Gakktu með borðtölvu í vasanum

Canonical ræðst inn á snjalltækjamarkaðinn með Ubuntu fyrir Android

Ekki er langt í að þú getir gengið um með borðtölvuna þína í vasanum. Bandaríska fyrirtækið Canonical hefur nefnilega tilkynnt um útgáfu á Android-snjalltækjaforriti sem gerir notendum kleift að setja upp Ubuntu-stýrikerfið á farsíma. Það virkar þannig að þegar símanum er stungið í samband við tölvuskjá, með símavöggu, umbreytist síminn í Ubuntu-borðtölvu. Þannig hefur notandinn aðgang að öllum helstu þægindum borðtölvu í símanum.

Notendur þurfa auðvitað ennþá að hafa skjá, lyklaborð og mús tiltæka en þessi nýja tækni gerir notendum kleift að nota sömu tölvuna á mörgum mismunandi stöðum. Þannig gætu notendur farið heim með vinnutölvuna og svo framvegis.

Mun ekki kosta krónu

Eins og allur hugbúnaður sem Canonical framleiðir kostar þetta nýja snjallsímaforrit ekki neitt. Það sama á við um Android-snjalltækjastýrikerfið, sem framleitt er af Google. Notendur munu þó líklega vera meðvitaðri um að Ubuntu sé ókeypis frekar en Android þar sem snjallsímar með Android-kerfinu kosta allt upp í hundruð þúsunda króna. Ubuntu mun vera hægt að sækja endurgjaldslaust á tækið sem notendur eru þegar búnir að fjárfesta í.

Þrátt fyrir að kerfið kosti ekki neitt þýðir það ekki að kerfið sé lélegt. Ubuntu fyrir hefðbundnar tölvur nýtur mikilla vinsælda og er Ubuntu vinsælasta Linux-stýrikerfið sem er í boði í dag. Android-kerfið byggir í raun á sama grunni og Ubuntu gerir og gefur það ákveðna von um að kerfin eigi eftir að virka vel saman.

Sömu eiginleikar

Þegar notendur setja upp Ubuntu á Android-snjallsímana sína finna þeir ekki mun á símunum fyrr en þeir stinga þeim í samband við vöggu. Þegar símanum er svo stungið í samband missir hann ekki þá eiginleika sem gera hann að síma. Notendur geta áfram tekið við skilaboðum og símtölum þrátt fyrir að síminn sé í notkun sem tölva og er í raun búið að búa svo um hnútana að hægt er að sinna skilaboðum og öðru beint af tölvuskjánum.

Til þess að geta sett upp Ubuntu á Android þarf síminn að vera „dual core“, eða með tvöfaldan örgjörva. Þetta þýðir að ekki er gert ráð fyrir því að hægt sé að setja upp Ubuntu á ódýr Android-símtæki sem búin eru lágmarks búnaði.

Hvað er Ubuntu?

Ubuntu er stýrikerfi sem byggir á Linux. Um er að ræða opinn hugbúnað sem þróaður er af notendum hugbúnaðarins í samvinnu við Ubuntu. Verkefnið er leitt af bandaríska fyrirtækinu Canonical sem hefur starfsstöðvar víðsvegar um heim. Ástæðan fyrir því að fyrirtækið er enn starfandi þrátt fyrir að hreinlega gefa aðalvöruna sína er að það veitir góða og umfangsmikla þjónustu í viðhaldi og uppsetningu á Ubuntu-kerfislausnum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.