fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Kynning

Amnesty International og Strætó: Bjargaðu lífi á leið í vinnuna

Kynning
Jóhanna María Einarsdóttir
Mánudaginn 17. desember 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bréf til bjargar lífi: Stærsti mannréttindaviðburður í heimi

Bréf til bjargar lífi er stærsti mannréttindaviðburður í heimi sem á sér stað á ári hverju í kringum 10. desember sem er alþjóðlegur mannréttindadagur. Á þessum árlega viðburði koma hundruð þúsunda einstaklinga saman í yfir 150 löndum og landsvæðum og undirrita nafn sitt á bréf til stjórnvalda sem fótumtroða mannréttindi og skrifa stuðningskveðjur til þolenda brotanna. Þetta er í sextánda sinn sem Amnesty International heldur Bréf til bjargar lífi og síðan þá hafa milljónir gripið til aðgerða. Skrifaðu undir hér.

Amnesty

Vekja athygli á framtakinu með því að fara í strætó

Amnesty

Í ár vinna Íslandsdeild Amnesty International og Strætó saman til að halda loganum lifandi í mannréttindabaráttunni og hvetja til þátttöku almennings í Bréf til bjargar lífi. Vagninn sem merktur verður herferðinni er svartur í grunninn sem vísar í það myrkur sem mannréttindabrot eru, en kertið um vagninn miðjan er tákn vonar og réttlætis sem krafist er í þágu þolenda brotanna. Amadeus Malmen er listrænn stjórnandi hjá hugmyndafyrirtækinu, Serious Business Agency sá um hönnuna á strætó fyrir Íslandsdeild Amnesty International og kom einnig að ljósainnsetningu við Hallgrímskirkju sem margir tóku þátt í.

Amnesty


Milljónir einstaklinga um allan heim lyfta Grettistaki

„Logarnir sem við sjáum vítt og breitt í bakgrunni vagnsins tákna áhrifamátt samstöðunnar. Ef milljónir einstaklinga um heim allan varpa ljósi á mannréttindabrot er hægt að lyfta grettistaki og þrýsta á bjartari framtíð fyrir þolendur brotanna. Ég vil reyna að færa Íslendingum ljós og hlýju á dimmum dögum desembermánaðar og að endingu hvetja þá til að færa þolendum mannréttindabrota hið sama með þátttöku sinni í Bréf til bjargar lífi. Vonandi upplifir fólk jákvæðar tilfinningar þegar það sér vagninn og finnur sig knúið til að láta gott af sér leiða,” segir Amadeus.

Amnesty
Kertið um vagninn miðjan er tákn vonar og réttlætis.

Íslendingar hafa tekið þátt frá 2004

Íslendingar hafa ekki látið sitt eftir liggja í baráttunni fyrir betri heimi en almenningur hefur tekið þátt í herferðinni frá árinu 2004. „Fjöldi einstaklinga úti á landi skipuleggur margvíslega viðburði til að safna undirskriftum til stjórnvalda en það er ótrúlegt hvað fólk er tilbúið að leggja mikið á sig til styðja einstaklinga sem eru því algerlega ókunnir, í fjarlægum löndum en sæta grófum mannréttindabrotum. Þessi herferð er því í raun besta dæmið um það sem Amnesty International stendur fyrir þ.e. baráttu einstaklinga fyrir aðra einstaklinga sem brotið er á, hvar sem þeir eru og hverjir sem þeir eru. Þá tekur einnig fjöldi framhalds- og grunnskóla þátt í herferðinni og fjölmörg bókasöfn hafa lagt okkur lið í árafjöld. Öllu þessu frábæra fólk kunnum við okkar bestu þakkir fyrir,“ segir Bryndís Bjarnadóttir, herferðastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.

Amnesty
Bryndís Bjarnadóttir, herferðastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.


Sæta grófum mannréttindabrotum

Á síðasta ári voru yfir fimm milljónir bréfa og undirskrifta sendar til stjórnvalda víða um heim vegna tíu mála einstaklinga og hópa sem sæta grófum mannréttindabrotum. Árangurinn lét ekki á sér standa.

Í sjö af tíu málum fengu þolendur lausn sinna mála að hluta eða öllu leyti.

