FókusLífsstíll

Ævintýraferð til Ísrael og Jórdaníu: Mögnuð saga við hvert fótmál

Stórkostlegir áfangastaðir, frábær matur og vín – Hátt verðlag helsti gallinn

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 19. mars 2018 21:05

Dauða hafið er töfrandi staður

Ísrael hefur upp á margt að bjóða sem áfangastaður ferðamanna. Nánast hvert sem augum er litið eru sagnfræðilega merkilegir staðir, ef ekki frá miðöldum eða úr biblíusögunum þá úr samtímasögunni enda hefur fréttaflutningur um átök Ísrael og Palestínu dunið á heimsbyggðinni í marga áratugi. Blaðamaður DV brá sér í vikufrí til Ísrael með fjölskyldu sinni. Ritstjóri heimilaði beiðnina um vikufrí gegn því að fá ítarlegt innslag um ferðina á ferðasíðu næsta helgarblaðs! Það er algjör óþarfi fyrir ferðalanga að óttast um öryggi sitt í landinu en helsti gallinn er kannski sá að verðlag er frekar hátt.

Haustið 2017 hóf WOW air beint flug til Tel Aviv í Ísrael. Þar sem ykkar einlægur er mikill aðdáandi framandi áfangastaða þá var það strax sett á dagskrá að nýta sér þetta framtak flugfélagsins. Tækifærið gafst í vetrarfríi grunnskólanna í Garðabæ en sveitarfélagið lokaði skólunum heila vinnuviku. Því passaði ágætlega að fara með fjölskylduna frá laugardegi til sunnudags.

Það er nánast til að æra óstöðugan að reyna að velja úr stöðum til þess að skoða í Ísrael og ekki síst vegna þess að sumir þeirra, eins og Jerúsalem, krefjast margra daga ef vel á að vera. Að lokum komumst við að þeirri niðurstöðu að heimsækja fjóra staði. Þannig vildi til að fyrsti staðurinn á blað var utan Ísrael, borgin Petra í Jórdaníu. Síðan Jerúsalem, Dauðahafið og fornaldarborgin Masada auk þess sem tveir síðustu dagarnir yrðu fráteknir fyrir Tel Aviv. Svo hófst púsluspilið að skipuleggja skynsamlega dagskrá.

Nú þegar ferðalagið er yfirstaðið þá vil ég reyna að greina frá því með veikum mætti hvernig til tókst og vonandi geta lesendur fundið hér nytsamlegar ábendingar ef ske kynni að þeir vildu leggja land undir fót til landsins helga.

17. febrúar: Flogið til Tel Aviv – keyrt til Eilat við Rauðahaf.

Yfirleitt eru ferðadagar frekar súrir, sérstaklega þegar um 6–7 klukkustunda flug er að ræða. Í stað þess að gista á hóteli í Tel Aviv þessa fyrstu nótt og þurfa síðan að keyra daginn eftir var ákveðið að keyra um fjögurra klukkustunda leið strax við lendingu. Ástæðan var sú að best er að fara yfir til Jórdaníu í gegnum landamærahlið við borgina Eilat. Það væri því ákjósanlegt að hafa næturgistingu í Eilat og komast í dagrenningu að landamærunum. Þessi áætlun reyndi nokkuð á ökumanninn, sem er sá sem þessi orð skrifar, og var hann afar framlágur þegar á hótelið var komið.

Afar hagstætt er að leigja bíl í Ísrael. Bíll fyrir fjóra einstaklinga í fimm daga kostaði rétt tæplega 15 þúsund krónur og þá var GPS-leiðsögn innifalin.

Jórdanía er sannkallað ævintýraland

Almennt finnst mér skemmtilegt að keyra um ný lönd og virða fyrir mér borgir, mannlíf og landslag. Fljótlega eftir að lagt var af stað brast á myrkur og því sá ég bara veginn á meðan akstrinum stóð. Það helsta sem gladdi mig voru ítrekuð viðvörunarskilti um lausagöngu kameldýra. Þegar ég keyrði bróðurpart leiðarinnar til baka komst ég þó að því að útsýnið var frekar einsleitt eyðimerkurlandslag og því var fyrsti dagurinn ágætlega nýttur við akstur.

