mary. Að kvöldi til er hægt að fá dásamleg ceviche sem borin eru fram í kókoshnetum. Sangria-könnurnar eru svo í Ameríkustærð, sem er vel þegið. Hver einasti sem ég hef farið með þangað dýrkar þennan stað.“

Yuca Bar er með fjölbreyttan matseðil.

Agern – Dýrt og dásamlegt

„Hvers konar Íslendingur væri ég ef ég myndi ekki mæla með Agern? Agern á Grand Central er ein allra skemmtilegasta matarupplifun lífs míns. Takið kvöldið frá og borðið í marga klukkutíma.“

Maturinn á Agern er eins og listaverk.

Flatiron Lounge – Lokkandi leynikokteilar

„Flatiron Lounge uppi í Chelsea er einn uppalegasti kokteilabar sem ég hef komið á. Ég mæli með að kaupa flight of the day sem eru þrír míní-kokteilar frá sitthvoru heimshorninu.“

Ágætis kokteilaúrval hjá Flatiron.

Chelsea Market – Jólagjafaredd

„Jú, ég veit að það er klisja að mæla með Chelsea Market – EN – þar er dásamleg kryddbúð sem heitir Spices and Tease. Þar hef ég keypt öll krydd og te sem mér líst vel á og á svo alltaf lager sem hægt er að nýta í innflutnings-, jóla- og afmælisgjafir.“

Margir leggja leið sína á Chelsea Market.

Rosario‘s – Seint og sveitt

„Rosario’s í Lower East Side fyllist seint að kvöldi af draglistamönnum, burlesque-dönsurum og sirkusfólki sem ná sér í bita eftir sýningarnar sem eru þar í kring. Beint á móti Rosario’s er Slipper Room, sem er Mekka burlesque-sins og varietykúltúrsins í New York. Þarna er sko hægt að hitta skemmtilegt fólk á réttum tíma. Og pítsurnar eru ódýrar. Eru þær góðar? Líklega. Hef alltaf borðað þarna vel eftir miðnætti.“

Verið að undirbúa pítsurnar á Rosario’s.

Big Gay Icecream Store – Verði ykkur að góðu

„Caracas, Yuca Bar og Big Gay Icecream Store eru allar á sömu „blokkinni“ í East Village. Salty pimp er ís í brauði með súkkulaðidýfu, dulce de leche og sjávarsalti. Verði ykkur að góðu.“

Geggjaður ís í Big Gay Icecream Store.

Slipper Room – Ekki matur, en best

„Ef fólk er í New York á annað borð þá verð ég að mæla með að fara á Slipper Room á sýningu. Þetta er fallegasti kabarettstaður í heimi og þarna fáið þið New York beint í æð. Staðurinn er mitt annað heimili og þar er showbiz-fjölskyldan mín. Skilið innilegri kveðju frá mér. Ég er svo að skemmta þar á gamlárskvöld – ef þið eruð í nágrenninu.“

Hér sést Margrét Erla skemmta á Slipper Room.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa