Kærleiksboðskapur biskups

Þjóðkirkjan á nokkuð undir högg að sækja og það er eins og þjónar kirkjunnar viti sumir hverjir ekki hvernig bregðast eigi við. Þeir ættu þó að standa keikir. Stundum kann að virðast sem almennt áhugaleysi ríki um störf þeirra en svo er þó ekki. Til þeirra er leitað varðandi stærstu viðburði í lífi fólks. Prestar þjóðkirkjunnar skíra einstaklinga, ferma, gifta og þegar kemur að hinni óumflýjanlegu brottför úr þessum heimi tala þeir yfir moldum okkar. Enn tíðkast að kalla til presta þegar hörmulegir atburðir gerast og með litlum fyrrvara er boðað til minningastunda í kirkjum þar sem fjölmenni kemur saman. Þar er presturinn, eins og svo oft á lífsleið hans, í hlutverki sálusorgara. Einstaklingur sem er í starfi þar sem talin er mikil þörf fyrir hann á gleði- og sorgarstundum er að vinna mikilvæg verk.

Prestar eiga að starfa eftir kærleiksboðskap Krists og það eiga þeir ekki bara að gera við þægilegar aðstæður, heldur einnig við þær slæmu og óþægilegu. Þeir geta ekki vikið sér undan og sagt: Mér kemur þetta ekki við. Prestar kunna guðsorðið betur en við hin, en verða líka að vera tilbúnir að berjast í nafni þess. Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, gerir sér grein fyrir þessu.

Íslenska þjóðkirkjan hlýtur að láta sig varða um aðstæður þeirra flóttamanna sem hingað leita í neyð. Agnes M. Sigurðardóttir hefur ítrekað talað máli þeirra og hvatt til þess að Ísland skoði aðild sína að Dyflinnarreglugerðinni og ef ekki sé hægt að segja sig frá henni þá eigi að minnsta kosti að túlka hana rúmt. Nýlega steig biskup svo fram á ritvöllinn og beindi því til stjórnvalda að leyfa afganskri fjölskyldu að setjast að á landinu.

Agnes hefur orðið fyrir ámæli fyrir að tala máli flóttamanna og jafnvel hefur því verið haldið fram að þarna sé biskup rækilega að fara út fyrir valdsvið sitt. Vitanlega er ekki svo. Illa væri komið fyrir biskupi landsins ef hann væri farinn að gleyma kristnum kærleiksboðskap. Í skrifum sínum og ræðum vitnar Agnes einmitt iðulega í orð frelsarans. Í nýjustu grein sinni rifjaði hún upp þessi orð Krists: „Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig.“

Útlendingaandúð fyrirfinnst því miður hér á landi í allt of miklum mæli og hefur einkum beinst að múslimum. Það er hlutverk kirkjunnar að tala máli mannúðar og náungakærleika, og ekki síst í umræðum um flóttamenn og útlendinga. Það hefur Agnes M. Sigurðardóttir gert af miklum skörungsskap. Sem betur fer hafa margir prestar landsins tekið undir áherslur hennar. Þeir mættu samt vera enn fleiri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.