Góðir grannar í Garðabæ

Eitt af því einkennilega við íslenskt samfélag er að það er eins og alveg sérstök lögmál gildi hér á landi þegar kemur að verðlagningu. Það hefur nánast verið ætlast til þess að neytendur sýni því ríkan skilning þegar verið er að okra á þeim. Hvað eftir annað hafa þeim verið send þau skilaboð að vilji þeir ekki borga það sem upp sé sett þá geti þeir étið það sem úti frýs. Íslenskir neytendur hafa löngum sýnt okrurum sínum mikið langlundargeð og borgað það sem upp er sett nánast möglunarlaust – enda hafa þeir oft ekki átt val um annað.

Það er sannarlega við hæfi að Costco og IKEA séu grannar í Garðabæ.

Frá þessu eru þó vissulega undantekningar og má þar nefna tilkomu Bónuss á sínum tíma, sömuleiðis ELKO og ekki má gleyma IKEA. Og nú höfum við fengið Costco. Tilkoma Costco er mikill happafengur fyrir íslenska neytendur sem hafa sannarlega ekki stillt gleði sinni í hóf. Á samfélagsmiðlum deila tugþúsundir reynslu sinni af viðskiptum við Costco og bera saman við verð hjá öðrum verslunum hérlendis. Þessi neytendavakt tugþúsunda haukfránna augna er besta aðhald sem íslensk verslun hefur fengið í langan tíma. Bent hefur verið á að þessi verðsamanburður sé ekki alltaf sanngjarn og það er örugglega rétt. En það breytir engu um að hann er sanngjarn í langflestum tilvikum. Íslensk verslun hefur einfaldlega alls ekki verið nægilega neytendavæn og á köflum ansi fruntaleg.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hinn dugmikli framkvæmdastjóri IKEA, Þórarinn Ævarsson, sagði í nýlegu viðtali: „Ég tel íslenska verslun eiga mjög lítið inni hjá neytendum. Menn hafa farið fram með truntuskap og okri mjög lengi og fólk hefur almennt fundið það.“ Þetta er hárrétt greining á stöðunni og rímar fullkomlega við upplifun neytenda.

Framkvæmdastjóri IKEA hefur verið ólatur við að tala máli neytenda og reyndar svo mjög að hann sagði eitt sinn að fyrirtæki sitt hefði skilað of miklum hagnaði. Landsmenn ráku vitaskuld upp stór augu við þau orð, enda fremur óvanir því að þeir sem reka fyrirtæki setji hag neytenda í fyrsta sæti.

Það er sannarlega við hæfi að Costco og IKEA séu grannar í Garðabæ. Það setur líka góðan svip á bæjarfélag sem í umræðu manna á milli er alltof oft kennt við gulldrengi, silfurskeiðar og græðgi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.