Langir dagar hjá Jökulfelli

Vegagerð, strengjalagning og jarðvinna fyrir byggingar

Haukur Gíslason, eigandi verktakafyrirtækisins Jökulfell, er önnum kafinn maður og var bara laus í spjall að kvöldlagi fyrir þennan greinarstúf. En þegar það símaspjall átti sér stað, á níunda tímanum, var hann samt enn í vinnunni og vélardynur ómaði í bakgrunninum á meðan símtalið átti sér stað:

„Þetta geta orðið dálítið langir dagar. Ég er núna í hringveginum yfir Hornafjarðarfljót, fyrsti áfangi, og þetta er nokkuð stórt verk, við erum með ein 10-12 tæki hér, búkollur, gröfur og jarðýtur,“ segir Haukur, en hinar svokölluðu búkollur eru liðstýrðir trukkar frá Volvo. Volvo er einmitt einna mest áberandi merkið í tækjaflota Jökulfells en ýmsir fleiri þekktir framleiðendur koma þar líka við sögu. Jökulfell hefur byggt upp glæsilegan flota af þungum vinnuvélum, trukkum, gröfum og jarðýtum.

Haukur Gíslason er frá Svínafelli rétt hjá Höfn í Hornafirði en starfsemi Jökulfells teygir sig hins vegar um allt land, meðal annars til Vestmannaeyja og á Austfirðina. Verktakastarfsemi Jökulfells snýst um vegagerð fyrir Vegagerð ríkisins, strenglagningu fyrir Landsnet og alhliða jarðvinnu fyrir byggingar, meðal annars að grafa og sprengja fyrir húsum:

„Sveitarfélagið á Hornafirði er einn af mínum samstarfsaðilum en við höfum líka komið að vinnu fyrir undirbúning ýmissa stórra bygginga hjá einkaaðilum. Yfirleitt eru þetta stór verkefni þó að við séum raunar til í hvað sem er. En óneitanlega hefur maður gírað sig upp fyrir stærri verkefnin með allan þann tækjakost sem ég hef yfir að ráða,“ segir Haukur.

Rekstarkostnaðurinn liggur fyrst og fremst í hinum glæsilega tækjakosti en óhætt er að segja að lítil yfirbygging sé á fyrirtækinu. Eigandinn er á kafi í vinnunni sjálfur, lítið fer fyrir skrifstofuhaldi og vefsíðu er til dæmis ekki til að dreifa. Starfsmenn eru ekki margir en fjöldi ársverka er óreglulegur. Umfang og stærð fyrirtækisins kemur helst fram í þeim mikla og stóra tækjakosti sem nota þarf við verkefnin. Hefur Jökulfell vaxið mikið að umfangi og veltu undanfarin ár en fyrirtækið var stofnað árið 2005.

Nánari upplýsingar veitir Haukur Gíslason í síma 777 7007.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.