fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
FókusKynning

Ógleði og uppköst á meðgöngu

Nokkur góð ráð

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 10. desember 2016 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ógleði og uppköst eru alvanaleg fyrripart meðgöngu. Ógleðin og uppköstin geta þó verið afar mismunandi. Sumar konur finna bara fyrir smávægilegri velgju hluta úr degi og kasta sjaldan upp, eða jafnvel ekkert, en aðrar eru undirlagðar af ógleði og uppköstum. Langflestar konur losna við ógleðina og uppköstin eftir þrjá mánuði og aðeins örfáar finna fyrir þessu eftir 4–5 mánuði.

Hvers vegna kastar þú upp?
Ekki hefur enn með óyggjandi hætti tekist að komast að ástæðu ógleðinnar og uppkastanna. Böndin berast þó að hormónabreytingum eða ójafnvægi á blóðsykrinum. Aðrar ástæður sem koma til greina eru streita og ofreynsla.

Geta ógleðin og uppköstin verið hættuleg?
Ef þú kastar svo mikið upp að þú tapar of miklum vökva, söltum og næringu getur það verið skaðlegt fyrir þig og fóstrið. Í alvarlegum tilfellum getur líkaminn ofþornað. Ef þú færð svimaköst, getur ekki pissað, verður þurr í munninum og varirnar springa borgar sig að hafa samband við ljósmóður eða lækni í mæðravernd. Meðferð við ofþornun er vökvagjöf. Ef þú getur ómögulega haldið vökvanum niðri getur þurft að leggja þig inn á sjúkrahús og gefa þér vökva í æð.

Hvað er hægt að gera til að komast hjá ógleði og uppköstum?

Eftirfarandi ráð koma yfirleitt að gagni

  • Borðaðu oft og í litlum skömmtum. Það þýðir smámáltíðir á 2 til 3 tíma fresti.

  • Drekktu mikið af vökva – helst 10–12 glös á dag. Mælt er með vatni, ávaxtasafa og jurtatei.

  • Forðastu feitan mat.

  • Forðastu kryddaðan mat.

  • Forðastu áfengi.

  • Forðastu koffín.

  • Forðastu gos og sælgæti.

  • Forðastu sterka lykt.

  • Borðaðu gjarnan þurrt kex, þurrt ristað brauð og tvíbökur.

  • Hvíldu þig oft á dag. Það er gott að leggjast með hátt undir höfði og fótum.

  • Ef þú þjáist af morgunógleði og uppköstum reyndu þá að borða eitthvað áður en þú ferð fram úr (það er gagnslaust ef þú ferð fyrst og pissar eða sækir fyrst matinn). Kannski getur maðurinn þinn gefið þér morgunmatinn í rúmið eða þú getur undirbúið hann kvöldið áður og haft hann hjá þér á bakka.

  • Farðu rólega á fætur. Hreyfðu þig hægt og forðastu snöggar hreyfingar.

  • Forðastu að verða svöng.

  • Borðaðu á 2–3 tíma fresti, jafnvel þó að þú sért ekki svöng.

  • Sittu upprétt eftir máltíðina svo að þyngdaraflið hjálpi þér að halda matnum niðri.

  • Það getur reynst vel að borða svolítið áður en þú ferð að sofa. Gjarnan ávöxt, morgunkorn eða brauðsneið. Það er líka oft gott að borða svolítið á nóttunni ef þú vaknar, það getur spornað gegn uppköstum á morgnana.

  • Ef einhver lykt veldur þér ógleði og uppköstum skaltu forðast hana. Það er ráðlegt að bíða smá stund eftir máltíð með að bursta tennurnar svo það komi ekki af stað uppköstum. Það gerir þér gott að fá þér ferskt loft og hreyfa þig. Ráðlegt er að fara í smá göngutúr daglega. Þá getur þú dregið andann án þess að lykt sé allt of mikið að angra þig og þú færð meiri matarlyst. Einnig er gott að sofa við opinn glugga.

  • Forðastu reykingar. Reykingar eru skaðlegar bæði fyrir þig og barnið og geta aukið ógleðina.

  • Reykingar minnka einnig matarlystina.

  • Haltu þig frá öllum lyfjum nema samkvæmt læknisráði. Ef þú þarft að taka lyf samkvæmt tilvísun læknis vertu þá viss um að honum sé kunnugt um að þú eigir von á barni því mörg lyf geta valdið fósturskaða.

  • Spurðu líka ljósmóðurina eða lækninn ráða við ógleðinni. Það getur verið að þau hafi ráð sem koma þér að gagni.

Hvenær þarf að leita til læknis?

  • Ef ekkert af ofangreindum ráðum virkar.

  • Ef þú kastar upp oftar en 3–4 sinnum á dag.

  • Ef þú léttist.

  • Ef þú kastar upp blóði, eða ef uppsalan lítur út eins og kaffikorgur.

  • Ef þú missir meiri vökva en þú getur haldið niðri. Merki um uppþornun eru svimi, minnkað þvag (það er dökkt og megn lykt af því) eða þú getur ekki pissað, þurrkur í munni og þurrar sprungnar varir.

  • Ef þú hefur áhyggjur af ástandi þínu, eða óttast að hætta sé á ferðum, hafðu þá samband við lækni eða ljósmóður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum