Ein milljón nýrra notenda á dag

Twitter vex og vex

Samskiptavefsíðan Twitter stækkar gríðarlega ört en samkvæmt nýjustu upplýsingum bætist við ein milljón nýrra notenda á degi hverjum. Ellefu bætast við á hverri einustu sekúndu. Samkvæmt viðskiptaáætlun Twitter er reiknað með að veltan verði 259 milljónir dollara í ár og að hún verði orðin 540 milljarðar eftir tvö ár. Þessi einfalda síða hefur náð langt á skömmum tíma.

Twitter var stofnað árið 2006 af þeim Jack Dorsey, Biz Stone og Evan Williams. Síðan hét upphaflega Twttr en því var breytt sama ár. Ári síðar var síðan metin á 5 milljónir dollara og tveimur árum síðar var sú tala orðin 35 milljónir. Tölurnar eru ekki í líkingu við Facebook enda Twitter töluvert einfaldari og minni síða. Í dag eru þó 500 milljónir skráðar á síðuna, 100 milljónir nota síðuna á degi hverjum og eru tístin samtals 33 billjónir á dag.

Twitter er hvað mest notað í Bandaríkjunum en þar eru ríflega 107 milljónir skráðar á Twitter. Næstflestir nota Twitter í Brasilíu eða 33 milljónir og Japan er í þriðja sæti með 30 milljónir skráða notendur.

Það var einmitt japanskur sjónvarpsþáttur, Castle in the Sky, sem olli mestu látunum á Twitter en á meðan hann var í gangi flugu ríflega 25.000 tíst á sekúndu. Lokamínútur Ofurskálarinn í Bandaríkjunum þann 5. febrúar koma næst en á þeim voru send yfir 10.425 tíst á sekúndu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.