Bollur fyrir alla

Að skreyta bollur er skemmtileg iðja fyrir alla fjölskylduna

Mjúkar og sætar, fullar af sultu og rjóma og skreyttar eftir kúnstarinnar reglum. „Bollur er freisting sem er erfitt að standast,“ segir Jónatan Eggertsson, bakarameistari hjá Café Konditori Copenhagen, sem er í miklum önnum ásamt öðru starfsfólki við að undirbúa bolludaginn þegar blaðamann ber að garði.

Jónatan útskýrir að þar sem sá siður að borða bollur sé danskur baki bakarar gjarnan bollur að dönskum sið. Hann segir frá því að í Danmörku tíðkist að bera fram bollur með rjóma og ferskum ávöxtum. Bollurnar sjálfar séu annaðhvort gerbollur eða vatnsdeigsbollur. Í gerdeigið sé síðan gjarnan blandað vandaðri vanillu eða kardimommum.

„Danskir bakarar eru ólíkt íhaldssamari hvað varðar samsetningu bollunnar en þeir íslensku. Íslenskir bakarar eru óhræddir við að leika sér með hráefnin gagnstætt þeim dönsku. Við erum ýktari býst ég við,“ segir Jónatan og hlær. Hann segist hafa gaman af þessari nýjungagirni og að fylgjast með skemmtilegum hugmyndum um samsetningu bollunnar.

Sjálfur er Jónatan helst hrifinn af draumabollunum sem eru með rjóma, berjum og öðrum ávöxtum. „Vatnsdeigsbollurnar eru vinsælli en gerbollur. Þær eru léttari í maga og það má segja að þær eigi endurkomu, þær voru vinsælar fyrir áratugum síðan og margir muna eftir þeim úr æsku,“ segir hann.

Jónatan gefur lesendum DV uppskriftir að draumabollunum góðu og karamellubollum sem mörgum þykja góðar.

Vatnsdeigsbolla með karamellu

10 stk.

500 gr. þeyttur rjómi

Bræðið 15-20 freyju karmellur i rjóma og setið smá af vanilludropum út í.

Látið kólna aðeins og setjið næstum því allt í þeyttan rjómann og restin fer yfir bollurnar.

Vatnsdeigs-draumabolla

10 stk.

Þeyta 500 gr. rjóma, setja jarðaberjasultu á botninn.

Sprauta rjómanum á bollurnar,

Skerið niður jarðaber, kiwi og bláber og raðið í rjómann.

Setjið lokið yfir og súkkulaði íssósa sett yfir.

Þetta er ekta dönsk rjómabolla.

Vatnsdeigsbollu uppskrift

250 gr. Smjörlíki

5 dl. Vatn

250 gr. Hveiti

6 egg

Smá salt

Smá sykur

Smjörlíki og vatn er hitað saman í potti þangað til smjörlíkið er allt bráðið og vatnið sýður vel.

Hitinn minnkaður og allt hveitið látið í einu út í pottinn, hrært stöðugt í þangað til það er þykkt.

Látið síðan smá salt og sykur útí, látið kólna aðeins.

Eggin eru þeytt og síðan látin ofaní og hrært stöðugt.

Bakið við 200 gráður í 15 til 20 mínútur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.