Rúmlega 50 þúsund manns búa í Eilat og borgin er afar vinsæll áfangastaður ferðamanna út af fallegum ströndum, frábærum aðstæðum til köfunar og fjörlegu næturlífi. Þegar keyrt er inn í borgina fær maður helst á tilfinninguna að maður sé að keyra inn í örútgáfu af Las Vegas enda blasa við ógnarstór upplýst hótel. Lítill tími gafst þó til að kanna Eilat betur því fjölskyldan var útkeyrð eftir erfitt ferðalag.

18. febrúar: Yfir til Jórdaníu – Safarí í Wadi Rum-eyðimörkinni.

Við vorum mætt við landamærin við dagrenningu og vorum alls ekki þau fyrstu. Nokkuð stórir hópar af ferðamönnum á vegum ísraelskra ferðaþjónustufyrirtækja voru á undan okkur. Dagsferðir til Petra frá Ísrael eru nefnilega mjög vinsælar og það var pakki sem við höfðum skoðað en ákveðið að nýta okkur ekki. Við vildum ekki vera föst með ung börn í fjölmennri skipulagðri ferð heldur skoða Petra á okkar hraða. Bílaleigubílinn geymdum við á sérstöku stæði við landamærin sem var gjaldfrjálst. Verðið fyrir bílaleigubílinn var það hagstætt að það borgaði sig að skilja hann eftir í tvo daga.

Til þess að fá einhverjar tekjur í kassann af „eins-dags-ferðamönnum“ innheimta Jórdanir 65 dollara skatt við landamærin. Þá er miðinn inn í Petra einnig dýrari sem nemur um 60 dollurum. Þessi gjöld falla niður ef ferðalangar gista tvær nætur eða fleiri í Jórdaníu. Þar með skapaðist hvati fyrir fjögurra manna fjölskyldu að gista í Jórdaníu því að auki er hótelgisting þar talsvert ódýrari en í Ísrael. Niðurstaðan varð því sú að panta gistingu á hóteli í bænum Wadi Musa, sem er alveg við Petra, og nýta aukadaginn til þess að skoða Wadi Rum-eyðimörkina sem er á heimsminjaskrá UNESCO.

Landslagið í Wadi Rum er engu líkt

Óhætt er að mæla með báðum áfangastöðum. Landslagið í Wadi Rum er engu líkt. Bærinn Wadi Musa er þó frekar ómerkilegur. Það er þó upplifun að gista þar en við vorum fegin að yfirgefa bæinn.

Varðandi ferðir þá höfðum samband við hótel okkar í Jórdaníu og fengum starfsmenn þar til þess að sækja okkur og bóka ferð í eyðimörkina. Það reyndist lítið mál og var verðmiðinn fyrir fjölskylduna um 25 þúsund krónur en innifalið í því var allur akstur innan Jórdaníu, eyðimerkursafarí sem og hádegisverður með bedúínum í eyðimörkinni.

Til samanburðar fengum við tilboð frá ísraelskri ferðaskrifstofu um svipaða ferð sem kostaði um 150 þúsund krónur, án jeppaferðar en með leiðsögn um Petra.

Óhætt er að mæla með þeirri leið sem við völdum. Jórdanskur leiðsögumaður okkar, Assem – kallaður Awesome, var stórkostlegur og gerði upplifunina einstaka. Hann átti góða vini meðal bedúínanna í Wadi Rum og fór með okkur í tjald til fjölskyldu einnar sem var aðeins nýbyrjuð að fá ferðamenn í mat. Okkur varð ekki meint af því stórkostlega fæði sem var eldað í tunnu í eyðimerkursandinum.

19. febrúar: Rósaborgin Petra.

Borgin Petra, Rósaborgin, var byggð af Núbíumönnum á fjórðu öld fyrir Krist, að því talið er. Hún er að mestu leyti grafin inn í kletta í hinum tilkomu mikla Arabah-dal. Það er stórkostleg upplifun að skoða borgina, enda er um einstakt hönnunarundur að ræða. Til að komast að borginni er gengið um afar þrönga en einstaklega fallega fjallasprungu þar til „Fjárhvelfingin“ (e. The Treasury) blasir við. Fyrir lágmenningarsinna eins og sjálfan mig var mannvirkið gert ódauðlegt í Indiana Jones-myndinni The Last Crusade á árum áður.
Boðið er upp á 1–3 daga miða til þess að skoða Petra. Fyrir okkur dugði einn dagur fyllilega og gátum við skoðað helstu mannvirki, eins og „Leikhúsið“ (e. The Theatre) og „Klaustrið“ (e. The Monastery).

 

Fjárhvelfingin í Petru er sennilega frægasta kennileiti Rósaborgarinnar

Það er ekki hægt að fjalla um upplifunina af Petra án þess að minnast á bedúínana sem herja á ferðalanga með gylliboðum um ýmiss konar ferðir á mismunandi reiðskjótum og á alls konar glingri. Þeir fara í taugarnar á mörgum, enda afar uppáþrengjandi, en undirritaður hafði stórkostlega gaman af þeim. Ferðamálayfirvöld hafa meira að segja gripið til þess ráðs að gefa út verðskrá við miðasöluna að Petra þar sem eðlilegt verð fyrir ýmsar ferðir er útlistað. Sjálfur lét ég glepjast til að kaupa kameldýraferð, asnaferð og hestakerruferð fyrir börnin mín og hafði að sjálfsögðu ekki kynnt mér verðskrána. Í lok dagsins kom í ljós að ég hafði bara borgað rúmlega tvöfalt gjald fyrir allar ferðirnar og tel ég það afar vel sloppið!

Greinarhöfundur ásamt Abdullah, konungi kameldýranna.

Maður er nefndur Abdullah og var að öðrum ólöstuðum voldugasti bedúíninn. Við enduðum með að kaupa allar ferðirnar af honum og var hann því orðinn mikill vinur okkar í lok dags. Hann spurði að lokum hvað ég vildi fá mörg kameldýr fyrir forkunnarfagra sambýliskonu mína. Ég tjáði Abdullah mæðulega að ég hefði fengið tilboð upp á þrjú kameldýr fyrir um áratug og spurði hann hvort frúin væri ekki fallin í verði. (Þetta er dagsatt. Stundum þegar verið er að skamma mig heima fyrir þá horfi ég dreyminn út í garð og sé fyrir mér stóð kameldýra). Abdullah brosti þá út að eyrum svo glitti í saffrangular tennurnar og lét eftirfarandi orð falla: „Meiri reynsla, fleiri kameldýr“. Ég er að vona að ég sjái Abdullah aldrei aftur.

 

 

20. febrúar: Aftur til Ísrael – Dauðahafið og Masada.

