fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
FókusKynning

Prófessor í svefnvísindum hefur miklar áhyggjur af svefnleysi fólks í dag

Svefninn er ótrúlega mikilvægur – Mörk vinnu og frítíma óljósari – Ekki tekið nógu alvarlega

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 28. september 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nútímamaðurinn sefur svo lítið nú til dags að helst mætti líkja því við faraldur. Til lengri tíma litið hefur svefnleysið víðtækar afleiðingar í för með sér og stefnir heilsu okkar í mikla hættu. Þetta er mat Matthew Walker, prófessors í svefnvísindum og forstöðumanns Centre for Human Sleep Science við University of California í Bandaríkjunum.

Ekki tekið nógu alvarlega

Walker lýsir þessum áhyggjum sínum í viðtali við breska blaðið Guardian og segir að svefnleysið sé útbreitt vandamál í nútímaþjóðfélagi. Þrátt fyrir það sé það ekki litið alvarlegum augum, hvorki af stjórnvöldum né vinnuveitendum, og þeir sem lýsi þreytu séu sjálfkrafa stimplaðir latir.

Walker segir að margt ýti undir það að fólk nú til dags sofi lítið; með netinu hafi vinna fólks í auknum mæli fylgt því heim og mörkin milli vinnu og frítíma orðið óljósari, farsímar og spjaldtölvur fylgja okkur jafnvel upp í rúm á meðan aðrir sofna út frá sjónvarpinu. Allt þetta gerir það að verkum að margir þjást af svefnskorti, en skilgreiningin á því er sjö tíma svefn eða minna á nóttu að jafnaði.

Svefnleysi og sjúkdómar

Í umfjöllun Guardian er bent á að rannsóknir hafi sýnt fram á tengsl svefnleysis við hina ýmsu sjúkdóma; allt frá krabbameinum, offitu, sykursýki og elliglöpum til verri geðheilsu. Til að draga þetta saman þá er svefnleysið að drepa okkur, að mati Walkers.

Walker segir að svefnleysi hafi mjög víðtæk áhrif á líkamann og í raun sé enginn angi hans, ef svo má segja, ónæmur fyrir afleiðingum svefnleysis. „Samt er enginn að gera neitt í þessu. Þessir þættir verða að breytast: í vinnunni, samfélaginu og á heimilinu okkar.“

„Það myndi enginn benda á nýfætt barn og segja: „Mikið er þessi krakki latur.“ Við vitum að börn þurfa svefn en síðan er eins og þessi viska skolist af fólki þegar það eldist.“
Svefn „Það myndi enginn benda á nýfætt barn og segja: „Mikið er þessi krakki latur.“ Við vitum að börn þurfa svefn en síðan er eins og þessi viska skolist af fólki þegar það eldist.“

Hefur séð öll sönnunargögn

Walker, sem er fæddur í Liverpool, bendir á í viðtalinu við Guardian að heilbrigðisyfirvöld þar í landi séu ekki að gera neitt. „Hvenær hefurðu séð plakat frá heilsugæslunni þar sem fólk er minnt á mikilvægi þess að sofa. Hvenær skrifaði læknir upp á, ekki svefnlyf, heldur svefn? Það þarf að forgangsraða í þessum málaflokki,“ segir hann.

„Það vill enginn fórna tíma með fjölskyldunni eða í einhverskonar afþreyingu svo fólk fórnar svefninum í staðinn.“

Sjálfur segist Walker taka svefn sinn mjög alvarlega því hann hafi séð öll sönnunargögn sem hann þarf að sjá. Hann leggi á það mjög mikla áherslu að fá alltaf átta tíma svefn enda sé það í raun spursmál um líf eða dauða að sofa nóg. Hann segir að ekki bara heilbrigðisyfirvöld þurfi að girða sig í brók heldur einnig almenningur.

„Það vill enginn fórna tíma með fjölskyldunni eða í einhverskonar afþreyingu svo fólk fórnar svefninum í staðinn,“ segir hann og bendir á að sumir hafi tilhneigingu til að gorta sig af því að þurfa að sofa lítið. Í umfjöllun Guardian er bent á að Margaret Thatcher og Ronald Reagan hafi aðeins sofið í nokkra klukkutíma á hverri nóttu. Bæði glímdu við minnishrörnunarsjúkdóma í ellinni.

Svefn tengdur við leti

„Við erum í auknum mæli farin að tengja svefn við leti. Við viljum virðast vera upptekin og ein leiðin til að sýna fram á það er að gorta sig af því hversu lítinn svefn við þurfum. Það er ákveðin viðurkenning fólgin í því. Þegar ég held fyrirlestra hef ég lent í því að sumir bíða þar til allir eru farnir og segja síðan við mig: „Ætli ég sé ekki einn af þeim sem þarf átta eða níu tíma svefn.“ Fólk skammast sín fyrir að segja þetta opinberlega. Fólk er sannfært um að það sé öðruvísi. Það myndi enginn benda á nýfætt barn og segja: „Mikið er þessi krakki latur.“ Við vitum að börn þurfa svefn en síðan er eins og þessi viska skolist af fólki þegar það eldist. Mannfólkið er eina dýrategundin sem sefur of lítið, af einhverjum ástæðum.“

Merki um svefnleysi

Merki þess að þú þjáist af svefnleysi geta meðal annars birst í síðdegissyfju. Það sé líka merki um svefnleysi, eða of lítinn svefn, að vilja sofa lengur þegar vekjaraklukkan hringir á morgnana. Fólk leiti jafnvel í koffín til að koma sér í gang. „Ég sé þetta á hverjum degi. Ég fer í flug klukkan 10 að morgni, á þeim tíma dagsins þegar fólk ætti að vera mjög vel vakandi. Þegar ég lít í kringum mig sé ég að helmingur farþeganna er sofnaður áður en vélin fer í loftið.“

Walker segir að þvert á það sem margir haldi fari mjög mikilvæg starfsemi fram í heilanum þegar við sofum. „Vísindamenn töldu eitt sinn að svefninn væri svipað því ástandi þegar einstaklingar fara í dá. Ekkert gæti verið fjarri sannleikanum. Það fer mjög mikilvæg gagnaúrvinnsla fram í heilanum þegar við sofum,“ segir hann og bætir við að líkaminn nái fullkominni slökun þegar við sofum sem aftur sé besta blóðþrýstingsmeðal sem til er.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum