Gallery Pizza byggir á gömlum grunni: „Þetta eru alvörupizzur“

Gallery Pizza, Hvolsvegi 29, Hvolsvelli

Gallery Pizza er gamalgróinn veitingastaður í hjarta Hvolsvallar, stofnaður upp úr 1990, af þeim Þorsteini Jónssyni og Ingólfi Ingólfssyni. Núverandi eigendur staðarins, hjónin Sigurður B. Guðmundsson og Jaroon Nuamnui, keyptu reksturinn árið 2012 og hafa kappkostað að halda í þær venjur sem fært hafa staðnum vinsældir í gegnum tíðina, ásamt því að byggja hann upp og þróa áfram.

„Hér eru margir fastir viðskiptavinir, t.d. fólk úr sveitinni, og heimamenn eru afskaplega duglegir að stunda þennan stað. Þess vegna hefur verið hægt að hafa hann opinn allt árið um kring í gegnum árin. Erlendir ferðamenn eru síðan mikil viðbót. En fólk kann vel að meta að hér sé haldið í hefðirnar sem sköpuðust fyrstu árin, sem lýsir sér meðal annars í kjörorðinu „matarmikið og vel útilátið“. Svona í bændastíl,“ segir Sigurður B. Guðmundsson, en Gallery Pizza er þekktur fyrir í senn fjölbreyttan, vel útilátinn og bragðgóðan mat.

Annar eigandinn, Jaroon Nuamnui frá Sukhothai í Taílandi, sker pizzurnar.
Annar eigandinn, Jaroon Nuamnui frá Sukhothai í Taílandi, sker pizzurnar.

„En um leið og við höldum í hefðirnar þá byggjum við líka upp og mætum aukinni aðsókn sem hefur verið undanfarin ár enda mikil uppbygging og gróska í héraðinu sem við njótum góðs af. Til dæmis byggðum við hér huggulega útiaðstöðu sem er mikið notuð á sumrin,“ segir Sigurður.

Á Gallery Pizza eru yfir 20 tegundir af pizzum í boði. „Síðan velur fólk sér líka oft það sem það vill á sína pizzu og setur hana þannig saman sjálft. En það má nefna til sögunnar þrjár pizzur sem hafa notið gífurlegra vinsælda í gegnum tíðina og heita allar dálítið sérstökum nöfnum. Ein sú frægasta er Hraun – Lava, sem er afskaplega vinsæl, en á henni er pepperóní, sveppir, hvítlaukur, jalapeno, rjómaostur og grænar ólífur. Gallery Djúsí er önnur fræg, hún er með pepperóní, sveppum, lauk, ananas og piparosti. Síðan er hér fornfræg pizza sem heitir Fjallamjólk og er mjög vinsæl í sveitinni. Hún er með pepperóní, ananas, beikoni og chili-kryddi. Sjávarréttapizzan er líka afar vinsæl,“ segir Sigurður.
Pizzurnar á Gallery Pizza hafa sín sérkenni sem finnast ekki annars staðar: „Þetta eru alvörupizzur. Við gerum allt frá grunni og samkvæmt uppskriftunum sem voru hér í upphafi. Botninn er milliþykkur og eins og karlarnir segja oft þegar þeir hringja og panta: „Hafðu þetta vel útilátið á köntunum.“ Pizzurnar okkar eru bragðmiklar og matarmiklar og Jaroon handsker allt grænmetið til að ferskleikinn haldi sér sem best.“

Margvíslegir aðrir réttir eru á boðstólum hjá Gallery Pizza, til dæmis kjúklingasalat, sjávarréttasalat, hamborgarar, lambakótelettur og sub-samlokur. Þá eru fiskréttir vinsælir á staðnum. Í hádeginu á virkum dögum eru alltaf tilboð og en fast hádegisverðartilboð á föstudögum er pizza-hlaðborð á 1.600 krónur.
„Það er líf og fjör í hádeginu hér á föstudögum. Hér hittist margt fólk úr sveitinni, bændur og hestamenn, því hér eru hestabúgarðar í kring. Stemningin er afskapleg góð. Einnig er vinsælt hjá hópum að hringja, panta sér pizza-hlaðborð og koma hér saman,“ segir Sigurður.

Út veitingasalnum: Húsið reis í fyrstu götu bæjarins og var rafmagnsverkstæði Kaupfélags Rangæinga. Veitingastaðurinn hefur verið þarna frá því upp úr 1990.
Út veitingasalnum: Húsið reis í fyrstu götu bæjarins og var rafmagnsverkstæði Kaupfélags Rangæinga. Veitingastaðurinn hefur verið þarna frá því upp úr 1990.

Það er mikið að gera á Gallery Pizza allan ársins hring en á vorin mætti segja að allt verði brjálað að gera. „Þetta er mikil vertíð sem verður þá en bara gaman. Við njótum líka góðs af áratuga farsælli rekstrarsögu og margt fólk á ferðalögum, t.d. þeir sem eru á leiðinni til Eyja, Víkur eða Hafnar koma alltaf við hér og fá sér í svanginn. Það eru svo margir sem hafa haldið tryggð við staðinn í gegnum tíðina.“

Sigurður viðurkennir að það sé mikil vinna að halda svo vinsælum veitingastað gangandi en mikilvægt sé að sýna þessu alúð. „Ég og konan mín, Jaroon, vinnum hér langa daga og svo erum við með tvo fasta starfsmenn. Á næstunni bætist síðan sonur okkar, Guðmundur Borgar Sigurðsson, í hópinn.“

Þess má geta að veitingastaðurinn Gallery Pizza er kominn í jólaskap og þess vegna verður 20 prósenta afsláttur af öllum veitingum á staðnum í desember. „Með þessu langar okkur til að þakka okkar traustu viðskiptavinum fyrir frábæra aðsókn á árinu sem er að líða um leið og við bjóðum nýja gesti velkomna. Þetta er kjörinn áningarstaður fyrir þá sem eiga ferð um Suðurland,“ segir Sigurður að lokum.

Annar eigandinn, Jaroon Nuamnui frá Sukhothai í Taílandi, sker pizzurnar.
Út veitingasalnum: Húsið reis í fyrstu götu bæjarins og var rafmagnsverkstæði Kaupfélags Rangæinga. Veitingastaðurinn hefur verið þarna frá því upp úr 1990.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.