fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
FókusKynning

Keypti sláttuvél fyrir fermingarpeninginn

Ungur athafnamaður á Seltjarnarnesi

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 8. júní 2016 12:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birgir Jóhannes Jónsson er fimmtán ára athafnamaður af Seltjarnarnesi sem samhliða tölvuleikjagerð og garðslætti stundar píanónám og æfir frjálsar íþróttir. Í sumar er mikið að gera hjá Birgi við að slá garða nágranna sinna en eftirspurnin eftir sláttuþjónustu Birgis er þvílík að hann íhugar að ráða vini sína í vinnu.

Fyrir nokkrum vikum stofnaði Birgir Facebook-síðu þar sem hann auglýsir garðslátt á Seltjarnarnesi. Á síðunni geta viðskiptavinir kynnt sér þjónustuna, bókað slátt og jafnvel skráð sig í áskrift yfir sumarið. En hvernig varð þessi rekstur til?

„Ég hafði verið að hugsa um þetta lengi en það hentaði mér mjög vel að láta slag standa núna. Ég hef reynslu af því að slá garðinn hjá ömmu og afa, og þau hafa kennt mér hvernig maður eigi að hugsa rétt um garða. Það er mikilvægt að kunna til verka og slá rétt. Svo hefur verið meira en nóg að gera hjá mér þannig að þetta var greinilega ekki svo galin hugmynd,“ segir Birgir og brosir sínu blíðasta um leið og hann tekur fram að slátturinn hafi gríðarlega róandi áhrif á hann.

„Ég hef svo gaman af því að vera úti og þó svo að slátturinn geti verið erfiður þá finnst mér þetta mjög róandi. Mér hefur alltaf þótt gaman að slá og því tilvalið að nýta þetta til þess að búa til sumarvinnu.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

En Birgir hefur í nægu að snúast því samhliða garðslætti og námi í Hagaskóla rekur hann einnig fyrirtækið Birgirgames sem sem hefur sett tvo tölvuleiki í Appstore. Þá er Birgir Íslandsmeistari í þríþraut og æfir frjálsar íþróttir auk þess sem hann lauk nýlega við 4. stig í píanóleik. Hvernig hefur hann tíma í þetta allt?

„Það þarf mikið skipulag í kringum svona rekstur og ég reyni eftir fremsta megni að skipuleggja tíma minn vel. Varðandi sláttinn skiptir miklu máli að hafa allan sláttubúnaðinn á sama stað, og ekki reyna að geyma pantanir í kollinum heldur skrifa þær niður svo ég gleymi engu.“

Fékk aðstoð við verðsamanburð

Síðastliðið vor fermdist Birgir og ákvað hann að nýta fermingarpeningana til þess að kaupa sér almennilega sláttuvél. Nokkuð sem hlýtur að teljast frekar óvenjuleg ráðstöfun fjár hjá dreng á þessum aldri.

„Ég keypti glænýja sláttuvél fyrir fermingarpeninginn minn og fór í margar búðir til þess að velja þá vél sem getur farið í gegnum hvaða gras sem er. Afi minn, sem er garðyrkjufræðingur, hjálpaði mér að gera verðsamanburð og velja réttu vélina. Ég er mjög ánægður með hana og hún er mjö góð. Hún er ótrúlega öflug, getur keyrt sjálf í sjálfdrifi og svo er hún með afar stóran safnpoka sem nýtist mjög vel og sparar mér tíma.“

Það má því segja að fermingarpeningarnir hans Birgis séu farnir að ávaxtast vel því sláttuvélin hefur verið í stanslausri notkun síðan hann festi kaup á henni.

„Það er búið að vera svakalega mikið að gera hjá mér og ég er kominn með marga garða í áskrift. Samt veit ég af öðrum strák sem er líka að bjóða upp á garðslátt hérna á Seltjarnarnesi, en ég veit ekkert um hann annað en að hann er líka að verða fullbókaður í sumar. Samkeppnin er því ekki mikil enda eftirspurnin alveg næg.“

Metnaðurinn skín úr augum Birgis og það er forvitnilegt að vita hvert þessi duglegi unglingur stefnir í framtíðinni.

„Ég veit það ekki, hef ekki hugsað út í það. Næsta sumar fæ ég mögulega vini mína til þess að hjálpa mér við sláttinn og svo kaupi ég kannski aðra vél. Ég er ekki búinn að ákveða hvað mig langar til þess að verða þegar ég verð stór en mögulega verð ég forritari. Svo heillar það mig að vera uppfinningamaður því ég er með margar hugmyndir að uppfinningum sem mig langar til að framkvæma. Kannski held ég bara áfram með garðsláttinn, það kemur svo margt til greina að við verðum bara að sjá hvað tíminn leiðir í ljós.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum