Í Trékyllisvík og Halong Bay

Ingibjörg Valgeirsdóttir skrifar um djúpstæða upplifun af ferðalagi til Halong Bay í Víetnam

Ingibjörg Valgeirsdóttir, Hrafnhildur Kría Jónasdóttir og Jónas Gylfason.
Á ferðalagi Ingibjörg Valgeirsdóttir, Hrafnhildur Kría Jónasdóttir og Jónas Gylfason.
Mynd: Úr einkasafni

Höfundur: Ingibjörg Valgeirsdóttir

Móðir jörð,
þú sem ert á himnum:
Takk elskuleg.

Þessi orð voruð skrifuð í dagbókina mína á siglingu um Halong Bay í Víetnam. Upplifunin var djúpstæð. Svæðið, sem hefur stundum verið nefnt eitt af sjö undrum veraldar, er eyjaklasi sem inniheldur hátt í 2.000 litlar, háreistar og gróðursælar eyjar. Við fjölskyldan vorum stödd í mikilvægu ferðalagi með þremur vinafjölskyldum okkar um Dúbaí, Kína, Víetnam og Balí síðastliðið sumar. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja upprunaborg ættleiddra dætra okkar frá Kína og anda að okkur undrum og ævintýrum Asíu. Halong Bay er ekki bara stórbrotin náttúrusmíð sem verður ekki lýst með orðum, í Halong Bay er líka stórbrotið, agnarsmátt samfélag sem snerti okkur djúpt. „The Floating Village“.

Mynd: Úr einkasafni

Réttu hjálparhendur

Þegar við vorum á siglingu á Halong Bay sendi mamma mér mynd úr bátnum þar sem hún var að sigla út í Árneseyju í Trékyllisvík. Fjölskyldan mín, sem þar býr, var á leið í dúntekju. Með í för voru þrjár konur sem höfðu tekið skyndiákvörðun um að fara í „roadtrip“ eitthvert út á land sumarið áður. Ferð þeirra endaði norður í Árneshreppi á Ströndum, þar sem bíllinn þeirra bilaði. Þær skrifuðu greinar í Fréttatímann í kjölfarið af upplifun sinni af því hvernig heimamenn í þessu minnsta sveitarfélagi á landinu opnuðu verkfæratöskurnar, heimili sín og faðminn á áreynslulausan hátt og réttu þeim hjálparhendur. Fleiri en eina og fleiri en tvær.

Fréttatímastelpurnar, eins og þær eru kallaðar í daglegu tali í Árneshreppi, hafa í kjölfarið komið nokkrar ferðir norður og meðal annars hjálpað til við smalamennsku og búskapinn svo eitthvað sé nefnt. Þær sjá menningarleg verðmæti í þessu litla, einstaka samfélagi. Upplifun þeirra af svæðinu og fólkinu sem þar býr snertir þær og síðastliðinn vetur fóru þær með börnin sín norður í nokkurs konar „skólabúðir“ þar sem þau kynntust bæði öðrum börnum í sveitinni og því hvernig það er að búa á svona stað.

Sorgarsaga

Á sama tíma og við ferðuðumst um Asíu voru tvö málþing haldin í Árneshreppi um framtíðina og næstu skref. Stærsta baráttumál þessa einangraða samfélags áratugum saman hefur verið samgöngumál svo unnt sé að sækja grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu og skapa búsetuvænt umhverfi. Það er ekki ætlunin að rekja þá sorgarsögu hér en hávær þögn stjórnvalda og einbeitt aðgerðarleysi hefur verið áþreifanlegt. Skilaboðin eru skýr: Íslensk stjórnvöld, sama hvar í flokki, hafa ekki áhuga á að viðhalda svona samfélagi.

Fólkið flutt burt

Mér gat ekki annað en verið hugsað sterkt heim þar sem við sigldum hljóðlát um „The Floating Village“ í Halong Bay. Myndin af Fréttatímastelpunum í bátnum með mömmu var ákveðin endurspeglun af okkur vinkonunum hér í Víetnam, þar sem við sátum í bambusbát og sigldum fram hjá fljótandi heimilum og fengum innsýn í líf heimamanna. Í þorpinu búa um 500 íbúar. Hér er skóli fyrir börn 6–12 ára en eftir það fara börnin öllu jafna til ættingja í Halong Bay City. Hér lifir fólk meðal annars af náttúrunni, viðskiptum við ferðaþjónustuaðila, sem sigla um Halong Bay, auk þess sem íbúar fljótaþorpsins selja sjávarafurðir upp á meginlandið.

