fbpx
Lífsstíll

Djúpavogshreppur: Þar sem lögð er áhersla á að rækta samfélagið og hæglætishreyfingin er höfð í heiðri

Kynning
Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 3. júlí 2018 17:00

Íbúar Djúpavogshrepps leggja áherslu á hæglæti og þau tækifæri sem í þeirri stefnu felast, en hreppurinn hefur verið aðili að Cittaslow-hreyfingunni frá því árið 2013.

„Djúpivogur er eina bæjarfélagið á Íslandi sem er í þessari hreyfingu og hún er afsprengi hæglætishreyfingarinnar sem má rekja til ársins 1986,“ segir Greta Mjöll Samúelsdóttir, atvinnu- og menningarmálafulltrúi, sem flutti til Djúpavogs árið 2015 með mann og unga dóttur. „Síðan höfum við eignast annað barn og búum hér í miklum rólegheitum og sveitasælu. Cittaslow-hreyfingin stendur fyrir alþjóðlegt samfélag bæjar- og sveitarfélaga sem leggja áherslu á að bæta lífsgæði íbúa með því að efla sérstöðu, fjölbreytni og virðingu. Sérstaklega er reynt að bjóða upp á hreint, öruggt umhverfi, auk þess að efla staðbundin einkenni og menningu.“

Það var blaðamaðurinn Carlo Petrini, upphafsmaður Slow Food-hreyfingarinnar, sem mótmælti því að opna ætti McDonalds við Spænsku tröppurnar í Róm og sagan segir að það hafi orðið til þess að hann stofnaði Slow Food, en þannig ótengt Cittaslow.

Það var bæjarstjóri í litlum bæ í Tuscany-héraði á Ítalíu sem fannst hraði og hnattvæðing of mikil og fékk þá hugmynd að reyna að sporna við þeirri þróun. Hann fékk í lið með sér fleiri bæjarstjóra á Ítalíu og saman stofnuðu þeir Cittaslow. Hreyfingin hefur skýra samsvörun við áherslur Slow Food sem var stofnuð af Carlo Petrini en hans hugmyndafræði gengur út á að alla fæðu eigi að meðhöndla af virðingu, hana eigi að rækta, matreiða og njóta með hægð. Hugmyndir Cittaslow verða til á þessum grunni en eru víðtækari og krefjast útfærslu sem nær til allra þátta stjórnsýslunnar, líkt og kemur fram í meistaraverkefni Þorbjargar Sandholt, varaoddvita Djúpavogshrepps, um Cittaslow-hreyfinguna.

„1999 var svo Cittaslow stofnað í sinni nútímamynd en samtökin vinna að því að upphefja manneskjuleg gildi og staðbundna menningu með virðingu og vitund fyrir umhverfinu og uppruna í öndvegi og  á undanförnum árum hefur hæglætishugmyndafræðinni vaxið ásmegin og verið heimfærð á fjölmörg svið samfélagsins, svo sem hæglætislífsstíll (slow living), ferðamáti (slow travel), tíska (slow fashion), matargerð (slow food) og hönnun (slow design).“

 

Þar sem hreppurinn er Cittaslow tekur allt samfélagið á Djúpavogi þátt í hreyfingunni. „Allir innviðir samfélagsins eru með í því að hægja aðeins á sér, horfa inn á við og lifa í núinu. Leggja áherslu á umhverfismál og nýta það sem til er, sem dæmi má taka þegar jóla- og páskaföndur er í skólunum, að nota það sem til er og endurnýta, en ekki að kaupa allt nýtt. Sumir halda að þeir þurfi að breyta heilmiklu til að vera með í hreyfingunni, en það er misskilningur. Áherslan er á að nýta það sem til er, vera hlýtt og gestrisið og leggja áherslu á góð gildi og taka vel á móti gestum. Þetta gefur okkur kost á að leggja enn frekar áherslu á samheldni okkar.“

Sem dæmi má nefna myndband til heiðurs íslenska landsliðinu sem íbúar gerðu nýlega, þar sem Húh-ið var tekið í tanki við Djúpavog. „Það er nákvæmlega þetta sem við gerum, fólk gerir hluti saman og er til í það. Þetta er það sem við viljum að fólk sjái þegar það heimsækir okkur. Hér er lagt upp með að rækta samfélagið frekar en bílastæði, svo dæmi sé tekið. Þótt við séum fámenn þá eru margir að gera alls konar skemmtilega og merkilega hluti.“

