Slökktu á súkkulaðiþörfinni

Margir finna fyrir löngun í sætindi þegar líður á daginn

Langi þig í súkkulaði fáðu þér þá göngutúr. Svona hljóma leiðbeiningar sem birtust á vef danska blaðsins Politiken fyrir skömmu. Þar er vitnað í niðurstöður könnunar sem framkvæmd var í Bretlandi og var ætlað að finna út hvað gæti dregið úr löngun í súkkulaði.

Það kannast líklega margir við það þegar súkkulaðilöngunin verður óbærileg þegar líður á eftirmiðdaginn og blóðsykurinn fellur eftir því sem fjær dregur hádegismatnum. Þeir sem hafa vanið sig á að fá sér einn og einn súkkulaðibita yfir daginn í vinnunni geta nú andað léttar því í niðurstöðum könnunarinnar segir að til að slökkva súkkulaðihungrið eigi fólk að fá sér 15 mínútna göngutúr. Ef þú fylgir þessum ráðleggingum minnkar þú þörfina fyrir súkkulaði í vinnunni um helming.

Í könnuninni sem framkvæmd var við Exeter-háskóla voru 78 súkkulaðifíklar fengnir til að taka þátt í tilraun og sett það skilyrði að þeir hefðu ekki borðað súkkulaði í tvo sólarhringa áður en tilraunin hæfist. Þeim var skipt í fjóra hópa en tveir þeirra voru látnir fara í 15 mínútna göngu áður en þeir fengu verkefni. Annar fékk krefjandi verkefni en hinn léttara verkefni. Hinir tveir fengu sömu verkefni en var sagt að hvíla sig áður. Allir hópar höfðu ótakmarkaðan aðgang að súkkulaði meðan á tilrauninni stóð.

Niðurstaðan var sú að þeir sem höfðu gengið borðuðu 15 grömm af súkkulaði á móti 28 grömmum hjá þeim sem hvíldu sig.

Adrian Taylor, prófessor og stjórnandi könnunarinnar, segir að það verði vani að narta í súkkulaði yfir daginn og stinga upp í sig mola í rauninni án þess að hugsa um það. Þann vana sé hægt að yfirstíga og fyrrnefndur göngutúr sé góð leið til þess.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.