Lærðu að hnýta bindishnúta, slaufur og trefla

Að hnýta bindishnúta og slaufur er eitthvað sem flestir karlmenn þurfa að læra og að kunna leiðir til að hnýta trefla getur komið sér vel. Margir karlmenn virðast þó forðast það eins og heitan eldinn að koma sér af stað í að læra þessa hluti. Það getur hins vegar verið mjög einfalt. Margar mismunandi leiðir eru til þess að hnýta bindishnúta, slaufur og trefla en DV hefur tekið saman nokkrar algengar og einfaldar leiðir sem auðvelt ætti að vera að læra.

Bindi

Flestir karlmenn þurfa einhvern tímann á lífsleiðinni að læra að hnýta bindishnút. Margir hverjir eru með bindi í vinnunni á hverjum degi á meðan aðrir nota bindin einungis til hátíðarbrigða. Til eru nokkrir mismunandi bindishnútar sem henta við mismunandi tækifæri.

Einn einfaldasti bindishnútur sem um getur er fjórir-í-hendi hnúturinn. Leggðu bindið yfir hálsinn á þér þannig að breiði endinn sé um 30 sentímetrum síðari en stutti endinn. Krossaðu breiða endann yfir þann mjóa og snúðu svo breiða endanum undir þann mjóa. Farðu með breiða endann nú yfir mjóa endann og upp í gegnum hringinn sem bindið hefur myndað við hálsinn og þaðan niður í gegnum hnútinn sem er að myndast. Síðan þarf bara að herða hnútinn og þrengja aðeins að hálsinum með því að toga í lausa endann á bindinu.

Annar hnútur sem er líka mjög vinsæll er einfaldur Windsor-hnútur. Til að hnýta hann er byrjað eins og með fjórir-í-hendi hnútinn, með bindið á hálsinum með breiðari endann þrjátíu sentímetrum neðar en þann mjóa. Þú færir breiða endann í kringum mjóa endann og þaðan upp og yfir hringinn sem bindið hefur myndað við hálsinn og þaðan niður hægra megin við hnútinn sem er að myndast. Svo ferðu yfir hnútinn sem er að myndast með breiða endanum og upp vinstra megin í gegnum hringinn sem bindið hefur myndað við hálsinn, þaðan sem þú ferð svo með breiða endann í gegnum hnútinn og herðir að.

Þverslaufur

Það er ekki oft sem karlmenn hnýta sína eigin þverslaufu og margir virðast ekki leggja í það að hnýta slíka slaufu. Það er þó ekki mikið flóknara en að hnýta reimar á skóm, bara talsvert svalara.

Settu slaufuna utan um hálsinn líkt og venjulegt bindi með annan endann um 5 sentímetrum síðari en hinn. Krossaðu lengri endann yfir styttri endann og kræktu honum svo upp í gegnum hringinn sem slaufan hefur myndað utan um hálsinn. Brjóttu styttri endann saman þannig að hann verði tvöfaldur, þessi endi verður framhluti slaufunnar. Farðu með lengri endann í hring um styttri endann, sem nú ætti að vera tvöfaldur. Brjóttu þann enda svo saman og stingdu honum öfugum í gegnum hringinn sem þú varst að gera. Núna þarf bara að herða á slaufunni til að hún passi þér.

Það tekur nokkra æfingu að ná þessu vel en þegar þú nærð því gleymirðu aldrei hvernig þú átt að hnýta þverslaufu.

Treflar

Á veturna er eins gott að klæða sig vel og þrátt fyrir að sólin sé farin að hækka á lofti er enn kuldi í kortunum. Treflar eru tilvaldir til að halda á sér hita í kuldanum. En hvernig ætlarðu að binda trefilinn um hálsinn? Það eru til nokkrar leiðir sem virka flestar jafnvel gegn kuldanum en eru mjög mismundandi að stíl.

Parísarhnúturinn er líklegast vinsælasti treflahnúturinn. Til að binda trefil í parísarhnútinn þarftu að taka trefilinn með báðum höndum og brjóta hann saman á lengdina, leggja hann svo yfir hálsinn á þér og setja lausu endana í gegnum gatið á sem myndast hinum megin á samanbrotna treflinum. Þú getur leikið þér með þykktina á hnútnum með því að brjóta trefilinn tvisvar saman áður en þú bindir hann um hálsinn.

Eins hrings hnúturinn er aðeins lausari en parísarhnúturinn og gefur þar af leiðandi ekki alveg jafn mikla hlýju og sá persneski án þess þó að láta þig standa algjörlega óvarinn gagnvart kuldanum. Flestir karlmenn nota þennan hnút þegar þeir eru að flýta sér eða eru að fara stutta vegalengd með trefil. Til að binda eins hrings hnútinn þarftu einfaldlega að leggja hann yfir hálsinn á þér með annan endann lengri en hinn. Taktu svo lengri endann og vefðu honum einn hring utan um hálsinn og láttu hann svo hanga niður á bringu, krossar svo lausu endana hvorn um annan.

Lausi eins hrings hnúturinn er, eins og nafnið gefur til kynna, aðeins afslappaðri útgáfa af eins hrings hnútnum. Ef kuldinn er ekki þeim mun meiri og þú vilt að fá smá loft að hálsinum notarðu þennan hnút. Hnúturinn er aðallega notaður ef þú ert bara með trefilinn upp á stíl. Þú bindur lausan eins hrings hnút svipað og þú gerðir með venjulega eins hrings hnútinn, en sleppir því að krossa lausu endana eftir að þú ert búin að vefja honum um hálsinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.