„Bræðslan okkar er endurnýtt húsnæði, þar verður samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti haldin í sumar, í vetur var starfræktur þar nytjamarkaður sem foreldrafélag grunnskólans sá um og stofnaði. Húsið var upphaflega bræðsla en er endurnýtt í annað í dag og er gott dæmi um stefnu okkar.“

Fyrirtækin í bænum temja sér líka stefnuna. Á veitingastöðum í hreppnum er matur úr héraði, í stað þess að bjóða frekar upp á mat sem keyptur er annars staðar frá. „Matur er framleiddur hér í Berufirði og þá er hann í boði í búðinni og sama er með veitingastaði hér.“

Grunnskólinn er eini Cittaslow-skólinn á landinu og með þeim fyrstu í Evrópu. Börnin læra gildi hreyfingarinnar frá upphafi, „eins og til dæmis þá hendir ekkert þeirra skyrdós í ruslið. Svona eins og maður hendir ekki kókdós út um gluggann á þjóðveginum,“ segir Greta Mjöll.

Með því að gerast aðili að Cittaslow-hreyfingunni skuldbindur bæjarfélag/sveitarfélag sig til að vinna að 72 viðmiðum sem sett eru fram í eftirfarandi sex flokkum: umhverfismál, innviðir samfélagsins, gæði umhverfis, gestrisni, vitundarvakning og verndun og hvatning til handa staðbundinni framleiðslu og afurðum.

Sem dæmi má nefna er að lögð er áhersla á gæði umhverfis, að byggingarefni sé umhverfisvænt, umhverfi og byggingarefni séu umhverfisvæn. Setja skal fram áætlun um plöntun gróðurs á almenningssvæðum og einkagörðum, tryggja skal að ruslafötur, sem falla vel að umhverfi, séu fyrir hendi sem og áætlanir um hávaðastjórnun og litaval utanhúss.

Við viljum minna stress í líf okkar og drífa okkur rólega,“ segir Greta Mjöll. „Við lítum á sérstöðu okkar sem styrk og leggjum áherslu á mannauð, náttúruna og menningarminjar.

Á heimasíðu Djúpavogshrepps, djupivogur.is, má kynna sér nánar hæglætisstefnuna, hvað í henni felst og hvernig Djúpivogur markar sér sérstöðu með þátttöku í hreyfingunni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Lífsstíll
Fyrir 5 dögum

Barnaloppan – markaður í Skeifunni 11D: Endurnýtum fyrir börnin okkar og móður jörð

Barnaloppan – markaður í Skeifunni 11D: Endurnýtum fyrir börnin okkar og móður jörð
Lífsstíll
Fyrir 1 viku

Hágæða heitir pottar á enn lægra verði – infrarauðir saunaklefar

Hágæða heitir pottar á enn lægra verði – infrarauðir saunaklefar
Lífsstíll
Fyrir 1 viku

Hugaðu að vetrinum: Veldu finnsku gæðadekkin frá Nokian hjá MAX1

Hugaðu að vetrinum: Veldu finnsku gæðadekkin frá Nokian hjá MAX1
Lífsstíll
Fyrir 1 viku

Arctic Trucks: Nýja Dick Cepek-dekkið verður frumsýnt um helgina

Arctic Trucks: Nýja Dick Cepek-dekkið verður frumsýnt um helgina
Lífsstíll
Fyrir 1 viku

O’Learys í Smáralind: Huggulegt eins og í stofunni heima

O’Learys í Smáralind: Huggulegt eins og í stofunni heima
Lífsstíll
Fyrir 2 vikum

Loftstokkahreinsunin K2: Hreinsun loftræstikerfa í fjölbýlishúsum mikilvæg

Loftstokkahreinsunin K2: Hreinsun loftræstikerfa í fjölbýlishúsum mikilvæg
Lífsstíll
Fyrir 2 vikum

SugarBearHair: Vítamín-bangsarnir sem elska hárið þitt og eru í uppáhaldi hjá stjörnunum

SugarBearHair: Vítamín-bangsarnir sem elska hárið þitt og eru í uppáhaldi hjá stjörnunum
Lífsstíll
Fyrir 2 vikum

Ban Kúnn er gífurlega vinsæll: „Íslendingar eru sólgnir í góðan taílenskan mat“

Ban Kúnn er gífurlega vinsæll: „Íslendingar eru sólgnir í góðan taílenskan mat“