Það tók rúma tvo tíma að ferðast frá Wadi Musa og komast aftur yfir landamærin til Ísrael. Þar stukkum við upp í bíl og héldum áleiðis til Masada, fornrar borgar á toppi fjalls með mögnuðu útsýni yfir Dauðahafið. Masada er einn vinsælasti ferðamannastaður Ísrael og er nánast helgur staður í augum Ísraelsmanna. Einfölduð saga staðarins er sú að Heródes hinn mikli lét reisa fjallavígið á árunum 37 til 31 fyrir Krist. Frægð Masada byggist helst á því að vígið hafði verið hertekið af flokki andspyrnumanna af gyðingarkyni árið 66 eftir Krists en þá geisaði fyrsta stríðið milli gyðinga og Rómverja. Vígið féll síðan aftur í hendur Rómverja eftir langt umsátur en um leið og varnirnar brustu sviptu nánast allir íbúar fjallavígisins, um 1.000 talsins segir sagan, sig lífi.
Útsýnið og saga Masada er einstök og óhætt er að mæla með stoppi þar. Mjög auðvelt er að komast á topp fjallsins í kláfi en einnig er hægt að ganga ókeypis upp á fjallið ef ferðalanga þyrstir í krefjandi líkamsrækt. Fornminjarnar blikna þó í samanburði við Petra að mati undirritaðs.
Eftir heimsóknina í Masada var komið að stuttri heimsókn að Dauðahafinu. Voru yngstu ferðalangarnir þá orðnir mjög lúnir og var því ákveðið að koma í lengri heimsókn daginn eftir enda var gist í bænum Arad sem er í næsta nágrenni. Það var því aðeins vaðið í Dauðahafinu þann daginn.
Sú ákvörðun að gista í Arad var að mörgu leyti mistök. Um rólegan og fallegan bæ er að ræða en aðeins er tæpur klukkutími til Jerúsalem þar sem aldrei er hægt að hafa nægan tíma til þess að njóta þeirrar borgar. Þá hefði einnig komið til greina að gista í „baðstrandarstaðnum“ Ein Bokek við hafið steindauða. Það var besti staðurinn að mati undirritaðs til þess að komast í tæri við náttúruundrið.

 

 

21. febrúar–23. febrúar: Jerúsalem

Eftir stuttan sundsprett í Dauðahafinu var brunað til Jerúsalem í gegnum Vesturbakkann, svokallaða. Reyndar um landsvæði sem er að mestu leyti undir yfirráðum Ísraelsmanna. Ekki gafst kostur á að heimsækja helstu borgir og bæi Palestínumanna og voru börnin sérstaklega sorgmædd því ekkert varð af heimsókn í Betlehem. Það bíður síðari tíma.
Það er tilgangslaust að reyna að lýsa Jerúsalemborg í stuttu máli. Borgin er stórfengleg í alla staði. Hægt er að týna sér svo dögum skiptir í gamla bænum og skoða heimsfræga staði nánast við hvert fótmál. Jafnvel fyrir hundheiðna menn er það afar tilkomumikið að heimsækja tilbeiðslustaði eins og Grátmúrinn og Grafarkirkjuna og fylgjast með því sem fyrir augu ber.

Þá má ekki gleyma því að í ógrynni frábærra veitingastaða er í Jerúsalem. Þar var ýmislegt spennandi í boði en að endingu varð niðurstaða okkar að heimsækja ítalska veitingastaðinn Luciana í Mamila-verslunarmiðstöðinni, rétt fyrir utan Jaffa-hliðið, fyrra kvöldið. Þar var boðið upp á úrvalsmat í skemmtilegu umhverfi.

Seinna kvöldið fundum við fyrir tilviljun Anna Italian Café sem er sérstakur veitingastaður í afar fallegu eldra húsi. Hugmyndafræði staðarins er sú að gefa þar ungu fólki sem hefur villst af réttri braut í lífinu tækifæri og það skapar hlýlegt og gott andrúmsloft. Maturinn var síðan frábær.

Þá verður enginn svikinn af falafel-vefju á skyndibitastaðnum Moshiko ávið Ben Yehuda-stræti. Unaðslegur matur og almennt er það skylda ferðamanna í Ísrael að troða sig eins mikið út af hummus og unnt er. Ekkert sem er boðið upp á hérlendis kemst í tæri við hummusinn á þessum slóðum.

Þá er einnig óhætt að mæla með ísraelskum rauðvínum sem eru heilt yfir virkilega góð sem og yfirleitt ódýrari en innflutt vín á veitingastöðum. Ekki er vanþörf á, því matur á veitingastöðum er dýr, líklega um 80 prósent af verði á íslenskum veitingastöðum, stundum meira.

23.–25. febrúar: Tel Aviv.

