Borgaralegi Píratinn

Reglulega berast fréttir af innri átökum milli Pírata og nú síðast að Ásta Guðrún Helgadóttir hefði hætt sem þingflokksformaður vegna ágreinings við meirihluta þingflokksins. Allt gerðist þetta með ósköpum, þingmenn Pírata ruku út af fundi á Alþingi og héldu á þingflokksfund og síðan var tilkynnt að þingflokksformaður væri hættur.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir í viðtali að ágreiningurinn snúist um skipulag, hvernig nálgast eigi störf þingflokksformannsins og hvernig skipta eigi hlutverkum innan þingflokksins. Ásta Guðrún reyndist vera alltof borgaraleg því hún vildi hefðbundið skipulag í þessum efnum. Sú skoðun hennar virðist hafa hljómað ægilega í eyrum Pírata. Þeir virðast telja það höfuðsynd að elta ólar við margreynt verklag. Betra sé að finna upp hjólið, æ ofan í æ. Ásta Guðrún hlaut því að víkja. Smári McCarthy segir að þingflokkurinn vilji ekki festast í því formi sem honum var sett af þinginu. Þessi orð hljóta að vekja athygli. Þingflokkurinn sér sem sagt enga ástæðu til að fara eftir þeim hefðum sem ríkja á þingi. Þær eru alltof borgaralegar og gamaldags fyrir Pírata, sem vilja finna upp sitt eigið form. Þeir vita ekki alveg hvaða form það er, en munu ætla að nota sumarið til að deila um það.

Þeir sem gefnir eru fyrir drama geta hrósað Pírötum fyrir það að aldrei er lognmolla í kringum þá. Í þessum flokki teljast regluleg upphlaup vera hluti af flokksstarfi og þegar lætin verða svo mikil að jafnvel dramatískustu flokksfélagar þola þau ekki þá er kallaður til vinnustaðasálfræðingur. Ekki skal fullyrt hér að hann verði kallaður til vegna hinnar djörfu hugmyndar Ástu Guðrúnar að fara eftir hefðbundnum vinnuaðferðum þingsins.

Það fer lítið fyrir samheldni í flokki fólks sem ætlaði að umbylta íslensku samfélagi og gera það opnara og lýðræðislegra. Opinbert ósætti er orðin ófrávíkjanlegur þáttur í flokksstarfi Pírata. Um leið er ástæða til að efast um getu Pírata til að taka að sér þær lýðræðisumbætur sem þeir tala svo fjálglega um. Þeir virðast ekki geta iðkað innan flokks það sem þeir predika á torgum. Þjóðin gerði sér í tíma grein fyrir því hversu ósamkvæmir sjálfum sér Píratar eru. Hún var að því komin að veita Píratastjórn brautargengi í alþingiskosningum, en það æði rann blessunarlega af henni í kjörklefanum. Niðurstaðan varð framgangur hægri og miðju afla, sem er svo sem ekki það versta sem gat hent þessa þjóð.

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með Pírötum grafa markvisst undan eigin trúverðugleika með óheppilegum uppákomum og stöðugum innbyrðis deilum. Lítill áhugi virðist á því innan flokksins að koma á föstum strúktúr þar sem viss agi ríkir. Allir eiga að fá að leika lausum hala með tilheyrandi dómsdagshávaða. Slíkur flokkur er varla trúverðugur valkostur í hugum kjósenda.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.