fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Kynning

Íslensk stemning með bandarískum keim: Sætir snúðar á Frakkastígnum

Kynning
Tómas Valgeirsson
Mánudaginn 25. júní 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kanill er ekki bara kanill, vilja sannir bakarasnillingar meina. Það skiptir höfuðmáli hvernig hann er notaður í bakstur og hvernig meðhöndlun hans er háttað með tilliti til alls þess sem hann gefur frá sér. Þessari aðferðarfræði er Danival Örn Egilsson hjartanlega sammála, en hann er annar stofnandi matarvagnsins Sætir snúðar og segir verkferlana á bakvið góðan bakstur vera margvíslega.

Þessi litli, blái bakkelsisvagn stendur efst á Frakkastíg, við Hallgrímskirkju, í hjarta Reykjavíkur og býður upp á gómsæta, ferska og heita kanilsnúða, matreidda beint frá hjarta og ástríðu tveggja feðga. Saman reka þeir Danival Örn og Egill Helgi Lárusson, faðir Danivals, þennan matarvagn sem spratt upp úr áhuga þeirra fyrir ljúffengum mat, nýjungum, sjálfstæðum störfum og sameiginlegu verkefni sem hefur síðan sameinað þá feðga með nýjum hætti.

„Þetta gerðist í raun alveg óvart,“ segir Danival um tilurð vagnsins. „Við pabbi vorum saman í London árið 2016 og fórum á stað sem var með nýbakaða kanilsnúða sem kölluðu alveg til okkar. Stuttu eftir ferðina fer pabbi að spreyta sig í bakstri á snúðum og prófa ýmislegt með mjög góðum árangri.“

Áður en feðgarnir vissu af voru viðtökurnar farnar fram úr björtustu vonum þeirra og þeir báðir farnir að framleiða kanilsnúða fyrir veislur og afmæli hjá vinum og ættingjum. „Viðbrögðin voru frábær, segir Danival. „Við vorum ekki að leitast eftir hrósi en fólk varð mjög opið með að vilja meira. Þá datt okkur í hug að vera með matarvagn með þessa sérþekkingu, nýbakaða og ferska kanilsnúða. Svona blanda af íslenskri stemningu og bandarískum sjarma.“

Sterkir saman

Danival útskrifaðist úr Flensborg árið 2015 og hefur mikið ferðast um og hefur lengi haft metnað fyrir því að gera eitthvað sjálfur. Hann segir stefnu vagnsins hafa verið að taka ekki hugmyndina og ímyndina of alvarlega en samt heldur ekki fara of langt í hina áttina, heldur bara finna hinn gullna meðalveg. Þetta sést vel á skemmtilegum myndskreytingum sem prýða vagninn sjálfan og frumlegum nöfnum á snúðunum á borð við Jökulinn, Sebruna og Ítalann.

„Pabbi hefur alltaf verið mikill hobbýkarl og hellir sér í allt sem hann kemst í,“ segir Danival um ákvörðunina að leggja í þessa viðskiptahugmynd af fullum krafti, en þegar Egill stendur ekki vaktina með syni sínum kennir hann viðskiptagreinar við Verslunarskóla Íslands.

„Pabbi hefur mikla reynslu í að gera deig og hefur lengi verið þekktur fyrir að gera gríðarlega góðar pitsur. Hann hafði þetta alveg í sér. Hann hefur þróað sig stöðugt áfram í uppskriftum,“ mælir Danival.

„Við töluðum lengi um að gera eitthvað saman. Við náum rosalega vel saman á öllum öðrum sviðum, þannig að af hverju ekki bara prufa að ná vel saman í rekstri?“

Jökullinn heitastur

„Það var margt sem þurfti að huga að þegar við byrjuðum á þessu. Hvernig er til dæmis hægt að tryggja það að þetta væri tilbúið á hverjum degi og koma því alltaf fersku til fólks,“ mælir Danival og segir það hafa komið sér á óvart hvað einfaldur rekstur eins og matavagn felur í sér margar hraðahindranir, en þeim tóku feðgarnir fagnandi.

„Okkur fannst ákveðinn skortur á þessu hér á landi. Auðvitað eru aðrir aðilar sem selja bakkelsi og svona en það eru ekki margir að selja bakkelsi í matarvögnum. Okkur fannst alveg vera pláss fyrir okkur á markaðinum. Hingað til hefur það gengið ágætlega hjá okkur.“

Þrátt fyrir að vagninn hafi ekki verið opinn lengi segir Danival ekki fara á milli mála hvaða snúður hefur reynst vinsælastur. „Sá heitasti er Jökullinn. Að hluta til er það af því að hann er svona klassískur kanilsnúður í amerískum stíl en ekki svona eins og Íslendingar eru vanir, sem er meira í líkingu við skandinavískt sætabrauð. Jökullinn hefur þetta upprunalega útlit sem kallar til fólks, en svo eru auðvitað aðrir sem sætta sig ekki við annað en Ítalann, og það er Nutellan sem kallar þar sterkt.“

Hugað að umhverfinu

Danival segir mörg íslensk fyrirtæki, sérstaklega í seinni tíð, vera fullmikið að einblína á alþjóðlegt heiti og vill hann meina að það ræni útlendingana ákveðinni upplifun sem fylgir því að koma til Íslands. „Ef ég færi til Serbíu og fengi mér mat, þá vildi ég sjá eitthvað skilti sem ég skil ekki og þurfa að spyrja og hafa smá stemningu í því. Það var það sem við vildum alltaf gera. Þannig varð í rauninni nafnið okkar, Sætir snúðar, til,“ segir hann.

„Ég var með skýra stefnu í því að hafa nafnið á vagninum íslenskt. Í rauninni eru mörg fyrirtæki að fórna íslenskunni fyrir ensku til að höfða til ferðamannanna.“ Aðspurður hverju þeir feðgar svara erlendum ferðamönnum varðandi heiti vagnsins svarar Danival kátur: „Sweet buns.“

Að mati feðganna skiptir einnig gríðarlega miklu máli að huga að umhverfinu og leggja þeir þess vegna mikla vinnu í það. „Við erum nánast búnir að ná því markmiði,“ segir Danival. „Þó svo að við séum með plastlok á glösunum og plaströr á Kókómjólkinni, þá erum við fyrir utan það með trégafla, endurvinnanlegan pappír, bakka og pappa. Plastnotkun er auðvitað mjög heit umræða í dag og skiptir alla máli. Við viljum tryggja það að við séum eins umhverfisvænir og hægt er.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum