Snjalltækjabörnin okkar

Mynd: 123rf.com

Hér áður fyrr var til siðs að halda bókum að börnum. Nú er það hins vegar talið hluti af því að koma þeim til manns að rétta þeim snjalltækið, strax barnungum. Smábörn vappa um meðal okkar, hæstánægð að sjá og glápa á skjáinn. Þau eru gera það sama og mamma og pabbi.

Þarna virðist hamingjan þó að mestu vera á yfirborðinu. Æ fleiri rannsóknir sýna að kvíði meðal barna og unglinga fer vaxandi. Bandarískur sálfræðiprófessor, sem skrifað hefur bók um þetta efni, sagði nýlega að snjalltæki væru mesta ógnin við geðheilsu ungmenna. Ungmenni nútímans eru í stöðugu sambandi við aðra í gegnum tæki og sum eyða meiri tíma í símanum en með fólki. Allir kannast við að sjá ungmenni, og reyndar einnig þá fullorðnu, sitja saman við borð á veitingastað en ekki er talast við því allir eru uppteknir af snjalltækjunum sínum. Varla geta þetta talist mjög gefandi samskipti.

Í nýlegu sjónvarpsviðtali sagðist sálfræðingur hjá Kvíðamiðstöðinni ekki muna eftir nokkru barni, sem þangað hefur leitað, sem hefur að venju að lesa fyrir svefninn. Ungmenni hafa hins vegar flest tamið sér þann sið að skoða snjalltækið sitt fyrir svefninn og yfirleitt er það einnig fyrsta verk þeirra þegar þau vakna.

Flest ungmenni eyða dágóðum tíma í snjalltækjum sínum, jafnvel nokkrum klukkutímum. Fullyrða má að langflest þeirra eyði ekki svo miklum tíma í að lesa bækur sér til ánægju. Vissulega er engin ástæða til að stimpla snjalltæki sem tæki djöfulsins sem leiði böl yfir eigendur sína og kasti þeim í kviksyndi þunglyndis og kvíða. Við getum hins vegar ekki afneitað þeim rannsóknum sem sýna að óhófleg notkun snjalltækja skapi kvíða hjá ungmennum. Um leið er erfitt að banna eða takmarka notkun þeirra. Ef ungmenni fær tæki í hendur á barnsaldri, sama tæki og foreldrar þess eyða miklum tíma í, þá er erfitt að hrifsa það skyndilega af því og segja notkun þess of neikvæða og tímafreka. Börnin læra fremur auðveldlega það sem fyrir þeim er haft. Þeim er kennt að glápa á skjáinn á snjalltækjum því það er einmitt það sem hinir fullorðnu gera.

Stöðugt er verið að minna foreldra á að halda bókum að börnum sínum. Og blessunarlega finnast fjölmargir foreldrar sem kjósa fremur að sitja með barni sínu og lesa fyrir það, eða með því, í stað þess að sýna því snjalltækið. Þeir mættu samt vera svo miklu fleiri. Bóklestur er gefandi og þroskandi. Hann eflir samkennd, auðgar ímyndunaraflið og víkkar sjóndeildarhringinn. Þar er eftir miklu að sækjast.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.