Svona forðast þú dauðann

Tveir þriðju hlutar þeirra sem létu lífið í fyrra önduðust vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi eða krabbameins. Rétt liðlega 2.000 manns létu lífið á Íslandi í fyrra. Þar af létust liðlega 1.300 af áðurnefndum orsökum. Það er svipuð tölfræði og undanfarin ár en þegar horft er til lengri tíma kemur í ljós að krabbamein verður sífellt algengara. DV hefur tekið saman upplýsingar um algengustu dánarorsakir Íslendinga og hvernig koma má í veg fyrir að falla frá.

Blóðrásarsjúkdómar

Hagstofan heldur tölfræði um dánarorsakir Íslendinga. Þar kemur fram að 982 karlar létust í fyrra en 1.005 konur. Rúmlega sjö hundruð manns létust af völdum æða- og hjartasjúkdóma eða þess sem kallast sjúkdómar í blóðrásarkerfi. Undir sjúkdóma í blóðrásarkerfi falla til dæmis hjartasjúkdómar og heilablóðfall. Það er langalgengasta banameinið en ástæðu þess má samkvæmt Vísindavefnum rekja til þess að eftir því sem við eldumst verði frumuskiptingar í líkamanum hægari og því nái frumurnar ekki að endurnýja sig eins hratt og þarf til að halda óskertri getu og starfsemi. „Þetta leiðir til þess að allir vefir líkamans hrörna smám saman og á endanum bilar eitthvað sem líkaminn nær ekki að lagfæra, hann getur ekki starfað lengur og við deyjum,“ segir á Vísindavefnum.

Um 560 manns létust af völdum æxla, sem í daglegu tali nefnist krabbamein. Undir æxli falla flestallar tegundir krabbameins, til dæmis í ristli, brisi, brjósti, vélinda og maga.

Framangreindar orsakir verða tveimur þriðju hlutum þeirra sem andast að aldurtila.

Öndunar- og skynfæri

Þriðja algengasta banamein Íslendinga í fyrra voru sjúkdómar í öndunarfærum. Undir þannig skjúkdóma falla til dæmis inflúensa og lungnabólga.184 létu lífið úr slíkum sjúkdómum eða um 9 prósent þeirra sem létust í fyrra. Þar á eftir koma ytri orsakir áverka og eitrana. Undir ytri orsakir áverka og eitrana falla óhöpp af ýmsum toga, til dæmis umferðaróhöpp, sjálfsvíg, manndráp og atburðir þar sem óvíst er um ásetning. 125 manns, eða 6,3 prósent þeirra sem létust í fyrra, falla í þennan flokk.

Þar á eftir koma dauðsföll vegna geð- og atferlisraskana (3,1 prósent) og svo dauðsföll vegna sjúkdóma í meltingarfærum (2,9 prósent).

Undir framantalda fimm flokka falla um 94 prósent þeirra sem létust í fyrra.

Fyrirbyggið hjarta- og æðasjúkdóma

Fjörutíu ára rannsóknir Hjartaverndar hafa leitt í ljós að hjarta- og æðasjúkdómar eru á undanhaldi á Íslandi, þrátt fyrir að þeir séu enn algengasta dánarosök karla og kvenna. Því miður falla margir á besta aldri fyrir þessum sjúkdómum en margt er þó hægt að gera til að fyrirbyggja hjarta- og æðasjúkdóma. Helstu áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma eru reykingar, óheilbrigt mataræði, offita og fjölskyldusaga. Þessi þætti ber að forðast svo sem kostur er. Þá getur hjálpað mikið að stunda líkamsþjálfun reglulega og fylgjast með líkamsþyngd. Síðan er fólki ráðlagt að láta mæla áhættuþætti eins og blóðþrýsting, blóðfitur og blóðsykur með jöfnu millibili. Auk þess á fólk að taka fjölskyldusögu alvarlega, enda eru sjúkdómarnir að einhverju leyti tengdir erfðum.

Þriðjungur fær krabbamein

Krabbamein er, eins og áður sagði, næstalgengasta orsökin fyrir því að fólk deyr á Íslandi. Árin 2003 til 2007 greindust að meðaltali 688 karlar og 619 konur með krabbamein samkvæmt Krabbameinsskrá Íslands. Í árslok 2007 voru 10.195 einstaklingar sem greinst höfðu með krabbamein en um þrijðungur Íslendinga fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Meira en helmingur allra æxla greinist eftir 65 ára aldur.

Ekki er vitað nákvæmlega hvernig krabbamein verður til en atburðarásin sem leiðir til myndunar þess er flókin og þar kemur við sögu samverkan margra þátta. Þekkt er að reykingar auka stórlega hættuna á að fá lungnakrabbamein og fleiri krabbamein. Talið er að reykingar séu orsök allt að 20 prósenta allra krabbameina og skýrir það hina miklu áherslu sem er lögð á tóbaksvarnir. Verulega má draga úr líkum á krabbameini með því að reykja ekki eða hætta að reykja. Um 90 prósent lungnakrabbameina eru rakin til reykinga.

