Næringarfræðingur: „Steinaldarmataræðis-kenningin“ heldur ekki vatni

„Þessar fullyrðingar eru vægast sagt hjákátlegar“

„Ég hélt satt að segja að toppi næringarvitleysunnar hefði verið náð hér á landi á árinu 1999 þegar út var gefin bók sem nefnist „Rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk“,“ skrifar næringarfræðingurinn Ólafur Gunnar Sæmundsson í aðsendri grein í Morgunblaðið í dag og á vef Víkurfrétta, en þar er hann harðorður í garð svokallaðs Steinaldarmatarræðis, eða“ Paleo Diet“.

Ólafur Gunnar vitnar þar í grein þar sem 20 sérfræðingar mátu tuttugu og fimm tegundir mataræðiskúra svo sem Miðjarðarhafsmataræði, DASH-mataræði, Hráfæðismataræði og Atkins-mataræði út frá þáttum eins og hve heilsusamlegt það væri, áhrif þess á þyngdartap og hve auðvelt væri að fylgja því eftir. Í niðurstöðu þeirra kom fram að svokallaða Steinaldarmataræðið fékk verstu einkunn þeirra allra.

Steinaldarmatarræðið hefur verið að ryðja sér rúms hér á landi á undanförnu og eru þeir fjölmargir sem hafa valið að fylgja því. Ólafur bendir á að það er þó ekki nýtt af nálinni að matarræðið sé vinsælt, heldur hafi það náð vinsældum fyrst 1975 í Bandaríkjunum.

„Þeir sem fylgja eftir „mataræði steinaldarmannsins“ og eru forfeðrum sínum trúir leggja sér til munns magurt kjöt, fisk, egg, grænmeti, ávexti, ber, hnetur og fræ. Hins vegar mega þeir ekki neyta afurða eins og kornmeti (svo sem hrísgrjón, hveiti, maís og hafra), baunir, mjólk- og mjólkurafurðir, né verksmiðjuunninn mat af neinu tagi. Og að sjálfsögðu ættu „hellisbúar“ nútímans þar með að láta vera að leggja sér til munns fæðubótarefni í hvaða mynd sem er eins og próteinblöndur sem flestar samanstanda af forboðnum mjólkurpróteinum svo ekki sé nú minnst á verksmiðjuunnin vítamín og steinefni. Hér er minnst á fæðubótarefni vegna þess að þeir sem aðhyllast kenninguna um steinaldarmataræðið mæla oft með neyslu ýmiskonar fæðubótarefna sem er vægast sagt fáránlegt enda stóð steinaldarmönnum fortíðar aldrei slíkt “góðgæti” til boða!,“ segir Ólafur Gunnar.

Hann bendir á að tvennt fylgi því gjarnan þegar rætt er um steinaldarmatarræðið að það auki heilbrigði annarsvegar og hinsvegar að rót offituvandans megi fyrst og síðast rekja til kolvetnaneyslu en ekki neyslu á fitu og próteinum. „Þessar fullyrðingar eru vægast sagt hjákátlegar enda er ekkert sem hönd er á festandi sem segir að steinaldarmaðurinn hafi verið ímynd heilsu og heilbrigði eða óvenju langlífur eða að einstaklingar sem neyta hlutfallslega meira af kolvetnum verði frekar feitir. Einn mælikvarði á velgengni dýrategundar felst í þeim “hæfileika” að fjölga sér og þar hefur manninum heldur betur tekist vel til og þá sérstaklega síðustu 100 árin eða svo. Og í þessu tilliti er vert að hafa í huga að þeim samfélögum/þjóðum, þar sem kolvetnaneysla hefur í sögulegu tilliti verið ríkuleg, hefur tekist einstaklega vel upp hvað þetta varðar, samanber tveimur fjölmennustu þjóðum heims, Kína og Indlandi. Og þar fyrir utan að þrátt fyrir hlutfallslega háa kolvetnaneyslu íbúa þessara tveggja fjölmennustu ríkja heims er offita þar mjög fátíð ef miðað er við víða annars staðar þar sem hlutfall kolvetna í fæði er lægra, svo sem í USA, Bretlandi og á Íslandi! Enda hljóta allir að gera sér grein fyrir því að fólk fitnar fyrst og fremst vegna ofneyslu hitaeininga og skiptir þá litlu hvort þær hitaeiningar sem umfram eru séu í formi kolvetna, fitu, próteina eða alkóhóls!,“ segir Ólafur Gunnar sem segir að steinaldarmatarræðiskenningin haldi ekki vatni.

„Þó að „steinaldarmataræðiskenningin“ haldi ekki vatni að þá er sá matur sem fylgjendur leggja sér til munns að sjálfsögðu hollur og góður. Hins vegar þykir mér sem næringarfræðingi bagalegt að margs konar hollmeti sé úthýst. Vitna hér að síðustu í http://health.usnews.com/best-diet/best-overall-diets þar sem 20 sérfræðingar mátu 25 tegundir mataræðiskúra svo sem Miðjarðarhafsmataræði, DASH-mataræði, Hráfæðismataræði og Atkinsmataræði út frá þáttum eins og hve heilsusamlegt það væri, áhrif þess á þyngdartap og hve auðvelt væri að fylgja því eftir. Niðurstaðan: Steinaldarmataræðið fékk verstu einkunn þeirra allra.“

Grein Ólafs Gunnars má lesa hér: Steinaldarmataræði!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.