Ekki kaupa sumarhús á Spáni…. alveg strax

Þú hefur eflaust velt því vel fyrir þér, sértu á þeim buxunum, hvenær sé besti tíminn til að kaupa sumarhús á góðum stað á Spáni. Fróðir segja að þolinmæði geti sparað fólki allt að 50 prósent afslátt í viðbót við það verðfall sem þegar hefur orðið.

Castellón á Spáni er einn þeirra staða þar sem byggt var eins og enginn væri morgundagurinn. Og í ljós kom að enginn var morgundagurinn fyrir þá sem þá keyptu. Þar eru enn þann dag í dag um 60 þúsund hús og íbúðir sem standa auðar

Í það minnsta er það álit margra helstu sérfræðinga Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og reiknimeistarar eins stærsta ráðgjafafyrirtækis Spánar, RR de Acuña Asociados, telja meiri líkur en minni að sumarhús á allra vinsælustu stöðum landsins geti fallið um allt að 50 prósent í viðbót við það sem orðið er.

Ekki hefur farið fram hjá neinum sem með fréttum fylgist að staða efnahagsmála á Spáni er hræðileg og stjórnin sjálf viðurkennir fúslega að ekki sé von á neinu jákvæðum teiknum á lofti fyrr en í fyrsta lagi árið 2014. Það er dregið í efa af mörgum enda er enn þann dag í dag ekki séð fyrir endann á byggingarbólu þeirri sem sett hefur landið í spennitreyju og mun tryggja áhugasömum hræbilleg sumarhús á æði heillandi stöðum næstu árin.

Samkvæmt ráðuneyti efnahagsmála á Spáni hefur raunverð á sumarhúsum þegar fallið duglega. Mest í Andalúsíu þar sem meðalverð á sumarhúsi nú er 16 prósent lægra en það var árið 2008. Katalónía hefur einnig fundið fyrir feitum samdrætti og þar fást nú sumarhúsin á rétt rúmlega fimmtán prósent lægra verði en fyrir fjórum árum. Ekkert hérað Spánar hefur sloppið þó reyndar samdrátturinn í Extramadura héraði mælist aðeins 0,32 prósentum lægri. Það helgast nú samt meira af því að þar er afskaplega lítið um sumarhús og markaðurinn nánast enginn.

Fræðingarnir hjá RR de Acuña segja spár sínar benda til að á allra vinsælustu stöðum; Costa del Sol, Castellón eða Kanaríeyjum geti lækkað um 50 prósent í viðbót á næstu fjórum til fimm árum. Benda þeir á að enn séu til í landinu öllu tvær milljónir sumarhúsa- og íbúða sem aldrei hafi selst og enginn hafi keypt. Sú bóla á eftir að springa og lækka duglega verðlag yfir línuna.

Niðurstaðan er því sú að fyrir Íslendinginn sem dreymir um eitt stykki hús á Spáni, og hver gerir það ekki, er þolinmæði lykilatriði.

 Lesa á Fararheill.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.