fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
FókusKynning

Sæunn mætir í ræktina í kortér og forðast að svitna

Smáskoranir í stað áskorana

Ritstjórn DV
Laugardaginn 17. september 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Eldmóður minn í hollustunni sprettur því miður ekki upp af göfugum grunni því það var megrunarþrá sem leiddi mig af stað í gramsrannsóknir á næringu og hreyfingu,“ segir Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir, en hún rekur vinsælan heilsueflingarvef, www.hugmyndiradhollustu.is.

Sæunn er fjögurra unglinga móðir í Hafnarfirðinum. Hún segist hafa lært og reynt ýmislegt í gegnum tíðina en endaði á að ljúka námi í viðskiptum, fjármálum og verðbréfamiðlun í miðju hruni. „Í kjölfarið endaði ég í heilsubransanum – eða heilsubransinn fann mig, ég veit ekki hvort á betur við. Núna starfa ég sem markaðsstjóri Gló og nýti krafta mína þar til að gera heiminn, eða allavega nærumhverfið, örlítið betra frá degi til dags.“

Eftir ótal misheppnaðar og misróttækar leiðir til að meitla líkama sinn í mót glansímyndanna var líkamleg heilsa Sæunnar farin að þróast í vafasamar áttir. „Ég vaknaði einfaldlega einn daginn með nýja hugsjón. Það var annaðhvort að endurheimta heilbrigði mitt og vellíðan eða missa heilsuna til einskis. Upp frá því endurhugsaði ég þá þekkingu sem ég hafði aflað mér og leitast stöðugt við að dæla í mig nýjum fróðleik. Hugsaðu þér ef allir væru sáttir við líkama sinn og hugsuðu um það eitt að næra sig sem best. Ef enginn leiddi hugann nokkurn tíma að megrun eða útlitskomplexum. Hversu miklu gætum við þá áorkað?“ Sæunn trúir því að ef hamingja fólks eykst þá dragi úr öllu því vonda í heiminum.

Gera minna, duga lengur

Eflaust hafa margir lesendur gert misárangursríkar tilraunir til að taka upp hollari hætti. Hvers vegna skyldi svona mörgum mistakast?

„Ótrúlega margt getur orðið okkur að falli, til dæmis of miklar væntingar. Ég hafði tilhneigingu til að ofmeta hversu miklu hægt er að áorka á skömmum tíma en vanmeta langtímaárangur af staðföstum og góðum venjum. Fæstir komast í fitnessform á þremur mánuðum, alveg sama hvað forsíður tímaritanna segja, en öll getum við bætt þol okkar eða aukið styrk og liðleika jafnt og þétt ár eftir ár.“

Oft byrjaði Sæunn með látum í ræktinni, en fór fljótlega af sporinu. „Ég velti stundum fyrir mér hvernig staðan væri í dag ef ég hefði bara gert fjórfalt minna en haldið mig við efnið. Það sama gildir um mataræði, við þurfum ekki að hætta að borða sykur og glúten og alla mögulega hluti á einu bretti, en ef við bætum matarvenjurnar í smáum skrefum, jafnt og þétt, skilar það okkur ótrúlega mikilli breytingu áður en langt um líður. Líf mitt hefur umbylst á síðustu árum í svo mörgu tilliti en það gerðist allt án þess að ég hefði sérstaklega fyrir því eða jafnvel tæki eftir því.“

Litlu hlutirnir skipta máli

Með þetta að leiðarljósi datt Sæunni í hug ný nálgun á lífsstílsbreytingar. Smáskoranir í stað áskorana! Svona útskýrir hún fyrirbærið:
„Smáskorun er einföld leið til að ná fram jákvæðum breytingum í lífi sínu með skipulögðum og markvissum hætti án þess að eiga á hættu að springa á limminu innan fárra daga eða vikna.“

Innblásturinn kom annars vegar frá vegan-dragdrottningunni Honey LaBronx og hins vegar frá zen-meistaranum Leo Babauta. Honey skoraði á fylgjendur sína að bæta einhverju uppbyggjandi inn í daglega rútínu sína í 30 daga, og Leo hefur talað fyrir því að innleiða góðar venjur í smáskömmtum. „Áskorun mín varð því að smáskorun og nú mæti ég í ræktina í kortér á dag og passa að reyna svo lítið á mig að ég svitni ekki einu sinni. Ég hef enga góða afsökun fyrir því að standa ekki við það!“

Svona gerum við!

Sæunn notaði sína eigin reynslu til að setja upp nokkrar grunnreglur smáskorana:

  • Þú ætlar að BÆTA VIÐ nýrri venju í daglegt líf þitt.

  • Þú velur venju sem mundi bæta líðan þína eða heilsu á einhvern hátt, líkamlega eða andlega.

  • Þú ætlar að hafa nýju hegðunina það litla að það væri kjánalegt að fylgja henni ekki eftir alla dagana.

  • Þú ætlar ekki að fara fram úr þér með því að auka, lengja eða bæta við það sem þú hefur valið þér.

  • Að öðru leyti ætlarðu ekki að breyta neinu og þú setur þér ekki markmið um að hætta neinu.

Að 30 dögum liðnum eru líkur á að nýja venjan verði orðin að mjög fyrirhafnarlítilli athöfn sem er sjálfsagður hluti af deginum og það er hugsanlegt að ósjálfrátt hafi dregið úr annarri og óæskilegri hegðun. Dæmi um sniðugar smáskoranir sem ég hef frétt af eru einnar mínútu planki á hverjum degi, 10 mínútna lestur annars en skólabóka, og að fara 10 mínútum fyrr að sofa. Möguleikarnir eru óendanlegir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum