Eftirspurn: Engin

Nýstofnaður Sósíalistaflokkur Íslands er tímaskekkja. Flokkurinn hefur fengið allnokkra umfjöllun í fjölmiðlum sem skýrist líklega aðallega af því hversu skringileg hugmyndin er. Áhugi fjölmiðla á Sósíalistaflokknum endurspeglar hins vegar ekki áhuga almennings en þar virðist hann lítill sem enginn.

Dræmar undirtektir almennings hljóta að vera stofnendum Sósíalistaflokksins vonbrigði. Þeir hafa sennilega vonast eftir því að þjökuð alþýðan flykktist á Austurvöll 1. maí og fagnaði því að hafa loks fundið samastað í flokki sem hatast við auðvaldið og kveðst ætla að hrifsa valdið af hinum illu forréttindastéttum og færa það til fólksins. En getur verið að fólki finnist það ekki vera kúgað og sjái ekki þörf á því að taka skírn til sósíalisma? Allavega lét þjóðin ekki sjá sig á Austurvelli 1. maí, þar sem fulltrúar Sósíalistaflokksins hreiðruðu um sig og biðu kjósenda sinna.

Þegar litið er á helstu baráttumál Sósíalistaflokksins þá skera þau sig furðu lítið frá áherslum þeirra vinstri flokka sem fyrir eru í landinu. Farið er fram á mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, krafist er aðgengi að ódýru húsnæði og gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi og þeim ríku er ætlað að greiða sitt til samfélagsins. Eitt af gælumálum Sósíalistaflokksins snýst svo um styttingu vinnuviku til að bæta lífsgæði fólks.

Satt best að segja felst engin sérstök róttækni í þessum stefnumálum. Kjósendur gætu allt eins kosið Vinstri-græn eða Samfylkinguna. Munurinn virðist helst felast í því að innan Sósíalistaflokks Íslands er jafnvel talað um nauðsyn þess að gera byltingu svo hægt sé að koma stefnumálunum til framkvæmda. Það setur reyndar strik í reikninginn hjá Sósíalistaflokknum að það er erfitt að undirbúa byltingu ef þjóðin nennir ekki að taka þátt í henni.

Ný-sósíalistarnir tönglast á frösum um alræði auðstéttarinnar, stöðuga fólsku hennar og rányrkju og nauðsyn þess að taka frá henni völdin. Ríka fólkið á víst að vera allt aðrar manneskjur en aðrir, það veit til dæmis ekkert um list, lætur sér á sama standa um aðra og hefur bara áhuga á peningum.

Rétt er að spyrja: eru þetta einungis frasar ætlaðir til atkvæðaveiða eða liggur alvara á bak við þá? Flokkast til dæmis allir fyrirtækjaeigendur og forstjórar landsins til auðstéttar? Og sömuleiðis allir þeir sem hafa grætt á atvinnu sinni? Vill Sósíalistaflokkurinn svipta þetta fólk atvinnu sinni og fara í stórfellda eignaupptöku? Sé svo ætti það að koma skýrt fram í stefnuskrá flokksins. Um leið væri orðið morgunljóst hvaða hugmyndafræði flokkurinn fylgir – og sú er ekki geðsleg. Slagorðin um hina þjáðu alþýðu og hið illa kapítal hrífa greinilega ekki þjóðina, enda byggja þau á hugmyndafræði sem er löngu úrelt.

Sósíalistaflokkur Íslands er undarleg viðbót við íslenska flokkakerfið. Undirtektir hafa verið svo dræmar að ómögulegt er að ætla annað en að flokksins bíði þau örlög að deyja drottni sínum hægt og hljótt, hugsanlega nokkuð fyrir næstu alþingiskosningar. Verður hann fáum harmdauði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.