Mataræði skiptir máli

Um 16 prósent þeirra kvenna sem deyja vegna krabbameins fá krabbamein í brjóst. Lítið er vitað um orsakir brjóstakrabbameins en rannsóknir hafa þó sýnt að hollt og fjölbreytt mataræði og regluleg hreyfing geta dregið úr líkum á því að konur fái krabbamein. Það gildir raunar um flestar, ef ekki allar, tegundir krabbameins.

Krabbamein í blöðruhálskirtli er upphafleg orsök andláts hjá fimmtungi þeirra karla sem látast úr krabbameini. Orsakir þessa meins þekkja menn illa en hormónajafnvægið hefur eitthvað að segja. Vísbendingar benda til þess að mataræði spili inn í en þessi tengund krabbameins er mun algengari í Norður-Evrópu og Bandaríkjunum en í Japan. Eitthvað í vestrænu umhverfi leiðir því frekar til krabbameins í blöðruhálskirtli en í Japan.

Matur gegn krabbameini

Rannsóknir sýna að hægt er að koma í veg fyrir allt að eitt af hverjum þremur krabbameinstilfellum með því að borða hollari mat, stunda líkamsrækt reglulega, stilla drykkju og sólböðum í hóf og halda sig frá reykingum. Í bókinni Bragð í baráttunni - matur sem vinnur gegn krabbameini, kemur fram að fjölmargar tegundir matvæla geta haft fyrirbyggjandi áhrif á krabbamein. Þar á meðal eru sveppir, rauðvín og súkkulaði.

Hér til hliðar má sjá lista yfir matartegundir sem geta komið í veg fyrir krabbamein.

LISTI:

Dæmi um mat sem vinnur gegn krabbameini:

Sveppir - Asískir sveppir geta dregið úr vexti krabbameinsæxlisfrumna.

Kryddjurtir - Til dæmis búa engifer, chili-pipar, mynta, timjan og óreganó yfir krabbameinshamlandi og bólgueyðandi sameindum.

Kálmeti - Getur dregið úr hættu á lungna-, þvagblöðru- og brjóstakrabba og krabbameini í meltingarvegi.

Hvítlaukur - Lyktarsameindir í hvítlauk geta hraðað eyðingu eitraðra krabbameinsvaldandi sameinda.

Sítrusávextir - Geta minnkað líkur á krabbameini í vélinda, munni og maga um allt að helming.

Ber - Afurðir eins og rauðvín geta haft jákvæð áhrif á hjarta- og æðakerfið og geta virkað gegn æxlismyndun.

Súkkulaði - Vísbendingar eru um að krabbameinshamlandi efni séu í kakómassa. Getur einnig fyrirbyggt hjarta- og æðasjúkdóma.

Karlar sem létust af völdum krabbameins:

Lungu 24%

Blöðruhálskirtill 18%

Ristill 9%

Magi 5%

Bris 6%

Nýru 5%

Þvagrásir 4%

Önnur líffæri 29%

- Árin 2003 til 2007 - skipting eftir upprunalífæri meinsins -

Konur sem létust af völdum krabbameins:

Lungu 25%

Brjóst 16%

Ristill 8%

Magi 5%

Bris 6%

Eggjastokkar 6%

Heili 3%

Önnur líffæri 31%

- Árin 2003 til 2007 - skipting eftir upprunalífæri meinsins -

Verðum 81 árs

Lífslíkur við fæðingu voru 79,1 ár að meðaltali í ríkjum OECD árið 2007 og höfðu aukist um rúm tíu ár frá árinu 1960. Árið 2007 voru ævilíkur á Íslandi 81,2 ár, eða þær fimmtu hæstu meðal ríkja OECD. Lífslíkur íslenskra karla voru 79,4 ár, aðeins lægri en í Sviss þar sem þær voru hæstar. Lífslíkur kvenna á Íslandi voru 82,9 ár eða í 10.-12. sæti OECD-landa ásamt Austurríki og Noregi. Hæstar voru þær í Japan, 86,0 ár. Kynjamunur á ævilíkum við fæðingu var 5,6 ár að meðaltali í ríkjum OECD en minnstur á Íslandi, 3,5 ár.

Staðreyndir um dánarorsakir

- Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök í flestum löndum OECD og voru 36% dánarmeina árið 2006 (Ísland 38%). Í þessum flokki dánarmeina eru blóðþurrðarsjúkdómar og heilablóðfall.

- Krabbamein er önnur helsta dánarorsök í löndum OECD (27 prósent) og er tíðnin hærri meðal karla en kvenna. Karlar á Íslandi voru með þriðju lægstu dánartíðni vegna krabbameins (174 á 100.000 íbúa) árið 2006, næst á eftir Svíþjóð og Mexíkó en 13 lönd voru með lægri dánartíðni kvenna af völdum krabbameins en Ísland.

- Dánartíðni vegna umferðarslysa var 8,2 á hverja 100.000 íbúa á Íslandi árið 2006, samanborið við 9,6 í löndum OECD. Tíðnin hefur dregist saman um 28 prósent á Íslandi frá 1970 en um 58 prósent að meðaltali í OECD-ríkjunum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.