Sem dæmi má nefna þá var mál Mahadine tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi árið 2017 en hann er aðgerðasinni í Tsjad sem var ranglega ákærður. Hann var leystur úr haldi í apríl síðastliðnum eftir 18 mánuði í fangelsi. Hann stóð frammi fyrir lífstíðarfangelsi fyrir gagnrýni á stjórnvöld í færslu á Facebook. Það söfnuðust 690.000 undirskriftir og stuðningskveðjur í þágu hans. Mahadine lét eftirfarandi orð falla þegar hann var leystur úr haldi,

ég vil tjá þakklæti mitt til ykkar allra. Ég kann að meta ykkur, ég elska ykkur og ber ómælda virðingu fyrir ykkur.

Hanan Badr el-Din var handtekin í maí 2017 og ranglega ákærð. Hún hefur krafist svara frá egypskum yfirvöldum síðan eiginmaður hennar hvarf úr þeirra höndum í júlí 2013 og starfaði í þágu annarra í svipuðum sporum. Heilsu Hanan hrakaði í haldi, en eftir að hálf milljón einstaklinga greip til aðgerða í þágu hennar fékk hún nauðsynlega læknismeðferð. Fjölskylda hennar segir að það megi rekja beint til þeirrar alþjóðlegu athygli sem Hanan fékk í Bréf til bjargar lífi.

 

Bréfin bjarga sannarlega lífi

„Þetta eru aðeins tvö dæmi af mýmörgum þar sem samtakamáttur aðgerðasinna um heim allan í Bréf til bjargar lífi hefur haft raunveruleg áhrif á líf þolenda mannréttindabrota. Bréfin bjarga sannarlega lífi. Við verðum vitni að ótrúlegum breytingum í lífi þeirra sem við berjumst fyrir á hverju einasta ári og það er af þeim sökum sem þessi herferð er jafnöflug og um ræðir. Fólk sem ranglega er haldið í fangelsi er leyst úr haldi, pyndarar dregnir fyrir rétt og fólk í fangelsi fær mannúðlegri meðferð,“ segir Bryndís.


Shackelia Jackson h
eldur áfram að berjast

Bréf geta líka verið vonarljós þeirra sem þurfa á því að halda. Á síðasta ári fékk Shackelia Jackson frá Jamaíku fjöldann allan af stuðningskveðjum. Hún heldur áfram að krefjast réttlætis fyrir bróður sinn, Nakiea, sem lögreglan drap án nokkurrar ástæðu. Sá harmleikur gerði að verkum að hún er nú leiðtogi hreyfingar sem berst gegn ólögmætum drápum lögreglunnar á Jamaíku.

„Það virðist ef til vill bara örlítið góðverk að skrifa bréf til fólks. En áhrifin geta verið ótrúleg. Bréfin minntu mig á mikilvægi starfs míns og sýndu fjölskyldu minni og samfélagi að við erum ekki ein. Þau hafa gert persónulega baráttu okkar að alþjóðlegri baráttu. Allur þessi fjöldi bréfa sem bárust sýndu ríkisstjórninni að fólk víðs vegar um heim er að fylgjast með og vill að réttlætinu sé fullnægt,“ sagði Shackelia


Tíu hugrakkar baráttukonur fyrir mannréttindum

Aðalstöðvar Amnesty International velja um tíu til tólf mál á hverju ári fyrir Bréf til bjargar lífi. Málin eru valin með hliðsjón af því hversu raunhæft er talið að árangur geti náðst í baráttunni og endurspegla áherslur samtakanna, landfræðilega breidd og jöfn kynjahlutföll. Í ár eru öll málin helguð tíu hugrökkum baráttukonum fyrir mannréttindum sem hafa verið áreittar, fangelsaðar, pyndaðar og jafnvel myrtar vegna starfa sinna í þágu mannréttinda. Konur sæta áfram margvíslegri mismunun vegna kyns síns og vegna baráttu sinnar í þágu mannréttinda, en þær neita að láta þagga niður í sér og hafa verið í fararbroddi mannréttindabaráttunnar árið 2018.


Leiðtogar í baráttu fyrir breytingum

Við viljum heiðra hlutverk kvenna sem rísa upp gegn valdinu, leggja sitt af mörkum í þágu réttlætisins og eru í forystuhlutverki í baráttu fyrir breytingum. Staða þeirra sem leiðtoga í samfélögum sínum er enn merkilegri í ljósi þeirra áskorana sem eru á vegi þeirra. Þær eru leiðtogar og við þurfum á fleira fólki eins og þeim að halda, nú þegar heimurinn færist sífellt í átt til öfga.


