Að flokka börn

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í kosningabaráttunni fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar voru oddvitar Framsóknarflokksins sakaðir um andúð í garð múslima. Ekki vildu þeir kannast við að svo væri og þáverandi formanni flokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, var jafn misboðið og þeim. Ef þessar ásakanir voru tilefnislausar með öllu hefði mátt búast við að borgarfulltrúarnir myndu gæta sín á því að haga orðum sínum um múslima og flóttamenn eftirleiðis á þann hátt að þau yrðu ekki misskilin. Nýlega talaði Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins, í útvarpsviðtali um sokkinn kostnað vegna flóttabarna. Hún gældi síðan við hugmynd um að stofna sérskóla fyrir börn flóttafólks. Af samhengi orða hennar varð ekki ráðið að umhyggja fyrir þessum börnum væri henni ofarlega í huga.

Illu heilli þagði áhrifafólk í Framsóknarflokknum þunnu hljóði í síðustu borgarstjórnarkosningum þegar frambjóðendur flokksins voru sakaðir um andúð á múslimum og virtist þannig vera að leggja blessun sína yfir orð sem aldrei hefðu átt að falla. Vegna þessa hefur vondur stimpill loðað við Framsóknarflokkinn, sem er ekki sanngjarnt því þar er innanborðs gnægð af vel meinandi og upplýstu fólki. Þarna eiga sömu lögmál við og í skólastofunni, það þarf ekki nema örfáa villinga til að koma óorði á allan bekkinn.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, virðist hafa hlustað á þá gagnrýni sem hún og stallsystir hennar fengu á sínum tíma. Hún hefur stigið fram og sagst vera ósammála Sveinbjörgu Birnu. Hið sama hefur hinn öflugi stjórnmálamaður Lilja Alfreðsdóttir gert, auk margra annarra áhrifamanna í Framsóknarflokknum. Vitaskuld mislíkar þessu fólki að flokkssystir þeirra tali andvarpandi um kostnað vegna barna flóttafólks.

Það ætti að vera erfitt fyrir alla þá sem varðveita mennsku að horfa upp á börn í neyð. Það á ekki að vera til flokkun á börnum þar sem útlendu börnin eru talin ómerkilegri en þau íslensku og afgreidd sem íþyngjandi baggi í þjóðfélaginu. Vill fólk virkilega fara í þann gír að reikna útlagðan kostnað vegna barna flóttafólks og kvarta svo og kveina undan honum? Og góla síðan að það væri hægt að hjálpa svo og svo mörgum íslenskum börnum sem búa við fátækt með því að sleppa því að sinna útlendu börnunum. Í málflutningi eins og þessum eru flóttamennirnir og börn þeirra nánast afgreidd eins og séu þau sníkjudýr á íslensku samfélagi.

Með öllum ráðum þarf að berjast gegn þessum viðhorfum. Okkur ber skylda til að rétta þeim hjálparhönd sem búa við neyð, bæði Íslendingum og þeim útlendingum sem hingað leita í von um betra líf. Stjórnmálaflokkar sem viðurkenna ekki þessa sjálfsögðu skyldu eiga vonandi ekki eftir að ná áhrifum hér á landi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.