Síðustu tveir dagar ferðarinnar voru í borginni sem WOW flýgur til, Tel Aviv. Aðeins tekur tæpa klukkustund að keyra á milli borganna og kostar leigubíll um 4.000 krónur. Almennt er ágætis ráð að dvelja yfir helgar í Tel Aviv frekar en Jerúsalem enda er mörgum stöðum í síðarnefndu borginni lokað vegna hvíldardags gyðinga, shabbat. Það sama gildir líka um Tel Aviv að einhverju leyti en þó eru borgarbúar þar mun frjálslegri en í Jerúsalem.

Ef matarmenningin var góð í Jerúsalem þá er hún einfaldlega stórbrotin í Tel Aviv og þar geta áhugamenn um mat fengið mikið fyrir sinn snúð, þótt dýr sé. Ráðlegt er að panta borð með góðum fyrirvara, jafnvel nokkurra vikna, því við rákum okkur á að nánast ógjörningur var að fá borð með skömmum fyrirvara á vinsælustu stöðunum. Það var talsverður ósigur og en þó verður að hafa í huga að það er lítil hætta á að enda á slæmum veitingastað í Tel Aviv.

Mannlífið er afar skemmtilegt í borginni og þegar okkur bar að garði á föstudegi sveif magnað partíandrúmsloft yfir vötnum. Sérstaklega í kringum Carmel-markaðinn sem var afar eftirminnilegur. Þá var ómissandi að eyða hluta úr degi í hinni fornu borg Jaffa, en þar er mikið af skemmtilegum litlum veitingastöðum og krám.

Upplifun fjölskyldunnar í þessari ferð var afar jákvæð. Ein helsta ástæða þess að fólk er tregt til þess að fara í frí til Ísrael er líklega sú að fólk óttast hreinlega um öryggi sitt nú eða þá að pólitískar ástæður ráða för. Hið síðarnefnda er að einhverju leyti skiljanlegt en áhyggjur af öryggi eru að mestu óþarfar. Vissulega verður fólk vart við vopnaða lögreglumenn víða í stærstu borgunum en aldrei upplifði fjölskyldan aðstæður þannig að öryggi hennar væri ógnað. Helsti gallinn á ferð til Ísrael er kostnaðurinn við mat, drykk og hótel. Með útsjónarsemi er þó hægt að komast vel frá því enda er hummusinn frekar ódýr og hann má alveg borða í öll mál.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Dauði Denise
Lífsstíll
Fyrir 6 dögum

Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið: Einstök innsýn í landbúnaðarsöguna og hágæða handverk úr héraði

Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið: Einstök innsýn í landbúnaðarsöguna og hágæða handverk úr héraði
Lífsstíll
Fyrir 6 dögum

Laxárbakki: Heillandi hvíldarstaður við hringveginn

Laxárbakki: Heillandi hvíldarstaður við hringveginn
Lífsstíll
Fyrir 1 viku

Burro: Suðrænn sælureitur

Burro: Suðrænn sælureitur
Lífsstíll
Fyrir 1 viku

Kaffihúsið Gilbakki á Hellissandi: Staðurinn til að tékka á á leið um Snæfellsnes

Kaffihúsið Gilbakki á Hellissandi: Staðurinn til að tékka á á leið um Snæfellsnes
Lífsstíll
Fyrir 2 vikum

Helga býður upp á heimagerðan mat og grillmat á tveimur stöðum á Snæfellsnesi

Helga býður upp á heimagerðan mat og grillmat á tveimur stöðum á Snæfellsnesi
Lífsstíll
Fyrir 2 vikum

Narfeyrarstofa: Framúrskarandi matur í fallegu umhverfi

Narfeyrarstofa: Framúrskarandi matur í fallegu umhverfi
Lífsstíll
Fyrir 2 vikum

Bragginn – Flottur staður í Nauthólsvík

Bragginn – Flottur staður í Nauthólsvík
Lífsstíll
Fyrir 2 vikum

Krydd er í hjarta Hafnarfjarðar: Humarsalat, grís í kleinuhring og fleiri snilldarverk

Krydd er í hjarta Hafnarfjarðar: Humarsalat, grís í kleinuhring og fleiri snilldarverk