Réttlæti fyrir Marielle Franco, Atenu Daemi og Nonhle Mbuthuma

Meðal málanna í ár er beiðni um réttlæti fyrir Marielle Franco, brasilískan mannréttindafrömuð, sem var skotin til bana í bíl sínum fyrir átta mánuðum; Atenu Daemi, íranska baráttukonu sem situr nú í sjö ára fangelsi fyrir að mótmæla dauðarefsingunni og Nonhle Mbuthuma, frá Suður-Afríku, sem hótað hefur verið lífláti vegna andófs gegn námufyrirtæki sem vill vinna títaníum á landi forfeðra hennar. Við viljum styðja við þessar konur og fjölskyldur þeirra sem takast á við margvíslegar hættur og mótlæti í baráttu sinni fyrir mannréttindum. Við viljum heim þar sem allar konur geta hafið upp raust sína gegn óréttlæti án þess að lifa í ótta um að vera ofsóttar fyrir að vera það sem þær eru. Íslendingar geta lagt sitt lóð á vogarskálar jafnréttis, frelsis og réttlætis með því að slást í hóp þessara kvenna og milljóna annara til viðbótar sem standa upp gegn óréttlæti. Skrifaðu undir á amnesty.is.

Gagnvirk ljósainnsetning safnaði 6000 undirskriftum

Amnesty

Íslandsdeild Amnesty International stóð fyrir gagnvirkri ljósainnsetingu við Hallgrímskirkju, dagana 30. til 2. desember síðastliðinn til að vekja athygli á herferðinni, Bréf til bjargar lífi. Eliza Reid, forsetafrú opnaði ljósainnsetninguna Lýstu upp myrkrið  fyrir Íslandsdeildina og skrifaði fyrst allra undir málin tíu. Gestir og gangandi tóku svo þátt í ljósainnsetningunni með því að skrifa undir öll málin á spjaldtölvu fyrir framan kirkjuna.

Amnesty

70 metra háu kerti og margvíslegu töfrandi sjónarspili var varpað á framhlið kirkjunnar og saman lögðu þátttakendur sitt af mörkum við að halda loga kertisins lifandi. Tæplega 6000 undirskriftir söfnuðust á þeim þremur dögum sem ljósainnsetningin stóð yfir en mikill fjöldi manns gerði sér leið að Hallgrímskirkju til að styðja við mannréttindi og njóta þessarar mögnuðu upplifunar sem ljósainnsetningin var.

Amnesty

 

Íslendingar sýndu gríðarlegan stuðning í fyrra

Amnesty

Engin þjóð sýndi Bréf til bjargar lífi jafnmikinn stuðning í fyrra og Íslendingar, en nærri 3% þjóðarinnar tóku þátt. Alls söfnuðust rúmlega 95.000 undirskriftir og þar af tæplega 50.000 á vefsíðunni. „Í ár stefnum við að því að ná rúmlega 100.000 undirskriftum og þar af 70.000 á amnesty.is. Nú þegar hafa safnast 51.633 undirskriftir á vefsíðunni okkar en við vonumst til að ná takmarkinu fyrir lok janúar svo við hvetjum alla landsmenn til að standa saman, leita réttlætis og sýna þessum öflugu baráttukonum fyrir mannréttindum stuðning sinn í verki. Saman getum við stuðlað að jákvæðum breytingum,“ segir Bryndís.

Amnesty

Taktu þátt í átakinu og skrifaðu undir

Fólk getur getið þátt í herferðinni á vefsíðu Íslandsdeildar Amnesty International fram til 17. janúar. Það er því enn tími til stefnu til að að taka höndum saman og lýsa upp myrkrið í lífi tíu þolenda mannréttindabrota með því að fara á amnesty.is. Það gæti ekki verið einfaldara að taka þátt, tekur aðeins hálfa mínútu en hægt er að skrifa undir öll málin tíu með einum smell á vefsíðunni eða velja þau mál sem viðkomandi vill styðja.

Bjargaðu lífi með því að skrifa undir!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum