FókusLífsstíll

Búa í skútu

Dario og Sabine hafa siglt um heiminn síðustu 17 árin

Indíana Ása Hreinsdóttir
Laugardaginn 12. ágúst 2017 15:00

„Afleiðingar loftslagsbreytinga eru stærsta verkefni sem mannkynið stendur frammi fyrir,“ segir Dario Schwoerer, svissneskur loftslagsfræðingur og skíða- og fjallaleiðsögumaður, sem býr í skútunni Pachamama ásamt fjölskyldu sinni. Dario og eiginkona hans, Sabine sem er hjúkrunarfræðingur, eru stödd á Akureyri þessa dagana auk barna sinna fimm en sjötta barnið er áætlað í heiminn á næstu dögum.

Jákvæðari með hverju árinu

Hjónin hafa siglt á skútunni um heiminn síðustu 17 árin og börnin þekkja ekkert annað heimili. Fjölskyldan ferðast um með það markmið að vekja athygli á loftslagsbreytingum, safna gögnum fyrir vísindamenn og klífa hæsta tind hverrar heimsálfu. Dario segist ekki svartsýnn um framtíð jarðarinnar. „Ég vinn við að leita uppi það jákvæða og fyrir vikið verð ég bjartsýnni með hverju árinu. Því miður fjalla fjölmiðlar einungis um það neikvæða, eins og Trump og stríð, en þegar maður hugsar út í það þá er margt jákvætt að gerast. Það er til dæmis ótrúlegt að jörðin sé ennþá svona falleg. Loftslagsbreytingar þurfa ekki að vera svo slæmar fyrir Íslendinga. Hér verður hlýrra svo kannski verða hér pálmatré í framtíðinni, hver veit?“ segir hann brosandi en bætir svo alvarlegri við: „Við verðum öll að leggjast á eitt við að leysa þetta verkefni. Breytingar þurfa ekki að vera af hinu neikvæða. Þetta er tækifæri fyrir okkur til að vinna saman, þvert á landamæri.“

Fjölskyldan býr í 20 fermetra skútu en auk þess búa tveir kennarar barnanna um borð.
Sjötta barnið á leiðinni Fjölskyldan býr í 20 fermetra skútu en auk þess búa tveir kennarar barnanna um borð.

Notalegar móttökur

Dario hefur haldið fyrirlestra fyrir yfir 100 þúsund manns í skólum víðs vegar um heiminn þar sem hann hvetur ungmenni til að gera sitt til bjargar plánetunni okkar. Fjölskyldan hefur komið til yfir 100 landa en Dario segir móttökurnar hafa verið afar notalegar á Íslandi. „Fyrsti staðurinn sem við heimsóttum hér á landi var Vestmannaeyjar, Heimaey, en við komum að bryggju um fjögur leytið um morguninn. Lögreglumaðurinn sem tékkaði okkur inn í landið bauð okkur í útsýnistúr um eyjuna á lögreglubílnum. Það var virkilega hlýlegt. Að sama skapi bauð læknirinn hér á Akureyri, sem skoðaði Sabine, okkur að tjalda í garðinum hjá sér. Okkur líkar mjög vel við landið og götuljósin hér á Akureyri hafa heillað okkur. Við höfum hvergi annars staðar séð hjartalaga götuljós.“

„Náttúran er okkar stofa; sjóndeildarhringurinn og himininn“

Alltaf saman

Skúta fjölskyldunnar er aðeins 20 fermetrar og um borð eru einnig tveir kennarar sem kenna krökkunum. „Um tíma ferðaðist önnur fjölskylda með okkur. Þá vorum við alls tólf talsins og reiknuðum út að hver manneskja hefði 1,8 fermetra. Samt fannst okkur ekkert þröngt. Báturinn er í raun bara staður til að elda, sofa og læra. Náttúran er okkar stofa; sjóndeildarhringurinn og himininn. Börnin ólust upp án sjónvarps og tölvu og fjölskyldan ver 24 tímum á dag saman. Auðvitað rífast börnin stundum en hjá okkur fara allir sáttir að sofa því það gæti alltaf komið stormur um nóttina og þá vilja allir vera sáttir.“

Systkinin fæddust hvert í sinni heimsálfunni.
Systkini Systkinin fæddust hvert í sinni heimsálfunni.

Ólík eins og heimsálfurnar

Hann viðurkennir að margir hafi sett spurningarmerki við lífsstíl þeirra. „Sérstaklega í upphafi. Fólkið okkar skyldi ekki hvað við vorum að gera og töldu víst að við kæmum til baka eftir tvo mánuði. Við vorum alls ekki viss um hvað við myndum gera þegar elsta barnið okkar fæddist, en hér erum við ennþá. Elsta dóttirin er að hugsa um að fara í land fljótlega til að fara í skóla. Okkar markmið er ekki að hafa börnin hjá okkur til þrítugs heldur að þau verði sjálfstæð og hamingjusöm,“ segir hann og bætir við að börnin séu jafn ólík og heimsálfurnar sem þau fæddust í. „En þau elska öll náttúruna og upplifa sig sem hluta af henni.“

Minna er meira

Hann segist ekki sakna gamla lífsins. „Vissulega væri gott að komast oftar í heita sturtu en fyrir mig er minna meira. Vegna plássleysis um borð þurfum við að losa okkur við allt drasl og það er mjög gott fyrir sálina. Mikið af dóti gerir lífið flóknara. Sumir vilja eiga marga bíla og þurfa að vinna mikið til að borga af þeim. Fyrir okkur er tíminn með fjölskyldunni mikilvægastur; að búa til góðar minningar sem endast að eilífu.“
Hægt er að fræðast meira um leiðangurinn á vefsíðunni toptotop.org.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Lífsstíll
Fyrir 5 dögum

Samgönguminjasafnið í Stóragerði: Minjar um samgöngusögu Íslendinga varðveittar

Samgönguminjasafnið í Stóragerði: Minjar um samgöngusögu Íslendinga varðveittar
Lífsstíll
Fyrir 5 dögum

Viðhald og klæðning ehf: Alhliða viðhaldsþjónusta bygginga

Viðhald og klæðning ehf: Alhliða viðhaldsþjónusta bygginga
Lífsstíll
Fyrir 5 dögum

Skemmtilegu, klassísku tómstundaborðin sem henta vel i sumarbústaðinn og inn á hvert heimili

Pingpong.is

Skemmtilegu, klassísku tómstundaborðin sem henta vel i sumarbústaðinn og inn á hvert heimili
Lífsstíll
Fyrir 6 dögum

Gæðingur: Ölbrugghús sem býður upp á spennandi bjór með karakter

Gæðingur: Ölbrugghús sem býður upp á spennandi bjór með karakter
Lífsstíll
Fyrir 6 dögum

Kaffi Krókur og Ólafshús lifa góðu lífi á KK Restaurant

Kaffi Krókur og Ólafshús lifa góðu lífi á KK Restaurant
Lífsstíll
Fyrir 11 dögum

KIDKA – Næstum hálf öld af prjónaskap: Svona er peysan þín búin til

KIDKA – Næstum hálf öld af prjónaskap: Svona er peysan þín búin til
Lífsstíll
Fyrir 12 dögum

Hlaðan: Heimilislegt og hlýlegt kaffi- og veitingahús

Hlaðan: Heimilislegt og hlýlegt kaffi- og veitingahús