Þetta kostar nótt á bestu hótelum heims

Lífið er stutt og veskið oft tómt en engu að síður viljum við flest einn daginn gera extra extra extra vel við okkur. Láta eftir okkur eitthvað sem er alla jafna utan seilingar og þó ekki nema eina oggupons næturstund njóta þess í tætlur að vera til.

Langbesta hótel Parísar að mati ferðamanna er Jays Paris og leita þarf lengi til að finna eitt einasta lausa herbergi á þeim bænum.

Ein leið til þess er að eyða kvöldstund í einu af bestu hótelum heims í bestu borgum heims en þau eru allflest í dýrari kantinum eins og gefur að skilja.

En “bestu” hótel heims þurfa ekki endilega að vera “bestu” hótel heims. Þegar við tölum um bestu er ekki endilega verið að meina lúxushótelin velþekktu Ritz eða Hilton eða slíkt. Öllu heldur “bestu” hótel heims að mati ferðalangra sjálfra á vefmiðlinum Tripadvisor 2012. Síðan leitum við að besta hugsanlega verði eitt laugardagskvöld á hótelbókunarvélinni HotelsCombined og voilà!

Þetta er niðurstaðan:

Í London er besta hótel ársins Hotel 41 sem haganlega er staðsett við Buckingham Palace Road. Lægsta verð sem finnst fyrir eina einustu nótt er 67.190 krónur.

Í París er besta hótel ársins Jays Paris við rue Copernic sem er ágæt staðsetning. Eitt örfárra hótela sem fá einkunnina tíu af tíu mögulegum og það af ferðalöngum sjálfum. Er þetta þó ekki formlega fimm stjörnu hótel. Lægsta verð á laugardagskvöldi á því ágæta hóteli finnst á 78.347 krónur en afar vandasamt er að finna laus herbergi næsta árið.

Í Barcelóna er allra besta hótelið að mati ferðalanga ekki heldur formlega fimm stjörnu. Það reynist vera Casa Camper Hotel í Carrer Elisabets götu í hinu íðilskemmtilega Ravel hverfi borgarinnar. Nóttin þar er hræbilleg miðað við aðdáun fólks og fæst hér herbergi um helgi allt niður í 37.269 krónur.

Vilji fólk eyða í besta hótel Berlínar verður Circus Hotel fyrir valinu við Rosenthalerstraβe skammt frá fínustu verslunum. Verðlag hér er algjör brandari og fást herbergi um helgi fyrir aðeins 14.040 krónur.

Vestanhafs í Nýju-Jórvík telja ferðalangar að allra besta hótel ársins sé Casablanca Hotel Times Square sem er við torgið fræga. Þar finnast herbergi um helgi frá 35.336 krónum sem telst vera mjög billegt miðað við verðlag almennt í New York.

Aðeins norðar í Boston hefur Hotel Commonwealth fengið nafnbótina besta hótelið 2012 en það stendur við samnefnda götu. Þar finnast líka herbergi á fínum prís eða allt niður í 28.502 krónur eina helgarnótt.Lesa á Fararheill.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.