Þess vegna áttu að eyða eins miklum tíma og þú getur með foreldrum þínum

Við þurfum að sinna vinnunni, börnunum, heimilinu, vinum og áhugamálum en stundum eru foreldrar okkar látnir mæta afgangi. Það getur þó skipt sköpum fyrir foreldra þína að þú umgangist þá eins mikið og þú getur.

Þetta má lesa út úr niðurstöðum rannsóknar sem University of California framkvæmdi fyrir skemmstu. Markmiðið var að varpa ljósi á þau áhrif sem félagsleg einangrun hefur á fólk sem komið er á eldri ár.

Meðalaldur þátttakenda í rannsókninni var 71 ár, en alls tóku 1.604 einstaklingar þátt. Niðurstöðurnar sýndu að 43 prósent kvenna viðurkenndu að upplifa einmanaleika og aðeins 14 prósent allra þátttakenda sögðust eiga í góðu og mjög reglulegu sambandi við einhverja aðra manneskju.

Rannsóknin stóð yfir í nokkur ár, en sex árum eftir að hún hófst voru 23 prósent þátttakenda látnir. Niðurstöðurnar sýndu að þeir sem kvörtuðu undan einmanaleika voru líklegri en aðrir til að deyja fyrir aldur fram. Renndu niðurstöðurnar stoðum undir þá kenningu að einmanaleiki sé áhættuþáttur fyrir ýmsa sjúkdóma.

Rosemary Blieszner, prófessor við Virgina Tech, segir í samtali við New York Times að heilt yfir leggi eldra fólk frekar áherslu á að efla tengsl við skyldmenni sín, börn og barnabörn til dæmis, en að mynda ný vinasambönd. Og þar sem einmanaleiki er áhættuþáttur þegar kemur að ótímabærum dauðsföllum sé mikilvægt að verja meiri tíma með öldruðum foreldrum okkar eða ömmum og öfum.

Í niðurstöðunum er einnig lagt til að fylgjast eigi betur með eldra fólki og hugsanlegri félagslegri einangrun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.