Gefðu sanna gjöf

Sannar gjafir UNICEF eru lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir bágstödd börn

Þessi litla stúlka sýnir á sér litla fingur, en honum hefur verið dýft í blek til að sýna að hún hefur fengið bólusetningu fyrir mislingum, rauðum hundum og lömunarveiki. Hún býr í Nepal og fékk bólusetninguna eftir jarðskjálftann sem reið yfir landið í apríl síðastliðnum.
Bólusett Þessi litla stúlka sýnir á sér litla fingur, en honum hefur verið dýft í blek til að sýna að hún hefur fengið bólusetningu fyrir mislingum, rauðum hundum og lömunarveiki. Hún býr í Nepal og fékk bólusetninguna eftir jarðskjálftann sem reið yfir landið í apríl síðastliðnum.

Þú getur gefið gjöf sem hefur áhrif á gang mála í heiminum. Sannar gjafir UNICEF færa bágstöddum börnum um allan heim lífsnauðsynleg hjálpargögn. UNICEF eru stærstu barnahjálparsamtök í heimi og starfa í 196 ríkjum. Gjöfunum er dreift til barna og fjölskyldna þeirra í samfélögum þar sem þörfin er mest hverju sinni.

Hjálpargögnin eru ýmiss konar og í öllum verðflokkum. Til að mynda er hægt að kaupa teppi, bólusetningar og námsgögn en öll þessi hjálpargögn eiga það sameiginlegt að bæta líf barna víða um heim.

Á vefnum Sannar gjafir velur þú hvernig gjöf þú vilt kaupa, skrifar persónulega kveðju til vina og vandamanna og að lokum færð þú sent fallegt gjafabréf með lýsingu á gjöfinni. UNICEF sér svo um að gjöfin berist til barna sem eiga um sárt að binda.

Þú getur meðal annars keypt þetta:
Skóli í kassa gerir börnum kleift að halda skólagöngu sinni áfram eftir að neyðarástand hefur komið upp. En við slíkar aðstæður er mikilvægt að börn fái tækifæri til þess að dreifa huganum og huga að hversdagslegum hlutum eins og námi og leik. Í kassanum eru skólagögn fyrir 40 börn.

Næringarmjólk inniheldur kolvetni, fitu, vítamín og öll þau steinefni sem eru lífsnauðsynleg fyrir börn sem þjást af alvarlegri vannæringu. Hún gerir hreinlega kraftaverk fyrir alvarlega vannærð börn og skiptir sköpum fyrir þroska þeirra og uppvöxt.

Bóluefni gegn mænusótt. Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir að mænusótt valdi lömun er bólusetning. Í dag eru aðeins þrjú ríki þar sem mænusótt er enn landlæg og er stefnt að því að útrýma henni alfarið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.