7-20 kílóum léttari á 13 dögum

Ekki búast við að vakna í toppformi eftir nokkra daga á öfgafullum kúr

Öfgar eru ekki vænlegar til árangurs
Öfgar ekki góðar Öfgar eru ekki vænlegar til árangurs

Það eru til yfir 40.000 titlar af megrunarbókum á Amazon. Efni sem tengist megrun er afar vinsælt á veraldarvefnum og eru kúrarnir oft mjög öfgafullir og beinlínis hættulegir heilsunni. Það verður aldrei of oft brýnt fyrir fólki að öfgar í megrun skila sér sjaldan í varanlegu þyngdartapi, þvert á móti þá eru öfgafullir megrunarkúrar ávísun á miklar sveiflur í þyngd. Á hverju ári skjótast nýir kúrar fram á sjónarsviðið með tilheyrandi æði sem virðist grípa þá sem vilja létta sig.

Þessa dagana er kolvetnalaust fæði mjög vinsælt, en skiptar skoðanir eru á ágæti þess lífsstíls. DV tók saman lista yfir nokkra öfgafulla megrunarkúra sem eru í raun ávísun á óheilbrigði og vanlíðan.

Sítrónukúrinn

Hver man ekki eftir sítrónukúrnum sem tröllreið öllu um aldamótin síðustu? Kúrinn gengur út á það að drekka einungis vatn sem er bætt með hlynsírópi, sítrónusafa og cayenne-pipar. Þessi aðferðafræði lofar fimm til tíu kílóa þyngdartapi á tíu dögum. Stjörnur á borð við Beyoncé hafa notast við þennan kúr sem þykir afar öfgafullur og óhollur. Beyoncé missti sex kíló á þessum kúr fyrir hlutverk sitt í Dreamgirls. Hún var ekki lengi að bæta þeim aftur á sig og lét hafa eftir sér að hún mælti alls ekki með þessari aðferð til þess að léttast.

Atkins-kúrinn: Kolvetni í algjöru lágmarki

Atkins kúrinn Mælir með fituríkum mat

Hugmyndin að Atkins-kúrnum er komin frá dr. Robert Atkins, en þessi kúr varð afar vinsæll um tíma. Kúrinn byggir á því að takmarka neyslu kolvetna og neyta meira próteins og fituríkra matvæla. Fyrstu daga kúrsins er að vænta mikils þyngdartaps, sem má rekja til mikils vökvataps sem líkaminn verður fyrir. Þessi kúr er ekki talinn vera vænlegur fyrir hjarta og æðakerfi, en rjómi, smjör, beikon og fiturík fæða er uppistaðan í Atkins-kúrnum. Lýðheilsustöð mælir með að fólk neyti um 50–60 prósenta allra hitaeininga frá kolvetnum, á meðan Atkins-kúrinn gerir ráð fyrir aðeins 10 prósentum kolvetna á degi hverjum.

Hraðkúrinn

Hraðkúrinn gengur út á að borða aðeins vítamín og drekka vatn í tíu daga. Þetta er hættuleg aðferð sem getur valdið miklu heilsutjóni.

Laxakúrinn

Laxakúrinn er einhæfur og alls ekki girnilegur kúr. Hann gengur út á það að borða hafragraut í morgunmat og síðan 70 grömm af laxi á um þriggja tíma fresti allan daginn. Hér er kolvetnasvelti mikið sem leiðir til mikils vökvataps. Kúrinn á að halda út í sex daga.

13 daga kúrinn

Landspítalakúrinn Ekkert tengdur Landspítalanum þó að nafnið gefi það til kynna.

Landspítalakúrinn, Efnaskiptakúrinn eða 13 daga kúrinn er ekkert tengdur Landspítalanum eins og nafnið gefur til kynna. Hann er sagður breyta efnaskiptum og brennslukerfi líkamanns og á að virka áfram að kúrnum loknum eftir 13 daga. Ef farið er eftir kúrnum í einu og öllu á þyngdartapið að vera allt frá sjö kílóum upp í 20 kíló. Rannsóknir í næringarfræði benda til þess að morgunmatur sé ein af undirstöðumáltíðum dagsins, en í þessum kúr er morgunmaturinn aðeins svart kaffi með sykri. Það má alls ekki fá sér neitt annað að borða en það sem 13 daga matseðillinn segir til um, ekki einu sinni tyggjó. Hitaeiningar eru aðeins um 800 á dag í þessum kúr.

Blóðflokkakúrinn

Blóðflokkakúrinn Var vinsæll um tíma.

Peter D‘Adamo fann upp blóðflokkakúrinn sem byggir á því að fólk borði viss matvæli í samræmi við sinn blóðflokk. Fræðin í þessum kúr eru þau að ef maður borðar mat sem inniheldur prótein sem eru ekki talin passa við blóðflokkinn sem maður er í, geti það leitt til alls kyns kvilla. Þessi kúr er ekki byggður á vísindum, heldur persónulegri reynslu höfundar.

Um 40 prósent manna eru í O-blóðflokki, en samkvæmt kúrnum mega þeir sem eru í þeim blóðflokki ekki borða mjólkurvörur, appelsínur og jarðarber svo eitthvað sé nefnt.

Loftkúrinn: Aðeins horfa og alls ekki borða!

Þessi kúr er líklega sá allra skrýtnasti. Hann gengur út á að horfa á matinn og standast þá freistingu að borða hann. Á meðan horft er á matinn er drukkið vatn til þess að fylla upp í tómarúmið í maganum. Madonna er ein af þeim sem hafa prófað þennan stórundarlega kúr, en hún er nú líka þekkt fyrir hin ýmsu uppátæki. Loftkúrinn er ekki bara heilsuspillandi heldur getur hann stuðlað að átröskunarsjúkdómum með alvarlegum afleiðingum.

Æskileg samsetning fæðunnar

Maturinn á ríkan þátt í lífi okkar. Maturinn veitir orku og nauðsynleg næringarefni til viðhalds og vaxtar. Þýðing matar er þó fyrir flesta mun fjölþættari. Maturinn hefur félagslegt gildi og er hluti af menningu og sérkennum hverrar þjóðar. Hann hefur bæði áhrif á andlega líðan og líkamlegt heilbrigði.

Hæfilegt er að úr kolvetnum fáist 50–60 prósent af orkunni, þar af ekki meira en 10 prósent úr viðbættum sykri. Ráðleggingar fyrir hópa fólks miðast við 55 prósent orkunnar úr kolvetnum.

Æskilegt er að fæðutrefjar séu að minnsta kosti 25 grömm á dag miðað við 2.400 kílókaloría fæði.

Hæfilegt er að prótein veiti 10–20 prósent heildarorku.

Hæfilegt er að fá 25–35 prósent orkunnar úr fitu, þar af komi ekki meira en 10 prósent orkunnar úr harðri fitu.

Með því að fylgja ráðleggingunum má koma í veg fyrir skort á næringarefnum og jafnframt stuðla að jafnvægi á milli næringarefna. Með góðu og fjölbreyttu fæðuvali má draga úr líkunum á ýmsum sjúkdómum og sé þess gætt að hafa jafnvægi á milli matar og hreyfingar má stuðla að heilbrigðri líkamsþyngd og heilsusamlegu líferni.

Heimild: Lýðheilsustöð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.