Vinsælt lyf sagt auka líkur á krabbameini

Mynd: 123rf.com

Vísindamenn við Syddansk Universitet í Óðinsvéum í Danmörku hafa komist að því að vinsælt lyf auki líkur á krabbameini til muna.

Um er að ræða lyfið Hydrochlorothiazide sem oft er gefið einstaklingum með of háan blóðþrýsting. Þetta kemur fram í danska blaðinu Politiken en niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Journal of the American Academy of Dermatology.

Lyfið er sagt auka líkur á húðkrabbameini til muna. Anton Pottegård, aðstoðarprófessor við Syddansk Universitet, segir að rekja megi 250 tilfelli húðkrabbameina á ári hverju til þessa lyfs.

Rannsóknin var mjög umfangsmikil og náði hún til 80 þúsund Dana sem á einhverjum tímapunkti hafa greinst með húðkrabbamein. Niðurstöðurnar gáfu til kynna að eftir því sem fólk notaði lyfið lengur, þeim mun meiri var hættan á húðkrabbameini. Er hættan allt að sjö sinnum meiri hjá þeim sem nota lyfið og þeim sem nota það ekki.

En það eru ekki allar tegundir húðkrabbameina sem notkun á lyfinu er sögð tengjast. Þannig virðist notkunin aðeins auka hættuna á svokölluðu flöguþekjukrabbameini, en 2.500 Danir greinast með slíkt húðkrabbamein á ári hverju. Samkvæmt niðurstöðunum væri hægt að koma í veg fyrir tíunda hvert tilfelli með því að hætta notkun á lyfinu.

„Þetta er áhyggjuefni. Við rannsökuðum aðra vinsæla lyfjaflokka og fundum engin tengsl,“ segir Anton Pottegård við Politiken.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.