fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
FréttirLeiðari

Hættulegt afstöðuleysi

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 9. maí 2017 09:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ekki algengt í kosningum að valkostir séu jafn skýrir og þeir voru í frönsku forsetakosningunum. Þar stóð valið milli tveggja gjörólíkra frambjóðenda og himinn og haf voru á milli stefnumála þeirra. Skiljanlega beindust augu umheimsins að þessum kosningum því mikið var í húfi. Frjálslynt fólk um allan heim andvarpaði léttar þegar ljóst var að miðjumaðurinn Emmanuelle Macron hefði unnið stórsigur á andstæðingi sínum, þjóðernissinnanum Marine Le Pen. Mannúðin sigraði en það breytir hins vegar ekki því að það er verulegt áhyggjuefni að þriðjungur kjósenda hafi viljað sjá Le Pen á forsetastóli.

Það er umhugsunarefni fyrir alla þá sem láta sig stjórnmál einhverju varða hversu lítil kjörsókn var í þessum mikilvægu kosningum. Vissulega er það svo að víða um heim ríkir tortryggni í garð hefðbundinna stjórnmálaflokka og traust á stjórnmálamönnum er lítið. Algengt er að litið sé á þá sem varðhunda kerfisins og eiginhagsmunaseggi sem láti sig kjör venjulegs fólks litlu varða. Það verður hins vegar ekki sagt að Macron og Le Pen séu sama tóbakið. Sá fyrrnefndi er fulltrúi hófsemi og umburðarlyndis meðan sá seinni er fulltrúi öfga og fordóma. Þegar valkostirnir eru jafn skýrir og í frönsku forsetakosningunum (og ekki má gleyma þeim bandarísku þar sem úrslitin voru hörmuleg) þá hafa kjósendur ekki efni á að sitja heima. Stundum er afar mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað maður vill alls ekki og bregðast við samkvæmt því. Það var siðferðileg skylda allra franska kjósenda sem vilja standa vörð um mikilvæg húmanísk gildi að kjósa Macron og kjósa þannig gegn fasískri hugmyndafræði Le Pen.

Þeir kjósendur sem sátu heima eða skiluðu auðu í frönsku forsetakosningunum voru í reynd að segja að þeim væri svosem sama þótt hin öfgasinnaða Le Pen yrði forseti. Myndin af Donald Trump og Le Pen hjala saman um gæluverkefni sín og gera sameiginlegar áætlanir í Hvíta húsinu og Elysée-höllinni hafa greinilega ekki verið hrollvekjandi í hugum þessara kjósenda – sem er vissulega einkennilegt. Þetta eru ekki beinlínis einstaklingar sem hafa frelsi, jafnrétti og bræðralag í hávegum.

Stundum er vissulega freistandi fyrir kjósanda að yppta öxlum þegar kemur að kjördegi og tauta að engu skipti hvað hann kjósi, ekkert muni breytast. En það getur ansi mikið breyst á stuttum tíma komist fulltrúi mannfjandsamlegra viðhorfa í æðstu valdastöðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala