FókusLífsstíll

Bókmenntafræðingur skrifar matreiðslubók

Heimiliskokkurinn Jón Yngvi komst í vanda þegar dætur hans gerðust grænmetisætur

Kolbrún Bergþórsdóttir
Fimmtudaginn 11. maí 2017 11:15

Hjálp, barnið mitt er grænmetisæta! er fyrsta matreiðslubók bókmenntafræðingsins og lektorsins Jóns Yngva Jóhannssonar. Bókin geymir uppskriftir að fjölmörgum grænmetisréttum.

Spurður af hverju hann hafi ákveðið að skrifa matreiðslubók þar sem öll áherslan er á grænmetisrétti, segir Jón Yngvi: „Ég á þrjár dætur og fyrir nokkrum árum hætti sú elsta að borða kjöt og yngri systurnar fylgdu smám saman í kjölfarið. Nú eru þær allar grænmetisætur. Þar sem ég er heimiliskokkurinn var ég kominn í vanda. Frá því við hjónin byrjuðum að búa höfum við lagt mikla áherslu á að halda í þá venju að kvöldmatur sé klukkan sjö og þá setjist fólk niður og tali saman. Ég vildi ekki fórna þessum sið og að elda mismunandi rétti fyrir heimilisfólkið útheimtir bara vesen. Lausnin var sú að elda grænmeti fyrir alla. Þannig breyttist mataræði og matarvenjur fjölskyldunnar. Við borðum grænmeti en ef stelpurnar eru ekki heima stekk ég kannski út í fiskbúð. Ég sakna fisks miklu meira en kjöts sem ég sakna nánast ekki neitt. Ég held að þegar börnin flytja að heiman þá muni ég borða miklu meiri fisk en ég geri núna.“

Unga fólkið hefur rétt fyrir sér

Jón Yngvi segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á matargerð. „Ætli hugmyndin að skrifa matreiðslubók sé ekki orðin næstum því tuttugu ára gömul. Á tímabili ætlaði ég að stæla danska bók sem ég eignaðist 1999 og heitir Kogebog for fattigrøve (Matreiðslubók fyrir blanka). Ég var lengi vel blankur námsmaður þannig að ég var búinn að koma mér upp alls kyns ráðum og aðferðum við að spara peninga. Það eimir svolítið eftir af því í bókinni, að megninu til samanstanda uppskriftirnar í bókinni af mjög ódýrum mat.

Ég held að það sé þörf á bók eins og þessari. Ég tók eftir því að í kringum stelpurnar mínar var annað ungt fólk sem var líka að taka þá ákvörðun að hætta að borða fisk og kjöt eða minnka það verulega við sig. Þetta unga fólk hefur alveg rétt fyrir sér. Börnin okkar eru miklu skynsamari en við vorum á þeirra aldri. Það eru hins vegar ekki allir foreldrar tilbúnir til að nördast jafn mikið í eldhúsinu og ég. Foreldrar taka því alla vega þegar börn þeirra hætta að borða fisk og kjöt. Sumir reyna að halda fiski og kjöti að börnum, aðrir segja: þá geturðu bara eldað sjálf(ur) og sumir gefast upp og kaupa mikið tilbúna rétti. Ég sá að þarna var fólk sem vantaði bók eins og þessa og mér heyrist á viðbrögðunum að svo sé.“

Bók með umhverfisvinkil

Spurður hvort hann eigi sér uppáhaldsuppskrift í bókinni segir Jón Yngvi: „Ég nota ekki mikið af kjötlíki í mat. Eina undantekningin er íslenska framleiðslan, bulsur, sem ég nota á sérstakan hátt. Í bókinni er uppskrift að rétti sem ég kalla baella og í henni eru bulsur. Þetta er frábær matur. Ef ég væri með fólk í mat þá myndi ég alveg hikstalaust bjóða upp á baellu. Kosturinn við þessa uppskrift er líka sá að maður getur búið hana til alla úr hráefni sem vex í 100 kílómetra radíus frá Reykjavík.

Það er umhverfisvinkill á bókinni. Fólk á ekki stöðugt að borða mat sem losar mikið af kolefni og þar er kjöt versti kosturinn. Það er heldur ekki gott að vera alltaf að borða grænmeti sem er flutt yfir hálfan hnöttinn með tilheyrandi bensín- og olíueyðslu.“

Greinar og samstarfsverkefni

Þar sem Jón Yngvi er afkastamikill fræðimaður er ekki hægt að kveðja hann án þess að forvitnast um það hvað hann sé að gera á fræðasviðinu: „Nýlega flutti ég fyrirlestur á Höfn í Hornafirði um Aðventu og Sjálfstætt fólk. Ég er að skrifa greinar um þessar tvær bækur sem snúast reyndar líka um umhverfismál og það hvernig þessar bækur lýsa samskiptum manns og náttúru og manninum í náttúrunni. Ég er líka í stóru samstarfsverkefni sem snýst um rannsókn á íslensku sem kennslutungu. Annað samstarfsverkefni er norrænt verkefni um norræna bókmenntasögu. Þar er verið að búa til rannsóknarhóp fólks frá öllum Norðurlöndunum sem hefur áhuga á bókmenntasögu. Ætlunin er að skrifa greinasafn sem fjallar um ólíkar nálganir á bókmenntasögu.“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Lífsstíll
Fyrir 5 dögum

Samgönguminjasafnið í Stóragerði: Minjar um samgöngusögu Íslendinga varðveittar

Samgönguminjasafnið í Stóragerði: Minjar um samgöngusögu Íslendinga varðveittar
Lífsstíll
Fyrir 5 dögum

Viðhald og klæðning ehf: Alhliða viðhaldsþjónusta bygginga

Viðhald og klæðning ehf: Alhliða viðhaldsþjónusta bygginga
Lífsstíll
Fyrir 5 dögum

Skemmtilegu, klassísku tómstundaborðin sem henta vel i sumarbústaðinn og inn á hvert heimili

Pingpong.is

Skemmtilegu, klassísku tómstundaborðin sem henta vel i sumarbústaðinn og inn á hvert heimili
Lífsstíll
Fyrir 6 dögum

Gæðingur: Ölbrugghús sem býður upp á spennandi bjór með karakter

Gæðingur: Ölbrugghús sem býður upp á spennandi bjór með karakter
Lífsstíll
Fyrir 6 dögum

Kaffi Krókur og Ólafshús lifa góðu lífi á KK Restaurant

Kaffi Krókur og Ólafshús lifa góðu lífi á KK Restaurant
Lífsstíll
Fyrir 11 dögum

KIDKA – Næstum hálf öld af prjónaskap: Svona er peysan þín búin til

KIDKA – Næstum hálf öld af prjónaskap: Svona er peysan þín búin til
Lífsstíll
Fyrir 12 dögum

Hlaðan: Heimilislegt og hlýlegt kaffi- og veitingahús

Hlaðan: Heimilislegt og hlýlegt kaffi- og veitingahús