Ragga Nagli gagnrýnir Biggest Loser

„Þessi þáttur fer aldrei í rót vandans hjá þátttakendum“

Rachel Frederickson sigraði í nýjustu þáttaröðinni af Biggest Loser
Tapaði flestum kílóum Rachel Frederickson sigraði í nýjustu þáttaröðinni af Biggest Loser

Athugið. Fréttin inniheldur upplýsingar um úrslit nýjustu þáttaraðar Biggest Loser USA.

„Að missa 70 kg á 6 mánuðum er ekki heilbrigt fitutap. Að fara niður í 47 kg er ekki heilbrigt útlit. Þessi þáttur fer aldrei í rót vandans hjá þátttakendum sem er í flestum tilfellum hugsanavillur, vítahringur sektarkenndar og ofáts, léleg sjálfsmynd og öfgakennd ‘Allt-eða-ekkert’ nálgun á mataræði og hreyfingu,“ skrifar einkaþjálfarinn og heilsusálfræðingurinn Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga Nagli, í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag.

„Gamlar venjur og hugsanir öskra eins og hungruð hýena“

„Þessi mynd úr úrslitum nýjustu seríu af Biggest Loser í USA hefur farið eins og eldur um sinu um steppur internetsins. Sem sálfræðingur sem vinnur með fólki sem á í óæskilegu sambandi við mat og sjálfsmynd getur Naglinn ekki orða bundist,“ skrifar Ragga og bendir á mynd af hinni 24 ára Rachel Frederickson sem sigraði í nýjustu seríu af sjónvarpsþættinum Biggest Loser í Bandaríkjunum í gær.

Þátturinn ræðst ekki á rót vandans að mati Röggu. „Þess í stað er hegðun umturnað á einni nóttu með ómannlegu magni af æfingum og óheilbrigðum kaloríufjölda sem stuðlar ekki að öðru en handónýtu grunnbrennslukerfi. Það er ekki tekið tillit til að slíkur öfgakenndur

Ragga efast um að sú leið sem farin sé í Biggest Loser sé heilbrigðasta aðferðin til að takast á við of mikila fitu
Naglinn getur ekki orða bundist Ragga efast um að sú leið sem farin sé í Biggest Loser sé heilbrigðasta aðferðin til að takast á við of mikila fitu
hugsunarháttur getur leitt fólk í akkúrat hina áttina þar sem óheilbrigt samband við sjálfsmynd og mataræði með tilheyrandi ofáti leiðir það yfir á hinn endann af vannæringu, ofhreyfingu og brenglaðri sjálfsmynd. Svo fer blessað fólkið í sitt gamla umhverfi þar sem gamlar venjur og hugsanir öskra eins og hungruð hýena og keppendurnir eiga engan mótleik og falla í sama farið með tilheyrandi niðurrifi á sjálfinu,“ skrifar Ragga.

„Fær þessi stúlka sálfræðilegan stuðning og eftirfylgni eftir keppnina? Hvernig er grunnbrennslukerfið hjá henni eftir svona hratt þyngdartap? Mun hún bæta þessu á sig jafnharðan aftur sem mun keyra sjálfsmynd hennar aftur ofan í svaðið? Hvaða skilaboð er þessi þáttur að senda með að verðlauna óæskilega hegðun til fitutaps og óheilbrigt útlit á tímum þar sem átraskanir fara sívaxandi meðal unglingsstúlkna?“ spyr einkaþjálfarinn.

Biggest Loser Ísland

Fyrsti þátturinn af íslensku útgáfunni af umræddum þætti, Biggest Loser Ísland, fór í loftið í janúar. SkjárEinn og Sagafilm framleiða þættina en þar reyna 12 keppendur að missa sem flest kíló með því að gjörbreyta lífsháttum sínum. Á vefsíðu SkjásEins stendur: „Markmið okkar er að aðstoða keppendur við að breyta lífi sínu til frambúðar. Þúsundir einstaklinga hvaðanæva úr heiminum hafa farið í gegnum heilsuferli The Biggest Loser sem hefur gjörbreytt lífsháttum þeirra og er vottað af læknum, sálfræðingum og næringarfræðingum.“ Ragga Nagli tekur það þó fram að hún sé ekki að gagnrýna Biggest Loser Ísland, enda hafii hún ekki séð íslensku útgáfuna af þættinum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.