Svín eru skemmtileg dýr

Hjónin á Miðskeri ala upp svín við vistvænar aðstæður

„Okkur hugnast ekki öðruvísi búskapur því við viljum vera í sátt við náttúruna,“ segir Bjarney Pálína Benediktsdóttir, bóndi á Miðskeri, en hún og eiginmaður hennar, Sævar Kristinn Jónsson, ala upp svín við vistvænar aðstæður.

Ýmis dýr eru á Miðskeri en auk svínanna eru þau Bjarney og Sævar með kindur, hesta, hænur, kisur og hunda. Aðalatvinna þeirra hjóna er þó fólgin í kartöflu-, korn- og svínarækt sem, að sögn Bjarneyjar, smellpassar saman. „Svínin éta þær kartöflur sem eru ekki söluhæfar og líka kornið sem er súrsað auk aðkeyptrar fóðurblöndu. Kartöflurnar sjóðum við í stórum potti úti,“ segir Bjarney en þau hjónin hafa haldið svín frá 1996.

„Gylturnar hafa alltaf fengið að ganga um lausar í stórum stíum. Ég er alveg viss um að þeim líður betur svona. Ég efast ekki um það. Þær eru að brasa svo mikið í stíunum sínum. Svo fá þær líka hálm og hey inn til sín og eru mun frjálsari. Þetta er allt annað,“ segir hún og bætir við að það standi til að útbúa útihólf svo þær geti farið út á sumrin.

Bjarney segist verða vör við aukinn áhuga á vörum beint frá búi. „Ég held að fólk sé farið að hugsa meira um hvernig farið er með dýrin, hvernig dýrin hafa það og svona. En svo eru líka aðrir sem hugsa bara um besta verðið – sama hvernig það er til komið,“ segir Bjarney og bætir við að hún fái oft að heyra að kjöt frá þeim sé sérstaklega gott.

„Og ekki bara frá vinum okkar, heldur frá öllum sem smakka,“ segir hún og bætir við að útskýringin sé sennilega fólgin í því að vistræn ræktun sé mun náttúrulegri en verksmiðjuframleiðsla.

Á Miðskeri eru að jafnaði tíu gyltur sem koma upp tólf grísum að meðaltali í goti, tvisvar á ári. „Afföll eru lítil, við vökum alltaf yfir gyltum sem eru að gjóta. Svín eru mjög skemmtileg dýr og hver gylta hefur sinn sjarma, ef maður má taka svoleiðis til orða,“ segir Bjarney sem kallar gylturnar allar sínum nöfnum.

„Mér þykir mjög vænt um þessi dýr og finnst alltaf jafn leiðinlegt þegar það þarf að fara með fullorðna gyltu í sláturhús. Það er allt öðruvísi með litlu grísina en þeir eru svona sex mánaða þegar þeim er slátrað en þá eru þeir orðnir stórir og frekir.“

Bjarney segir sveitalífið skemmtilegt og rómantískt. „Það er ágætis líf að vera bóndi. Nema þá helst að peningarnir streyma ekkert inn. Hamingjan er samt ekki fólgin í peningum,“ segir hún og bætir við að það hafi verið áhugi frekar en nauðsyn sem leiddi þau út í að selja beint frá býli.

„Þetta er töluverð vinna en þetta er líka áhugamálið okkar. Mörgum blöskrar vinnutíminn en þegar við erum búin að vinna á kvöldin þurfum við ekkert að fara í ræktina. Þetta er nefnilega fjölbreytt og mikil hreyfing.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.