Persónuleg þjónusta frá A til Ö

Athöfn útfararþjónusta

Mynd: Haraldur Jónasson Ljósmyndadeildin ehf.

Inger Steinsson er fyrsta konan sem fékk útfararleyfi á Íslandi en það var fyrir 19 árum. Í fyrstu starfaði hún hjá annarri útfararstofu við þessa viðkvæmu og vandasömu þjónustu en nokkrum árum síðar stofnaði hún ásamt eiginmanni sínum Athöfn útfararþjónustu. Eiginmaður Inger hefur nú látið af störfum vegna heilsubrests en dóttir hennar, Inger Rós, og elstu barnabörn hjálpa til þegar mikið liggur við. Þetta er því sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Inger hefur alltaf haft það að leiðarljósi að kenna sínum börnum að vera ekki hrædd við dauðann. Frá því að þau voru lítil hafa þau tekið þátt í umræðum um lífslokin og oftar en einu sinni setið í líkbílnum og ekkert fundið að því.

„Ég legg mikið upp úr persónulegri og vandaðri þjónustu. Ég held ég hafi verið sú fyrsta sem fór heim til aðstandenda til að skipuleggja útfarir. Fólki fannst notalegt að geta verið bara heima við og talað um þessi viðkvæmu mál. Ýmist heimsæki ég fólk eða býð því heim í stofuna til mín í kaffi. Fólk kann afar vel að meta þetta. Heimilið mitt er líka minn vinnustaður og yfirbyggingin lítil og gefur mér kost á að bjóða hagstæð kjör,“ segir Inger.


Þó að útfararstofan sé skráð í Hafnarfirði starfar Inger á öllu Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þjónusta hennar er hagstæð fyrir aðstandendur:

„Ég kappkosta að hafa allan kostnað uppi á borðinu og hér tíðkast engir bakreikningar. Útförin getur verið jafnfalleg þó að hún kosti minna. Fólk er líka ófeimið við að hringja í útfararstofur og bera saman kostnað. Ég tel mig bjóða hagstæð kjör en er ekki tilbúin að bjóða verð undir öllu velsæmi því ég þarf að lifa líka. En þegar fólk hefur samband legg ég þetta á borðið og það veit hvað hlutirnir kosta hjá mér.“

Sem fyrr segir kappkostar Inger að veita persónulega þjónustu: „Ég veiti persónulega þjónustu frá a til ö. Það þýðir að ég er með alla leið, ég sæki hinn látna, geng frá í kistu, hitti aðstandendur og er með í jarðarförinni. Það er enginn annar sem kemur að þessu,“ segir hún.

Nánari upplýsingar eru veittar um þjónustuna í símum 551-7080 og 691-0919 og í gegnum netfangið athofn@athofn.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.