Nútíma asísk matargerð

Dumpling-æði í Stokkhólmi smitast til Íslands

Asísk matargerð er í fyrirrúmi á nýjum stað sem var opnaður á fimmtudag á Bíldshöfða og er kallaður Nam. „Nam er stytting á nútíma asísk matargerð,“ segir einn eigenda staðarins, Einar Örn Einarsson. „Matargerðin hjá okkur er undir kínverskum og víetnömskum áhrifum, þetta er sterkur og bragðmikill en ferskur og hollur matur.“

Matargerð frá Asíu hefur notið vinsælda hér en Einar Örn segist ekki vita til þess að margir af þeim réttum sem fást á Nam hafi fengist hér áður. Meðal slíkra rétta eru soðnir deigboltar, „dumplings“, og þá er einnig hægt að kaupa sér bento-box, japanskt nestisbox til að taka með sér.

„Okkur finnst gaman að bjóða upp á slíkar nýjungar, við höfum verið að prófa okkur áfram í Svíþjóð þar sem er sannkallað æði fyrir þessari matarhefð. Maðurinn á bak við matinn á Nam er sænski kokkurinn Alex Sehlstedt, sem hefur mikla reynslu af asískum mat. Hingað streymir fólk sem hefur langað til að smakka svona hitt og þetta, dumplings og bento-boxin, udon-núðlur og margt fleira.“

Alex gefur lesendum DV uppskrift að rótsterkum og einföldum rétti sem gefur góða hugmynd um hvað bragðlaukarnir eiga í vændum á þessum nýja stað:

Wok-steikt sichuan-agúrka

Innihald

500 g agúrka

8 stk. heill þurrkaður chili-pipar

2 msk. heil sichuan-piparkorn

1 tsk. salt

4 msk. canola-olía

Aðferð

1. Hitið wok-pönnu vel. Pannan á að vera mjög heit.

2. Setjið í olíuna chili-piparinn og sichuan-piparinn. Steikið á pönnunni í smástund. Passið að piparinn brenni ekki.

3. Setjið gúrkuna út í, saltið og hrærið í um 30 sekúndur.

Alex: „Passið ykkur að hafa viftuna á allan tímann, það getur kitlað í hálsinn þegar svona mikið chili er steikt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.