Tveir kórar tróðu óvænt upp hjá kjötborðinu

Flensborgarkór og kór Flensborgarskóla sungu Nóttin var sú ágæt ein í Fjarðarkaupum

Mynd: Skjáskot af Netsamfelag.is

Kór Flensborgarskólans og Flensborgarkórinn komu viðskiptavinum Fjarðarkaupa á óvart síðastliðinn laugardag með söng. Einn meðlimur annars kórsins hóf að syngja Nóttin var sú ágæt ein, lag Sigvalda Kaldalóns við ljóð Einars Sigurðssonar. Félagar hans tóku undir með honum einn af öðrum og loks sameinuðust allir við kjötborð verslunarinnar, en slíkt uppátæki er á ensku kallað „flash mob“.

Netsamfélagið gerði myndbandið fyrir Jólaþorpið en Margrét Blöndal, fjölmiðlakona og viðburðastjóri, skipulagði uppákomuna. Samhliða birtingu myndbandsins, sem má sjá hér fyrir neðan, er vakin athygli á tónleikum kóranna, sem fram fara í kvöld.

Aðeins örfáir dagar eru liðnir síðan DV greindi frá samskonar atviki sem átti sér stað í verslun Krónunnar í Lindum í Kópavogi, vegna auglýsingar. Þá fékk Krónan til liðs við sig nokkra söngvara til þess að framkvæma svipaðan gjörning, en þeir sungu sama lag og kórarnir gerðu í Fjarðarkaupum; Nóttin var sú ágæt ein.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.