Hér er það ekki aðgerðarleysi stjórnvalda sem er ógn við menningarlega dýrmætt samfélag, hér eru það beinar aðgerðir sem hafa valdið verulegri fólksfækkun að sögn leiðsögumanns okkar. Hann segir okkur að frá árinu 2012 hafa hátt í þrjú þúsund manns verið fluttir úr fljótandi þorpum á Halong Bay til Halong Bay City þar sem þeim var hjálpað að finna húsnæði og skóla fyrir börnin. Stjórnvöld vildu ekki að fólkið mengaði flóann, var ein skýringin. Leiðsögumaður okkar, sem bjó sem barn í fljótaþorpi, segir að stjórnvöld hafi ekki gert sér grein fyrir að ruslið í Halong Bay bærist með rekanum, bæði frá Halong Bay City og frá úthafinu. Strandamenn þekkja það vel að hreinsa fjörurnar sem fyllast af rusli. Ruslið er ekki frá heimamönnum komið þar frekar en hér.

Við erum stöðugt að næra hið stóra, risakeðjurnar, fyrirtækjasamsteypurnar, á kostnað hins smáa.

„Hér kann fólk að lifa í náttúrunni“. Það var greinilegt hvað þessi umræða snerti leiðsögumann okkar djúpt. Hann sagði okkur að fólkið sem var flutt til Halong Bay City þrifist ekki þar. Sú mikla og dýrmæta þekking og reynsla sem það býr að, eftir að hafa lifað með náttúruöflunum í Halong Bay, nýtist ekki á sama hátt í daglegu stórborgarlífi. Unga fólkið sækir í að koma aftur heim til að geta unnið í fljótaþorpunum meðan gamla fólkið gætir barna á skólaaldri í borginni. Átthagarnir, ræturnar í náttúrunni, toga fast í: ,,Yes! They live happily here!“ hann ljómaði og lagði sterka áherslu á orð sín. „They are not happy in the city!“

Stöðugt að næra hið stóra

Svarið staðfesti upplifun mína. Hér eru húsin smá, íburðurinn enginn, undirlendið ekkert. „Hér vakir guð hins smáa,“ eins og Elín Agla Briem, íbúi í Árneshreppi, orðar það svo fallega. Fegurð einfaldleikans í djúpstæðum tengslum við náttúruna smýgur langt inn í mig. Við segjum fátt í bátnum. Kyrrðin er eins og fegursta tónlist. Í kringum okkur sigla dætur okkar á kajökum með feðrum sínum. Að sjá þau róa framhjá fljótandi húsunum gerir upplifunina raunverulega. Við erum ein hér með heimamönnum sem eru ekki úti á sjó að vinna. Við sjáum börn. Einhverjar konur. Og marga sofandi karlmenn. Það vekur undrun okkar. „Karlarnir vinna erfiðisvinnu við veiðar,“ sagði leiðsögumaðurinn okkur þegar við spurðum hann. Á þessum tíma dags virtust þeir vera að hvíla sig meðan konurnar sigldu bambusbátum út um allan flóa með ferðamenn í skoðunarferðum og varning til sölu.

Hvað getur maður sagt? Þorpunum á flóanum og íbúum þeirra hefur stórfækkað. Við erum stöðugt að næra hið stóra, risakeðjurnar, fyrirtækjasamsteypurnar, á kostnað hins smáa. Einstaka. Fagra. Við erum að markaðsvæða líf okkar í leit að hamingjunni, meðan hamingjan er bara hér. Og nú. Í hinu smáa. Hinu smáa, sem er svo stórt. Og vonandi, vonandi vöknum við til vitundar um það fyrr en síðar. Meðan dýrmæt samfélög, eins og Árneshreppur og fljótaþorpin sem eftir lifa í Halong Bay, eru ennþá til.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »