Lífstílsverslun með íslenskri hönnun og framleiðslu

Systur og makar opnar á Laugavegi

Mynd: BRYNJAR AGUSTSSON

Fimmtudaginn 5. febrúar sl. opnuðu Systur & Makar verslun sína á Laugaveginum. Þetta er önnur verslun hópsins en sú fyrri opnaði á Akureyri þann 5. september í fyrra. „Vegna mikilla vinsælda var kominn tími til að opna verslun á höfuðborgarsvæðinu“, segir María Krista.

Systurnar Katla og María Krista
Systurnar Katla og María Krista
Mynd: BRYNJAR AGUSTSSON

Systurnar María Krista og Katla Hreiðarsdætur reka verslanirnar ásamt mökum sínum, Berki Jónssyni og Þórhildi Guðmundsdóttir. Verslunin í Reykjavík er staðsett á Laugavegi 40 þar sem Volcano Design var áður til húsa. Systurnar reka sitthvort framleiðslufyrirtækið með mökum sínum: Volcano Design og Krista Design og sameina nú krafta sína undir merkinu Systur og makar sem þeim fannst mjög lýsandi fyrir þennan samruna.

„Líkt og á Akureyri er markmiðið að ná fram notalegri stemmningu í lífstílsverslun með íslenskri hönnun og framleiðslu í formi fatnaðar, skarts og heimilisvöru, segir María Krista. Kósýheitin eru allsráðandi í búðinni og notalegt sófahorn með kaffivél og bílablöðum hefur verið mjög vinsælt hjá herrunum.


Mynd: BRYNJAR AGUSTSSON

Systur og makar bjóða einnig upp á snyrtivörur frá Crabtree & Evelyn og hafa þær notið mikilla vinsælda á Akureyri, sem og skyrtur frá Kormáki og Skildi og aðrar smávörur.

Mynd: BRYNJAR AGUSTSSON

Mynd: BRYNJAR AGUSTSSON

Búðinni er skipt í nokkrar „deildir“ þótt lítil sé, en þar má nefna heimilisdeild, eldhúsdeild, jólahorn, barnahorn og íslenska hlutann, en þar má finna úrval vara tengdar landi og þjóð. Herradeildin fær sinn stað hjá herraskartinu og setur fatnaður Volcano punktinn yfir i-ið og nýtur sín ótrúlega vel á milli smáhlutanna.Hjá Systrum og mökum ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það er alltaf heitt á könnunni og sykurlausar sultur og chutney í boði þegar eldhúsgyðjan er í stuði.

Verslunin býður upp á svokölluð klúbbakvöld á fimmtudögum þar sem að vinahópum gefst kostur á skemmtilegri kvöldstund, allar nánari upplýsingar má finna á facebooksíðu verslunarinnar.

Facebooksíða

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.